Þessu verður að linna

   Ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins býr yfir öðrum og nákvæmari upplýsingum um stöðu Landsbankans en aðrir hluthafar fáum vikum áður en bankinn kemst í þrot. Það liggur í hlutarins eðli. Þetta gerir hann stöðu sinnar vegna. Annars væri stjórnsýslan í því ólagi sem sumir fullyrða að hún sé eða maðurinn ekki starfi sínu vaxinn. Nema hvoru tveggja sé. Að því gefnu að um hvorugt sé að ræða, þá hafa klárlega átt sér stað innherjaviðskipti með sölu hlutabréfa ráðuneytisstjórans  í Landsbankanum.Ráðuneytisstjórinn verður að víkja tímabundið á meðan mál hans er rannsakað.  

   Þeir, sem mesta ábyrgð bera á því ástandi sem við búum við nú, stjórnvöld, verða að reka af sér slyðruorðið og höggva að rótum þeirrar spillingar og afsiðunar, sem fylgt hefur aðgerðarleysi þeirra við stjórn efnahagsmála.  Við getum ekki setið ábyrgðar- og aðgerðalaus hjá þegar þjóðin berst við að ná tökum á vonleysi sínu og blómanum, sem í útlöndum dvelur, finnst hann ekki lengur eiga það skjól og það heimili, sem föðurland á að vera. Því til staðfestingar vil ég leyfa mér að birta kafla úr bréfi, sem ég fékk að utan:  

“Það sem mér finnst hafa farið verst í mig er að það er búið að svipta mig baklandinu og örygginu.  Það er alveg rétt hjá þér að við X erum betur sett en margur, það eina sem maður á á Íslandi eru einhverjar skuldir sem þarf auðvitað að standa skil á en engir fjármunir á peningasjóðum eða slíkt.  Held ég væri ekki mikið lengur ofan jarðar ef því hefði verið til að dreifa.  Hins vegar leit ég alltaf á það sem ákveðinn öryggisventil að geta komið heim og farið að vinna ef allt færi á versta veg hérna úti.  Það hefur náttúrulega komið í ljós að það var bara barnaskapur að halda það en svona er maður áhrifagjarn, maður tekur þátt í hrunadansinum og er ekki nógu gagnrýninn.  Öll skilningarvit eru orðin gegnsýrð af hinum og þessum fréttum, hagfræðingum að tala í kross og vitleysingum að þenja sig þannig að ég veit ekki hvað snýr upp og niður, skil ekki bofs.  Samt á ég að hafa lært þetta í "Samvinnuskólanum".... Erfiðleikar hérna megin Atlantsála eiga síðan eftir að koma fram á útmánuðum, ég finn strax fyrir því að minna er um auglýst störf en í haust og það liggur við að maður sé hleginn út úr dyrunum þegar kemur í ljós að maður er Íslendingur.  Á leiðinni heim úr vinnunni um daginn voru 2 viðtöl við Íslendinga sem voru að missa íbúðir sínar í Köben vegna fjárþrengsla, frétt um að FÆREYINGAR ætluðu að lána okkur pening, Odense íshokkíliðið bauð íslenskum námsmönnum frítt á leik í vikunni og nú síðast að einhver danskur auðmaður hafi gefið 150þús. danskar til námsmanna í Árósum sem gátu ekki sótt námslánin sín.  Rússland hvað, Ísland er "the sick man of Europe", manni líður eins krypplingi með allt þetta í kringum sig!!!  Nú síðast í gær hringdi leigusalinn minn og sagðist hafa áhyggjur af því að við hefðum það slæmt og hvort við svæfum á nóttunni og svona.  Auðvitað var hún bara að fullvissa sig um að hún fengi peninginn um mánaðarmótin en ég meina, þetta er of mikið.”


mbl.is FME skoðar innherjaviðskipti í bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Góð lesning. Takk fyrir mig.

Heimir Eyvindarson, 30.10.2008 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband