“skrítinn og sköllóttur karl”

   Ég fékk mér göngutúr um götur Búðardals í gær. Gekk út á bakkana, þar sem tún Jóns heitins Hallssonar eru að búa sig í vetrarbúninginn. Síðan lá leiðin inn með gömlu útihúsunum og íbúðarhúsinu, sem nú hefur verið gert upp og fært í upprunalegt horf að hluta.  Það byggði Sigurður Sigurðsson fyrsti héraðslæknirinn í Búðardal um aldamótin 1900 og var svokallað katalóghús frá Noregi. Hafa hinir norsku viðir reynst vel. Veðrið var ómótstæðilegt  eftir árstíma, aðventan á næsta leyti, tæplega andvari, Hvammsfjörðurinn spegilsléttur og æðarfuglinn enn uppi við land; hitinn eins og á góðum vordegi. Fólkið var útivið að þrífa bílana sína og huga að öðru, sem þarfnaðist athygli fyrir veturinn.

  

   Þar sem ég var á Ægisbrautinni rétt vestan við gamla sýslumannsbústaðinn mætti ég Haraldi Leví Árnasyni frá Lambastöðum í Laxárdal, fyrrum sýsluskrifara og margfróðum Dalamanni. Hann var á göngu eins og ég.  Með hans hjálp vildi ég reyna að átta mig á hvar litla húsið hans Guðmundar Ingvarssonar frá Hóli í Hvammssveit hafði staðið þarna rétt ofanvið á neðra barðinu. Aðalsteinshús var það lengst af kallað. Það brann fyrir aldarfjórðungi og Guðmundur með við annan mann.

  

Haraldur leysti úr þessu fljótt og vel en sagði mér eitt og annað í leiðinni. Böðvar nokkur Marteinsson, eldsmiður, sem jafnan var kenndur við Hrútsstaði, hafði byggt þetta hús á fyrsta hluta tuttugustu aldarinnar.  Þegar Böðvar bjó þar, bar að gest, sem baðst næturgistingar. Kom hann ekki af landi heldur af hafi. Það sem kom á óvart var, að hann var fótgangandi og kom frá Borðeyri í Hrútafirði. Úti var bylur og tæplega ratljóst. Hafði bóndinn farið í kaupstaðinn fyrir jólin en fengið blindbyl á leiðinni heim og ratað í villu á Ljárskógafjalli. Missti hann fótanna á klettsnefi, tapaði taumnum, fór fram af klettinum og lenti í Fáskrúð, sem var á ís. Honum var ljóst að hann hafði ekki mið heim til bæjar í bylnum og valdi því að fylgja ánni til sjávar. Áttaði hann sig ekki fyrr en það blotaði í fæturna á ísnum og vissi þá, að hann var kominn út á Hvammsfjörð. Fór hann út með ströndinni á ísinum og kom að landi í Búðardal og beiddist gistingar í litla húsinu rétt ofan fjörunnar eins og áður sagði. 

  Þetta var Jónas Jóhannesson, bóndi í Ljárskógaseli 1900-1924 og faðir Jóhannesar úr Kötlum. Jóhannes gerði föður sínum  kvæði, þar sem finna má fyrirsögn þessa pistils.  Jóhannes þekkti ég ekki en Guðrúnu systur hans kynntist ég á hennar efstu árum og fylgdi allt til dauðadags. Þar fór róleg en stórlynd kona, sívinnandi eins og allt þetta fólk, sem ólst upp við hin kröppu kjör einyrkjans.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér fyrir áhugaverða sögu.

Gunnar M Sandholt (IP-tala skráð) 21.11.2010 kl. 23:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband