Litla gula hænan og lífeyrissjóðirnir

Sú krafa gerist háværari, að verðtryggingin verði afnumin. Þessu er varpað fram eins og um einfaldan hlut sé að ræða og enginn skaðist af þessari ákvörðun og enginn greiði þá upphæð sem hverfur fjármagnseigendum við hana.

Verðtryggingunni var komið á með Ólafslögum 1979 í tíð Ólafíu hinnar síðari til að forða fjármunum frá verðbólgubálinu, sem hófst með Ólafíu hinni fyrri 1971. Þetta er alkunn saga. Á þessum verðbólguárum efnuðust margir jafnaldrar mínur, sem vit höfðu á því að fara ekki í langskólanám, þar sem þeir lifðu skv. mottóinu: "Grædd er skulduð milljón." Lánin brunnu upp og fjárfesting í húsnæði til lífstíðar var tiltölulega auðveld.

Við sem hófum þetta strit á árunum eftir 1980 undir verðtryggingu Ólafslaga vorum samt ekki laus við verðbólguna. Hún geisaði sem aldrei fyrr og nærðist nú af víxlhækkunum launa og verðlags. Um tíma var verðbólgan um og yfir 130%. Launin voru tekin úr samnbandi við vísitöluna en lánin hækkuðu í engum takti við raunveruleika unga fólksins. Við Ögmundur Jónasson og konan mín og fleira gott fólk upplifðum misgengi skulda og tekna. Nú eru 25 ár liðin og allar hafa þessar krónur verið greiddar til baka á réttu uppreiknuðu verði að við bættri þeirri leigu af þeim, sem upp var sett. Þetta var erfitt sérlega fyrstu árin en mér léttara en öðrum, þar sem ég hafði góðar tekjur miðað við fjöldann.

Á sama tíma byggðum við upp lífeyrissparnað í skjóli verðtryggingarinnar að nokkru (erlend verðbréf og sum innlend eru ekki verðtryggð) og má þannig segja, að skuldir okkar og eignir hafi verið undir regnhlíf verðtryggingarinnar þessi ár.

Nú er sem sagt hgmyndin sú, að kynslóðin sem bjó við bagga misgengisins á 9. áratug síðustu aldar greiði niður lán þeirrar kynslóðar, sem nú verður fyrir því sama. Þetta á hún að gera með því að láta þann hluta verðbóta lána lífeyrissjóðanna, sem til falla á næstu mánuðum, "fuðra upp" og gleymast. Í framtíðinni bíður því þessa fólks enn skertari lífeyrir en nú er orðið með gjaldþrotum bankanna, horfnu hlutafé og hrikalegum afskriftum annarra verðbréfa.

Og þá er komið að litlu gulu hænunni. Oft er til hennar vitnað eins og hún hafi sagt: "Ekki ég, ekki ég". En það er rangt. Litlla gula hænan vék sér ekki undan viðfangsefni sínu þ.e. að baka kökuna. En það gerðu allir, sem á vegi hennar urðu og því sat hún ein að krásinni, þegar upp var staðið.

 "Berum byrðar hvers annars" var sagt í eina tíð. Byggjum þá samheldni á sanngjörnum og skynsamlegum tillögum um hlutskipti hvers og eins. Verðtryggingin með vaxtastefnu Seðlabankans og gengisfalli krónunnar er sjálherðandi kæfandi snara, sem við losnum ekki við nema með stöðugum gjaldmiðli. Þá má hún burt. Annars verður blásið til eignaflutnings sem byggir á rangindum, sem enginn vill leggja nafn sitt við. Nóg er nú komið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mæl þú manna heilastur, fóstbróðir

gunnar s (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 14:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband