Hvernig hefðu þeir farið að Mandela og Kristur?

Ég horfi stundum á fuglana út um gluggann heima hjá mér. Starrarnir berast um í hópum. Þeir virðast flögra stefnulaust frá einum stað til annars og ómögulegt er að sjá hvað ræður för þeirra. Kannski brestur í grein eða opnaður er gluggi. Þegar líður á daginn stækkar hópurinn. Þá er markmiðið orðið ljósara - að fara í öruggan náttstað. Þetta er svolítið svipað með þjóðina. Hún flögrar frá einni hugsun til annarrar. Það er eins og hún sé á ferðalagi í vandræðum sínum. Ljóð er ferðalag frá einni hugsun til annarrar sagði skáldið á sinni tíð. Það er tæplega hægt að kalla okkar tíma ljóð og enn síður skáldskap. Til þess eru þeir alltof raunverulegir.

Það er auðvelt að blaka við hugsun þjóðarinnar. Sú aðferð er notuð til að hrekja hana af leið. Nú fer orka hennar í að velta fyrir sér sundurlindi á stjórnarheimilinu, upplausn vinstri manna og meintu framhjáhaldi. Þetta virðist skipta öllu máli nú.   

Það er þægilegt líf að stjórna svona þjóð, sem telur það sitt brýnasta verkefni að ræða, hvort þremenningarnir hafi greitt einu eða öðru atkvæði vegna grundvallarsjónarmiða eða hefnigirni.

En saman mun þjóðin finna sér öruggan náttstað - eins og fuglar himinsins.

Þannig bloggaði ég í desember 2008 að breyttu breytanda. Bent hefur verið á að ekkert hafi breyst í þjóðfélaginu frá hruni og má það til sanns vegar færa. Sökin er tæplega fárra og enn síður einhverra annarra en okkar. Breytingin kemur aðeins með okkur, með nýjum tímum og siðum, sem við stöndum fyrir.

Hvernig hefðu þeir farið að Mandela og Kristur? Hefðu þeir orðað hugsanir sínar eins og víða má sjá á blogginu nú um stundir?

Gleðileg jól.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð lýsing Sigurbjörn.

Bestu jólakveðjur til ykkur Línu með þakklæti fyrir allar góðu samverustundirnar - og góðu ráðin.

gá og mg

Gunnar Ármannsson (IP-tala skráð) 24.12.2010 kl. 12:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband