Hagræðing eða niðurskurður eða skrauthvörf?

Nú hanga stjórnmálamenn gjarnan í því haldreipinu, að þeir séu að hagræða í opinberum rekstri. Menn forðast niðurskurð eins og heitan eldinn enda vekur það hugtak neikvæðar tilfinningar en hagræðing  jákvæðar.  Það vafðist hvorki fyrir fréttastofu RUV né fulltrúa foreldra í seinni fréttum sjónvarps að verið væri að skera niður á leikskólum borgarinnar. Talsmaður borgarinnar talaði hins vegar um að hagræðing hafi verið minnkuð þannig að nú væri hún nánast orðin engin. Í fljótu bragði sýnist þessi fullyrðing tæplega meðmæli með eigin verkum og endurtekin hagræðingarrullan orðin beggja handa járn í höndum heilaþvegins stjórnmálamannsins.

Ég hef alltaf skilið hagræðingu á þá leið, að verið væri að breyta fyrirkomulagi til að meira fengist fyrir sama fé eða greiða þyrfti minna til að fá ákveðna vöru eða þjónustu. Þetta er líka skilningur orðabókarinnar því þar segir, að hagræðing sé að breyta þannig að afköst aukist eða kostnaður minnki.  

Jón heitinn Gúm, sem kenndi mér íslensku í menntaskóla, vakti oft athygli okkar strákanna á skrauthvörfum, þegar þau komu fyrir í texta og hvatti okkur til að nota þá aðferð, þegar við ætti. Að tefla við páfann, eru skrauthvörf, sem flestir kannast við.  Orðabókin segir að skrauthvörf eigi við það að nota fínlegra eða vægara orð í stað orðs, sem þykir ófínt, dónalegt eða hranalegt og nefnir botn í stað rass því til skýringar.

Ekki veit ég hvað stjórnmálamenn eru að forðast með því að klifa á hagræðingu í stað þess að kalla hlutina sínum réttu nöfnum eins og niðurskurð. Ég vil þó ráðleggja þeim að nota ekki önnur hugtök en þau, sem þeir hafa vald á, þegar þeir kjósa að nota skrauthvörf í stað sannleikans.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Ef hagræðing hefur verið minnkuð þannig að hún sé orðin nánast enginn, hlýtur að hafa verið farið í hina áttina svo óráðsía og óskilvirkni hafi aukist. Það hefur komið fyrir mig að spara svo mikið að ég hef keypt köttinn í sekknum og endað með meiri útgjöld en til stóð. Ég óttast að allur þessi viðvarandi niðurskurður eigi eftir að verða okkur dýr.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 11.12.2009 kl. 02:51

2 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Ég átti orðastað við skólastjóra hér í borg á dögunum og spurði hann hvernig gengi að koma hlutunum saman við skarðan hlut. Hann svaraði því til, að nú hefði hann hagrætt  þannig að lengra yrði ekki gengið og þá tæki niðurskurðurinn við.

Hann hafði greinilega á þessu réttan skilning.

Sigurbjörn Sveinsson, 11.12.2009 kl. 10:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband