Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Aðeins ein leið fær




Ríkisstjórnin endurheimtir ekki traust sitt með mannabreytingum.
Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur verið kjölfesta íslenskra stjórnmála
frá stofnun, er nú gagnslaus þjóðinni. Hann verður að fara í pólitískt
orlof, sleikja sár sín og ganga í endurnýjun lífdaga ef hann á að koma
þjóðinni að gagni. Þessi stjórn á að standa að nauðsynlegum ráðstöfunum
sem ekki eru álitamál og boða til kosninga á fardögum.


mbl.is Uppstokkun fyrir áramót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minning

Heiðkaldur vindur

í framandi landi.

Sumar

og við klifjuð

á regnsvörtum göngum.

Nístandi gráblautur raki

og blind glerþök.

 

Skíma að morgni,

kýr á akri og enginn í nánd

nema við,

óboðnir gestir

í ókunnu leikhúsi.

  

Amsterdam?

 

Sigling

í þrúgandi móðu.

Ógleði og uppköst

- og hitasótt.

 

Svalandi,

lognmjúkur lófi á enni,

sólheit umhyggja þín,

ástin,

sem var þarna strax

í árdaga.

 

Heim!

segirðu seyðandi rómi

eins og álfkona

í Tungustapa.

 

Perlur á bandi,

börnin og þú

og gullhvítir dagar,

ungir eins og brjóstin,

ávalir eins og mjaðmirnar,

bjartir sem hár þitt,

 

og endalaus sæla

á Fróni.


Stjórnvöld persónugera - án okkar hjálpar

Við erum skömmuð fyrir að persónugera hlutina. Að því er fundið með vandlætingu, að rangar meginreglur, blinda á galla þeirra, aðgerðaleysi við afleiðingunum og mistök við neyðarráðstafanir séu tengd einstaklingum í þjóðlífinu. Svo er þessi gagnrýni á atburði líðandi stundar og á stjórnvöld spyrt við það sem nú er kallað “Davíðshatur” og á ekkert skylt við uppbyggilegar athugasemdir um gangverk þjóðfélagsins. Þar eru á ferðinni annars vegar einhver framandi lágkúra og hins vegar steinbarn í maga gamalla pólitískra andstæðinga Davíðs Oddssonar.   

Ríkisstjórnin með forustu Sjálfstæðisflokksins í broddi fylkingar getur ekki losað sig undan þeirri ábyrgð, sem hún ber á aðdraganda, risi og hnigi þessa mikla örlagaleiks, sem nú stendur. Hún verður að axla þessa ábyrgð og ábyrgðin er persónuleg. Ég er í hópi margra annarra sjálfstæðismanna, sem eru vonsviknir yfir hugmyndafræðilegu skipbroti, já nánast brotlendingu sjálfstæðistefnunnar í höndum þeirra, sem nú ráða og etv. enn fremur þeirra, sem ætla sér að taka við flokknum.   

Það raunalega við stöðu Davíðs Oddsonar er, að þrátt fyrir marga góða hluti sem hann á í pólitík liðinna ára, þá er hann ekki  lengur réttur maður á réttum stað. Vilji hans til góðra verka er ekki dreginn í efa en getan á þessum tímum er skert og fyrst og fremst fyrir það, að hann hefur truflandi áhrif á þjóðina eins og áður hefur verið bent á.  Þjóðin nær ekki vopnum sínum, nær ekki að einbeita sér að aðkallandi verkefnum. Hún er upptekin af pólitískum bankastjóra í Seðlabankanum. Þessi ringulreið nær langt inn í raðir pólitískra samherja og forustumanna atvinnulífs og launþega.   

Það er ekki alþýðan sem persónugerir vandamálin, það eru stjórnvöld sjálf sem það gera – án okkar hjálpar.


Brák er mín kona

Undir hamravegg í neðanverðu Digranesi við Borg á Mýrum kúra gömul og lítil verslunarhús og láta lítið yfir sér. Þau eru þó uppljómuð og hlýleg að sjá og hafa greinilega verið færð í nýjan búning. Ofan þeirra stendur hús innrásarvíkingsins Thors Jensen, sem hann byggði sér og sínum á milli gjaldþrota. Honum miðaði alltaf nokkuð á leið og þeim þá líka, sem í fylgd með honum voru.  Má vera, að einhver útrásarvíkingurinn hafi komið að endurreisn þessara húsa. 

Landnámssetrið starfar í húsunum. Það er varla hægt að kalla það vel geymt leyndarmál lengur, þar sem þeim Íslendingum fjölgar sífellt, sem sótt hafa það heim og útlendingum líka. Söguloftið er tilvalið leikhús fyrir einleiki og það hafa Kjartan Ragnarsson og félagar komið auga á. Í návíginu þarna á loftinu verður nú um stundir til galdur leikhússins, sem enginn má missa af.   

Mr. Skallagrímsson er háðskur gleðileikur um Egil forföður og Benedikt Erlingsson súrrar saman þessari skammdegisskemmtun Snorra Sturlusonar á 120 mínútum. Leikurinn einkennist af linnulausu gríni en lítilli alvöru. Dægurmál eins og flotkrónan eiga þarna greiða leið frá Skallagrími Kveldúlfssyni í mýrarkeldur Borgarfjarðar.

Brák sló þó allt annað út.  Brák er bæði fyndin og dramatísk. Brynhildur Guðjónsdóttir flýtur aldrei í áreynsluleysi yfirborðsins; hún kafar í djúpið og nýtir sér allt, sem saga Egils og aðrar heimildir gefa tilefni til. Leikritið hefur inngang, ris og úrvinnslu og fylgir meistaralega hefðbundnum lögmálum leikhússins. Brák hef ég séð tvisvar í haust og er það ógleymanleg reynsla.

Hagfræði kreppunnar er að eyða sem mestu í mannaflann og sem minnstu í innflutta vöru. Matur og leikhús í Landnámssetrinu uppfylla þessi skilyrði.   


Afskriftir í þrígang gefast vel

Ég hitti tvo lækna á förnum vegi í gær. Svo vildi til að þeir brydduðu upp á sama umræðuefninu. Það er fremur sjaldgæft í læknahópi.  

Sá fyrri sem ég hitti hafði raunar mestar áhyggjur af kettinum sínum. Hann sagðist í mikilli  þörf fyrir gælur kattarins um þessar mundir og af ýmsum ástæðum, en kötturinn hefði á því lítinn skilning og sýndi sér nánast algert afskiptaleysi. Annars lá lækninum fremur gott orð til kisu og hafði á þessu vissan skilning. Síðan vék hann að máli málanna. Hann sagðist telja, að Ísland væri bananalýðveldi, sem í sjálfu sér væri ekki ný kenning, en bananarnir væru bara búnir. Og það skapaði vissan vanda og ekkert virtist vera gert til að leysa hann. Stjórn landsins væri óbreytt og hefðist ekki að, sama fólkið væri í bönkunum, bankastjórarnir að vísu farnir, en aðstoðarmennirnir stjórnuðu nú og allir gömlu millistjórnendurnir væru á sínum stað, enginn siðferðilegur mælikvarði væri lagður á það, sem gerst hefði nema ef til vill af litla manninum á götunni.  

Skömmu síðar hitti ég annan kunningja minn í læknastétt og sagði honum af kenningunni um bananaþurrðina í bananalýðveldinu. Hann sagðist geta tekið undir þetta að því breyttu að það væru sennilega einhverjir bananar eftir, en þeir skemmdust mjög hratt. Hann sagðist ekki sjá annað en að nú væri allt gamla bankafólkið og gömlu endurskoðendur bankanna og gjaldþrotafyrirtækjanna að skipta reitunum til þeirra, sem sett höfðu fyrirtækin á hausinn og yrði þeim vafalítið auðveldara að reka þau við minni skuldabyrði. 

Ég gladdist heldur við þessi orð hans og fylltist nánast bjartsýni. Upp fyrir mér rifjaðist sagan af Þörungavinnslunni, þjóðþrifafyrirtæki vestur á Reykhólum, sem jafnan gekk illa að reka, en skilaði þó alltaf framleiðsluverðmæti í þjóðarbúið og þá helst í útlendum peningum. Reksturinn var höfuðverkur þar til mönnum hugkvæmdist að afskrifa skuldir verksmiðjunnar og það í þrígang. Síðan hefur verksmiðjunni vegnað vel og hún dregið björg í bú Reykhólamanna og annarra venslaðra.  

Þetta er áreiðanlega það, sem þetta góða fólk er að gera í bönkunum núna, hugsaði ég með mér og varð heldur léttari í spori.


Hverjar eru málsbætur ríkisstjórnarinnar?

Með hverjum deginum verður sú spurning áleitnari hvort stjórnvöld eigi sér einhverjar málsbætur. Um leið dofnar viljinn til að verja stofnanir samfélagsins. Ekkert virðist breytast með uppgjöri fjármálakerfisins, í engu er tekið undir ný viðhorf, ný vinnubrögð eða almenna siðbótarkröfu almennings. Allir gömlu vinirnir sitja á öskuhaugunum og skara í eldana. Þeir endurskipuleggja nýjar skuldsettar yfirtökur á útþynntum eigum og það fyrir opnum tjöldum. Eflaust í góðri trú Fjármálaeftirlitsins. Rænuleysið í stjórnarráðinu er algert.
mbl.is Átök við Ráðherrabústaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilbrigt umhverfi skiptir máli

...fyrir dýr jafnt og menn. Það er umhugsunarefni  og etv. rannsóknarefni að hve miklu leyti hægt er fella líkur á neikvæðum áhrifum þröngbýlis fiskistofna að spám um veiðiþol þeirra. "Grisjunarkenningin" er umdeild veit ég en hún hefur alfarið snúist um fæðuframboð og afát. Nú sýnist manni kominn fram annar þáttur fyrir vísindamenn að fást við. Hefði verið hægt með öryggi að auka veiðiþol síldarinnar við lægri mörk stofnstærðar en nú er við miðað?
mbl.is Samgangur eykur líkur á smiti í síld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Taybet Zaman

Þú stóðst í hlíðinni

í sólhvítum stöfum,

jarðbrún, sælleg og fögur,

með rósir í kinnum,

full eftirvæntingar,

Ilmur liðinna daga. 

 

Tókst okkur opnum faðmi. 

 

Við hurfum til þín,

fylltum strætin

óvæntri auðlegð

og gleði

í ilmi liðinna daga. 

 

Litfögur skrín

mótuð framandi fingrum,

búin til brottferðar,

heitur eimur

og mjúkhentir Tyrkir

á beru holdi,

svignuð borð. 

 

Bikararnir barmafullir. 

 

Ó þú Ilmur liðinna daga,

Taybet Zaman. 

 

(Í Jordaníu, 2000)


Velkominn í pólitíkina-helst strax

Eins og fyrr hefur verið bent á, þá hefur Davíð truflandi áhrif á þjóðina. Nú hefur hún misst sig vegna yfirlýsingar hans, að hann gæti hugsað sér að fara í pólitík, verði honum ekki vært í Seðlabankanum næstu árin. Um leið missir þjóðin sjónar á því sem skiptir máli. En Davíð hefur með þessari yfirlýsingu og um það hvaða flokkur sé "hans flokkur" staðfest að hann  er í pólítík. Við höfum pólitískan seðlabankastjóra.

Það eru allir velkomnir í pólitík. Líka Davíð Oddsson. Ef hann getur hugsað sér að verða aftur pólitíkus í stað þess að sitja í Seðlabankanum, þá er það sennilega besti kosturinn fyrir þjóðina í þessari stöðu og kemur svo sannarlega til móts við þá, sem vilja hann burt frá peningamálastjórninni. Þá geta þeir tekist á við hann á réttum vettvangi og glímt við hann eftir sömu reglum og gilda um okkur öll.


mbl.is Davíð: „Þá mun ég snúa aftur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefum heilbrigðu síldinni líf

Úr því að hægt er að nota sýktu síldina í gúanó ætti fremur að veiða hana en þá heilbrigðu í þeirri von, að einstaklingar, sem hafa náttúrulega mótstöðu gegn sýklinum, lifi til undaneldis.
mbl.is Síldveiðunum stjórnað frá degi til dags
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband