Ábyrgðarlaus afstaða Árna Páls

Enn sannast hið fornkveðna, að stjórnmálamenn hafa tilhneigingu til að forðast óþægindi og láta hentistefnu ráða.

Ef þetta verður niðurstaða málsins þ.e. að láta kyrrt liggja og halda þessari leið opinni fyrir almenning til fjárfestinga erlendis mun það óhjákvæmilega leiða til flótta úr séreignakerfi lífeyrissjóða og annarra íslenskra fjármálastofnana. Allt skynsamt fólk mun ráðstafa lífeyrissparnaði sínum í séreign á verðbréfamörkuðum erlendis, þar sem meiri dreifing og öryggi á endurheimtum fæst. 

Ef Árni Páll ætlar að standa við þessa skoðun verður hann þegar í stað að gera tillögur um að gjaldeyrishöftum verði aflétt af fjárfestingum lífeyrissjóðanna erlendis.

Annað er í hrópandi ósamræmi við jafnræðisregluna.


mbl.is Árni Páll stöðvaði Seðlabankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Árni Páll, er eitthvert mesta skoffín sem hlotið hefur ráðherradóm á Íslandi. Hann er verri en Guðni Ágústsson! Hann skildi aldrei og mun aldrei skilja, hvað viðskipti snúast um. Það gerir þennan kjána ekki bara algeran kjána, heldur algert FÍFL, þegar kemur að einföldustu reikningsreglum, Að halda það. að það að skulda 1000 % sé eitthvað betra en að skulda 110% sýnir, svo ekki verður um villst, að maðurinn var ALDREI starfi sínu vaxinn, hvort heldur sem var, formaður stjórnmálaflokks, eða , og enn síður, ráðherra. Hans Klaufi er án efa með hærra IQ en Árni Páll.

Jóhanna Sigurðardóttir, hlær hins vegar á ofureftirlaunum að öllu saman og Frettablaðið líka með Ingu Pálma og Jonna Geira Johnniés í broddi fylkingar.

Halldór Egill Guðnason, 27.6.2014 kl. 02:47

2 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Skv. þeirri meginregluminni sem bloggara, að ritskoða aldrei athugasemdir við skrif mín, þá ætla ég að láta ofangreinda athugasemd standa. Það má þá líta á hana sem dæmi um þau ómálefnalegu skrif, sem vaða uppi á blogginu og eru á góðri leið með að eyðileggja það. Kjartni þessarar athugasemdar eru níð um Árna Pál, sem ætti ekki að sjást í umræðu af því tagi, sem reynt var að stofna til.  

Sigurbjörn Sveinsson, 27.6.2014 kl. 08:23

3 identicon

Sæll Sigurbjörn.

Mér eru vangaveltur þessar nokkuð framandi
því efnið snerti tæpast nema 10%, í hæstalagi 20% þjóðarinnar.

Mér þykir líklegt að millistéttin hafi yfirleitt svo fangið fullt
að standa við skuldbindingar sínar að tæpast geti þar verið
um einhvern afgang að ræða.

Leyni því ekki að ég er fylgjandi því að þessari leið til
umsvifa með fjármuni (10 miljarðar árlega) verði tafarlaust
lokað.

Flestir hafa þá náð sér nokkuð betur mér eftir hrun ef
þeir treysta verðbréfasjóðum á erlendri grundu; sjálfur á ég
í mesta basli með að treysta nokkru þegar kemur að
íslensku bönkunum. Furða mig jafnframt á viðskiptum
í Kauphöllinni.
Bónusar og ofurkjör aftur á sínum stað. Hvers vegna í
ósköpunum getum við ekki sammælst um að hætta þessari
vitleysu; flottræfilshætti og því sem gengur næst hreinu siðleysi.

Leyfist mér að víkja að öðru?

Laxdæla er flutt í útvarpi um þessar mundir, einn lestur eftir.
Áður flutt 1988.

Skrýtið hvernig sýn á hlutina getur breyst; hvaða augum
lítur þú víg Kjartans í sögu þessari?

Sérstætt að bera saman Höskuld Hvítanesgoða, Gísla Súrsson,
Bolla fremur en Kjartan og Gunnlaug í Gunnlaugssögu.

Lýsingar allar svipaðar; tilkomumest sú er Laxdæla færir til
og síðan þessi líkindi með Hvíta-Kristi ásamt og með kristnum
viðhorfum.

Með því að mig grunar að þú þekkir nokkuð til vona ég að
þú sjáir í gegnum fingur þér við mig hvað varðar þennan útúrdúr
frá upphaflegu umræðuefni.

Húsari. (IP-tala skráð) 3.7.2014 kl. 00:47

4 identicon

Afsakaðu Sigurbjörn,

en í stað orðalagsins: "...Bolla fremur en Kjartan..."

komi "...Kjartan..." enda fellur hann inní hópinn fortakslaust

þó svo að Bolli samsvari hins vegar ekki þeirri andstæðu

sem þó virðist auðveldlega vera hægt að sjá út í

öllum sögunum fremur en einmitt í Laxdælu.

Húsari. (IP-tala skráð) 3.7.2014 kl. 01:37

5 identicon

Sæll enn og aftur!

Mér sýnist reyndar að liggi nokkuð beint við
hver sú persóna er sem dregin er upp með Bolla.
Ef það reynist rétt þá er ekki annað dæmi um slíkt að finna
í Íslendingasögunum.

Þarf að leggjast í frekari rannsóknir á þessu, - rétt að
persóna sú bíði niðurstöðu þeirra athugana.

Ekki ætlaði ég mér þetta!

Sumarkveðja,

Húsari. (IP-tala skráð) 3.7.2014 kl. 08:23

6 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Sæll vertu Húsari. Þakka þér fyrir að bregða ljósi á annað en gjörningaveðrið í seðlabankanum. Nóg er nú samt. Ég ætla að hliðra mér hjá að festa merkimiða á þá fósbræður Bolla og Kjartan. Mér færist það ekki betur úr hendi en blinda manninum að festa halann á ásnann. Ég lét þó út álit mitt á þeim Bolla og Kjartani áður á þessu bloggi 2011. http://sigurbjorns.blog.is/blog/sigurbjorns/entry/1130272/ "Kjartan var glæsilegur oflátungur og yfirgangssamur og hafði unnið sér margt til óhelgi, þegar hann féll. Guðrún elskaði Bolla, sem var höfðingi í lund og langþreyttur til vandræða. Bolli var vænstur hennar manna en beittur andlegri kúgun af hálfu Guðrúnar til að fremja óhæfuverk."

Sigurbjörn Sveinsson, 3.7.2014 kl. 15:06

7 identicon

Ágæti Sigurbjörn.

Bestu þökk fyrir svarið semog hlekkinn sem
vísar til umþenkinga viðkomandi þessari sögu.

Allt er það fróðlegt mjög eins og við mátti búast.
Látum nú kyrrt liggja að sinni!

Húsari. (IP-tala skráð) 4.7.2014 kl. 02:00

8 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Þegar ég lít betur á athugasemdir við tilvitnað blogg frá 2011 þá leynist þar margvíslegt skemmtilegt. Það er og mín reynsla, að athugasemdirnar eru undantekningarlaust athyglisverðari og skemmtilegri en bloggið sjálft. En hvað um það; þar má finna eftirfarandi:

Er ekki afrekið fólgið í því að nýta hæfileikana sem best? Þar af leiðandi, allir afreksmenn eru hæfileikamenn, en ekki allir hæfileikamenn eru afreksmenn?

Tómas Örn Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 7.1.2011 kl. 10:08

Þarf það alltaf að boða gott, þegar hæfileikamaðurinn verður afreksmaður? Er e-ð jákvætt við það að kaffæra kóng, ógna fólki til að brjóta samninga og níðast á lítilmögnum norður í landi?

En Íslendingar á öllum tímum hafa hampað þessum manni frekar en Bolla og eru nú að súpa seyðið af þessu lífsviðhorfi sínu.

Sigurbjörn Sveinsson

Sigurbjörn Sveinsson, 4.7.2014 kl. 13:50

9 identicon

Sæll Sigurbjörn.

Burtséð frá öllum siðaboðskap þá fer það tæpast
á milli mála að Bolli er sérstakt eftirlæti sögumanns,
sá sem er um flest burðarás sögunnar, mælir skapanna
málum, segir þá hluti og framkvæmir sem veita sögunni áfram;
hvergi tilsparað í lýsingu á honum og svo langt gengið að
jafnvel Hvítanesgoðinn fellur í skuggann en lýsing hans hvílir
jafnt á aðal- sem aukapersónum en ekki sögð fullum fetum
og af slíkri mælsku sem sögumaður Laxdælu hikar ekki við að
setja fram af Bolla en þó líka stuðst við aðal- sem
aukapersónur til að draga upp sem skarpasta og
mikilfenglegasta lýsingu af Bolla.

Flestir segðu að andstæða Bolla fælist í persónu Kjartans
sem þó er skotið svo hressilega út úr sögunni með því sem
þú af hófsemi þinni kallar óhappaverk en kynni að vera í augum
margra hreint níðingsverk; þó er þar ekkert í fari eða lýsingu
Kjartans að það nægi til að fleyta honum áfram, þvert á móti
léttir að vita hann horfinn með öllu, því aflið eitt þá vitsmuni
skortir eða þeir þvælast ekki fyrir tæpast nóg eitt og sér.

Vandast þá málið mjög þegar sá lifir svo góðu lífi eftir sem
áður þrátt fyrir óhappaverkið og það sem ekki verður svo
auðveldlega hrakið að sögumaður gerir gott betur en að halda
honum til virðinga heldur er útlátasamur nánast úr hófi fram
á það sem virðist vera óskoraður mikilfengleiki að atgerfi
hvort heldur vitsmunum eða burðum.

Eftirtektarvert er að þeir virðast 11 að samtölu þá er
Kjartan er veginn, - postularnir 11 þá er Júdas gekk brott en
Matthías kom vitanlega í hans stað og hefðin um að þeir skulu
taldir 12 að tölu allt að einu og hvernig sem farið er með fyrir
atburði eða eftir að þeir eru framkomnir, - en ekki víst að
sagnaritari á Íslandi eigi að síður sjái sig bundinn af því
hvort höfuð telur 11 eða tólf þá er það fýkur af bolnum(!)

Þetta er svona rétt til umhugsunar og tæpast miklu meira en það.

Pistlar að ógleymdum ljóðum standa uppúr í eigin huga, -
þó svo að vingull nokkur af kerskni og uppskafningshætti
hafi þar talað um þýðingar tiltekins manns!

Húsari. (IP-tala skráð) 4.7.2014 kl. 21:22

10 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Víða eru þeir fóstbræður Kjartan og Bolli á sveimi í þessu blogg, jafnvel í miðju Hruninu í nóv. 2009.

http://sigurbjorns.blog.is/blog/sigurbjorns/entry/727717/

En þar er líka að finna alvöru Dalamann en ekki fígúru með sýniþörf.

Sigurbjörn Sveinsson, 5.7.2014 kl. 06:13

11 identicon

Ágæti Sigurbjörn.

Ekki er í kot vísað! Bestu þökk fyrir það
og þær perlur sem þar er að finna.

Húsari. (IP-tala skráð) 5.7.2014 kl. 12:23

12 identicon

Sæll Sigurbjörn.

Til að setja þetta ennfrekar í skiljanlegt samhengi þá
tekur höfundur Laxdælu ekki 300 blaðsíður í að lýsa
hugrenningum Bolla er hann hafði Kjartan vegið en
lætur sér nægja eina einustur setningu til að koma lesendum
til skilnings um það og styðst þar við ytra útlit hans og velur
aukapersónu til að koma þeim skilaboðum áleiðis.

Sú lýsing eftir því sem ég best veit á sér tæpast nokkurn
líka í nokkurri annarri Íslendingasagna; vissulega má þar finna
undrun, felmtran og óhug en iðran líka þeirri í Laxdælu tæpast.

Því er vísað í aðrar bókmenntir þar sem samjöfnuð er sannanlega
að finna en hitt geta svo menn velt endalaust fyrir sér hvort Laxdæla
öðrum þræði feli í sér þá tilvísan sem ég þegar hef gert að
umtalsefni.

Ekkert útilokar það í sjálfu sér og byggðist þá væntanlega á
reynslu höfundar að nokkru hvort heldur borinn í Borgarfirði eða
á Suðurlandi.

Húsari. (IP-tala skráð) 5.7.2014 kl. 15:00

13 identicon

Að síðustu um Laxdælu, Sigurbjörn!

Ég er viss um að Ólafur Þórðarson, hvítaskáld er ekki
höfundur Laxdælu né nokkurra annarra bókmenntalegra verka
en sem lúta að málfræði, sbr. 3. málfræðiritgerðina eftir hann.

Finn engin sérstök rök fyrir því að kona hafi skrifað þessa sögu.

Sturla Þórðarson er líklegur ásamt og með fóstra sínum;
það samstarf kann að hafa skilað Laxdælu og ekki minna.
Skynja áhrif frá Sturlungu án þess að geta gert
grein fyrir því í hverju það liggur; sterk hughrif sem verða
þarna á milli.

Síðan má segja að ofangreint skipti engu máli en hitt það
eitt að menn njóti sögunnar.

Húsari. (IP-tala skráð) 6.7.2014 kl. 21:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband