Ályktun aðalfundar Læknafélags Íslands, 2005, um öryggi sjúklinga við veitingu heilbrigðisþjónustu

Aðalfundur Læknafélags Íslands, haldinn í Kópavogi dagana 30. september og 1. 
október 2005 skorar á heilbrigðis- og tryggingarráðherra og heilbrigðis- og 
trygginganefnd Alþingis að hafa forgöngu um að ríkisstjórnin leggi fram á Alþingi 
frumvarp til laga um öryggi sjúklinga við veitingu heilbrigðisþjónustu. 
 
Greinargerð: 
Á síðustu mánuðum (2005) hafa af og til verið fréttir í fjölmiðlum um öryggi sjúklinga þegar 
þeir þurfa að leita til heilbrigðiskerfisins. Hefur fréttaflutningurinn snúist um það að 
tiltekinn fjöldi sjúklinga, bæði erlendis og hér á landi, hefur látist eða hlotið af annan 
skaða vegna atvika sem rekja má til mistaka eða óhappa við meðferð hinna sjúku. 
Hafa sumar fréttirnar snúist um það hvernig megi refsa þeim sem valdur er að tilteknu 
óhappi og aðrar fréttir hafa snúist um hvort og hvernig megi koma í vega fyrir 
óheppilegar afleiðingar veitingu heilbrigðisþjónustu. 
 
Rannsóknir erlendis hafa sýnt fram á að dauðsföll vegna mistaka eða annarra óhappa 
við veitingu heilbrigðisþjónustu eru umtalsverð. Af þeirri ástæðu er eðlilegt að álykta 
að mistök eða önnur óhöpp sem hafa ekki eins alvarlegar afleiðingar í för með sér og 
andlát séu enn fleiri. Þessar staðreyndir hafa legið fyrir lengi, þótt umfangið hafi ekki 
verið vitað með vissu. 
 
Sú staðreynd að vitað er að sjúklingar geti hlotið skaða af veitingu heilbrigðisþjónustu 
vegna mistaka eða annarra óhappa hefur verið viðurkennd af löggjafanum, m.a. með 
setningu laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingar. Með þeim lögum var tilgangurinn 
m.a. sá að auðvelda tjónþolum að fá bætur vegna óheppilegra afleiðinga við veitingu 
heilbrigðisþjónustu. Rökin fyrir setningu laganna voru m.a. þau að vegna 
sönnunarvandkvæða væri um sanngirnis mál að tefla, öflun vitneskju um það sem 
betur mætti fara myndi verða auðveldari og draga myndi úr fjölda bótamála fyrir 
dómstólum. 
 
Tilgangur laga nr. 111/2000 hefur ekki að öllu leyti gengið eftir. Þar sem hámark er á 
bótafjárhæðum hafa ekki allir sjúklingar fengið tjón sitt að fullu bætt úr 
sjúklingatryggingunni. Það hefur aftur haft í för með sér að lögmenn, sem sækja bætur 
fyrir hönd sjúklinga sinna úr sjúklingatryggingunni, hafa í auknum mæli jafnframt 
beint bótakröfum að viðkomandi heilbrigðisstarfsmanni og vinnuveitanda hans til að 
tryggja hagsmuni skjólstæðinga þeirra. Af þeirri ástæðu hefur bótamálum fyrir 
dómstólum fækkað minna en að var stefnt og þar með viðhaldið leitinni að tilteknum 
blóraböggli vegna umrædds tjóns. Sú staðreynd er ekki til þess fallin að auðvelda 
heilbrigðisstarfsmönnum að viðurkenna mistök sín eða benda á mistök annarra og því 
hefur öflun vitneskju um það sem betur mætti fara ekki heldur gengið eftir eins og að 
var stefnt. 
 
Þegar fjallað er um öryggi sjúklinga er oft í sömu andrá fjallað um hugtakið 
“læknamistök”, sem notað hefur verið sem samheiti yfir það sem aflaga fer í meðferð 
hinna sjúku innan heilbrigðiskerfisins. Það er ekki alls kostar rétt þar sem margt getur 
spilað inn í þegar meðferð skilar ekki þeirri niðurstöðu sem að var stefnt. Um getur 
verið að ræða röð atvika sem að lokum leiða til þess að gagnvart sjúklingi er augljóst 
að mistök áttu sér stað. “Atvik” þessi geta verið ýmis störf þeirra starfsmanna sem koma að undirbúningi og framkvæmd þess læknisverks sem um er að ræða hverju 
sinni. “Atvik” þessi geta einnig snert ýmsa forþætti eins og vinnslu verklagsreglna og 
frágang tóla og tækja þegar því er að skipta. Þá má ekki gleyma því að löggjafinn og 
fjárstjórnarvaldið ráða því hversu hátt á að setja gæðaviðmiðið við veitingu 
heilbrigðisþjónustunnar. Með stöðugri kröfu um aðhald og sparnað er hætt við að 
dragi úr öryggi sjúklinga. Má sem dæmi nefna að sparnaður í þrifum á 
heilbrigðisstofnunum getur leitt til meiri sýkingarhættu. Þá má einnig nefna sem dæmi 
að það er ríkisvaldsins að ákveðu hversu vel heilbrigðisstofnanir eru mannaðar og 
hversu mikið vinnuálag er á þeim starfsmönnum sem eru við vinnu hverju sinni. 
 
Þegar haft er í huga hversu margs konar “atvik” eða röð “atvika”, þar á meðal mistök 
heilbrigðisstarfsmanna, geta leitt til þess að sjúklingur verður fyrir tjóni þegar hann 
þiggur heilbrigðisþjónustu, og það er sett í samhengi við það fjármagn sem stjórnvöld 
eru reiðubúin, eða ekki reiðubúin, að veita til öryggismála sjúklinga er eðlilegt að upp 
rísi raddir um að gripið verði til sérstakra ráðstafana og löggjafar um öryggi sjúklinga. 
 
Nátengt umræðunni um öryggi sjúklinga er starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna. 
Fjárstjórnarvaldið hefur mikið um það að segja hvernig starfsumhverfi 
heilbrigðisstarfsmönnum er búið, sem aftur hefur bein áhrif á öryggi sjúklinga. Þá er 
vitað að einstakar sérgreinar læknisfræðinnar eru útsettari fyrir hættunni á því að 
mistök eigi sér stað við framkvæmd læknisverka, einfaldlega vegna eðlis viðkomandi 
læknisverka. Sú staða sem ríkir í dag, að leita þurfi blórabögguls, eigi mistök sér stað 
hefur gert mönnun í sumum sérgreinum erfiðara fyrir en æskilegt er. Undirmönnun í 
viðkomandi sérgreinum hefur bein áhrif á öryggi sjúklinga. 
 
Það þarf því að leita nýrra leiða til að ná markmiðum laga nr. 111/2000, um 
sjúklingatryggingar, þannig að öflun vitneskju um það sem betur mætti fara myndi 
verða auðveldari, draga myndi úr fjölda bótamála fyrir dómstólum og að sjúklingar fái 
tjón sitt að fullu bætt verði þeir fyrir óhöppum þegar þeir þiggja heilbrigðisþjónustu. 
 
Þær leiðir sem t.d. virðast nærtækar eru annars vegar að afnema þak af þeim bótum 
sem sjúklingar geta fengið samkvæmt ákvæðum laga um sjúklingatryggingar. Hins 
vegar væri unnt að fara sömu leið og Danir hafa gert í sinni löggjöf. Gera það að 
lagaskyldu að allir sem verði varir við “mistök” eða önnur óhappatilvik eigi að 
tilkynna þau til viðeigandi yfirvalda. Það verði þeim refsi- og viðurlagalaust og það 
einnig þótt sá sem tilkynnir um “mistök” sé sá sem er valdur að þeim, þó með þeirri 
undantekningu að stórfellt gáleysi og ásetningur leiði ekki til refsi- og viðurlagaleysis. 
Með þessu móti væri löggjafinn að koma þeim skilaboðum til almennings að leggja 
eigi áherslu á að upplýsa um “mistök” og óhappatilvik til að reyna að læra af þeim, í 
stað þess að leitin að blóraböggli verði það sem öllu máli skiptir. 
 
Ef á að takast að auka öryggi sjúklinga með auknum forvörnum, án mikilla fjárútláta, 
er mikilvægt að sú vitneskja, um það sem miður fer, komist upp á yfirborðið í 
sérstakan gagnabanka, þannig að unnt verði að nýta þá vitneskju sem þar safnast 
saman, til fyrirbyggjandi aðgerða. Þar myndi lagaskylda skipta miklu máli, ekki síst 
ef skyldan hefði mögulega í för með sér jákvæðar afleiðingar fyrir þann sem fyrir því 
verður að valda tjóni. 
 
Með þessum breytingum væri löggjafinn að ýta undir breytt viðhorf gagnvart því sem 
miður fer við veitingu heilbrigðisþjónustu og fjárstjórnarvaldið einnig að axla sína ábyrgð og viðurkenna að þar sem ekki er unnt að veita takmarkalausu fé til að reyna 
að draga úr mistökum þá amk beri ríkið ábyrgðina á því tjóni sem af hlýst. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Refsigleði má aldrei stjórna.

Siðleysi má aldrei stjórna.

Eitt sinn áttu lög og dómsstóla-réttur að dæma. Því miður virka hvorki lög né dómsstólar fyrir varnarlausa á Íslandi.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 26.5.2014 kl. 22:57

2 Smámynd: Elsabet Sigurðardóttir

Ábyrgðin liggur hjá yfirvöldum um skaðsemi heilbrigðismála og full ástæða að dauðsföll innan heilbrigðisstofnunar verði rannsökuð eins og önnur dauðsföll, sérstaklega þegar kvörtun frá aðstandendum berst eftirlitsaðilum stjórnsýslu en þeir bregðast illa við kvörtunum vanhæfir skipaðir að yfirvöldum sem axla ekki ábyrgð

Elsabet Sigurðardóttir, 27.5.2014 kl. 10:53

3 identicon

Sæll Sigurbjörn.

Mér virðist að sá veruleiki sem birtist í langhundi þessum
kynni að hafa átt uppá pallborðið en þó illa það í kringum
1950 en í nútímaþjóðfélagi og þjófafélagi fær þetta vart
staðist eða er öllu heldur óframkvæmanlegt jafnvel þó
fyndist einn réttlátur maður og vammlaus skv. réttlæti
lögmálsins sbr. 3. kafla Rómverjabréfsins(!)

Kröfur til heilbrigðisþjónustunnar eru um eilíft líf.
Vei henni ef það tekst ekki!
Í annan stað liggur í landi, grunur margra, að
gert sé út á það með markvissum hætti að
ná með svikum út peningum úr heilbrigðisþjónustunni
og má nærri geta að slíkum er sama um heiður og
metnað heilbrigðisstétta til góðra verka öllu heldur
að öllu skuli kostað til í skjóli fjármagns til að ná
nokkurn veginn hvaða fjárhæð út sem vera kann.

Held að allir geri sér grein fyrir því að málum af þessu tagi
muni fjölga um allan helming á komandi árum sem jafnframt
mun leiða til þess að sá bráðnauðsynlegi trúnaður sem ríkja
þarf fer út í veður og vind, verður ekki lengur fyrir hendi og
þar með er fjandinn laus.

Hefði talið heppilegra að menn settu á ígildi einnar messu
um hvernig þeir ætli að mæta því sem fyrirsjáanlegt er;
orrustan við Harmageddon er því aðeins töpuð að menn hafi
ákveðið það sjálfir!

Sjálfsagt á það ekkert erindi hér en sagan af góða dátanum
Svejk er í góðu gildi þar sem hann tók sér fyrir hendur að
sætta kött nokkurn og kanrífugl í framhaldi af þeirri vitneskju
að grunnt kynni að vera á því góða milli þessara eðla tegunda.
Skemmst er frá að segja að þá tilraunin virtist við það að
heppnast og þessir andstæðu pólar yrðu loks sáttir hvarf í einu
vetfangi höfuð kanarífuglsins ofaní kattarkvikindið og þar við sat.

Þegar kom að því að ráða kvikindinu refsingar í samræmi við
þau illu tilvik er fyrir lágu í málinu þá kom vissulega til
greina að beita einni þeirra aðferða sem best höfðu gefist,
þ.e. að merja höfuð kattarins milli staf og hurðar en að auki
voru til hliðsjónar þær 257 aðferðir sem annars voru í boði.

Lauk svo að kötturinn var dæmdur í opinbert 3ja daga
gæzluvarðhald.

Af þessu má ráða að agi verður að vera en sá sem þekkir ekki
gígjugripin og varðar jafnvel ekkert um þau er ólíklegur til
verka svo nokkurt gagn sé að.

En hvernig er það, Sigurbjörn, ætlar þú ekki að gera athuganir
á Laxdælu og Eyrbyggjasögu og kanna þar áhrif blámanna
jafnt sem franskra á helstu atburði í bókum þessum?

Húsari. (IP-tala skráð) 30.5.2014 kl. 12:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband