Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Kapellan í Vatnaskógi

Kapellan í VatnaskógiMargir drengir hafa dvalist í Vanaskógi sér til ánægju og yndis. Það eru áreiðanlega enn á lífi drengir á níræðis- og tíræðisaldri, sem eiga dýrmætar minningar um tjaldbúðavist í Vatnaskógi á 3. og 4. áratug liðinnar aldar. Gamli skálinn í Vatnaskógi var byggður í upphafi seinna stríðs og lauk þar með vist Skógarmanna í tjöldum.

Kapellan í Vatnskógi, sem reis 1949, á stóran sess í ljúfum minningum Skógarmanna allt fram á þennan dag. Það sanna tilsvörin, þegar þeir svara því, hvers þeir minnast frá dvöl þar á æskuárum. Nokkrir ungir Skógarmenn á þeim tíma höfðu forgöngu um þessa byggingu. Meðal annarra voru þar fremstir í flokki Aðalsteinn Thorarensen, húsgagnasmiður og síðar kennari við Iðnskólann í Reykjavík og Bjarni Ólafsson húsasmiður og síðar kennari við KÍ. Bjuggu þeir kapelluna af miklu listfengi og má enn sjá innlagða skreytingu Aðalsteins og útskurð  í húsinu ósnertan og óskemmdan frá fyrstu tíð. 

Eins og öll önnur hús, þá þarf kapellan viðhald og var endurnýjun þaks orðin mjög aðkallandi. Nokkrir fullhugar réðust í þessa framkvæmd liðið sumar og prýðir nú endingargóð koparklæðning þakið húsinu til varnar um ókomin ár.

Einangrun þaksins er ólokið og gert er ráð fyrir að allt þetta fyrirtæki kosti um 3 milljónir króna. Um ein milljón hefur þegar safnast en afgangurinn bíður þess að velunnarar Vatnaskógar rétti hjálparhönd, hver eftir sinni getu.

Reikningur verkefnisins er: 0101-05-192975, kt. 521182-0169  

Ég vil nota bloggsíðu mína um þessi jól til að koma þessu þarfa verki á framfæri um leið og ég færi ykkur bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári. Þakka ég öllum sem komið hafa við hjá mér á árinu og ennfremur athugasemdir við skrif mín, sem flestar hafa verið  mér vinsamlegar og allar málefnalegar.


Baggalútur enn á ferð

Undanfarin ár hefur Baggalútur glatt okkur með undraskemmtilegum jólatextum við lagboða úr öllum áttum. Þjóðin hefur beðið eftir jólalagi Baggalúts með eftirvæntingu ár hvert og aldrei orðið fyrir vonbrigðum.

Í fyrra heyrðist kvein úr ranni Baggalúts og gefið í skyn að byrðin væri orðin of þung, kröfurnar of miklar og verkkvíði settist að þeim um veturnætur.

Nú bregður svo við, að jólalagið er ekki eitt heldur mörg. Það mætti halda, að Baggalútur hafi ákveðið að kæfa þjóðina með jólalögum til að losna við kvöðina. Það er gamalkunn aðferð. 

Sumir gera það vel, sem allir geta, en engum öðrum dettur í hug.

Það er list.

Frá einni árstíð til annarrar standa baggalútarnir mínir þegjandi í gluggakistunni í sumarhúsinu í einfaldri röð eftir stærð. Þeir eru listaverk náttúrunnar eins og Baggalútarnir okkar.


Hagræðing eða niðurskurður eða skrauthvörf?

Nú hanga stjórnmálamenn gjarnan í því haldreipinu, að þeir séu að hagræða í opinberum rekstri. Menn forðast niðurskurð eins og heitan eldinn enda vekur það hugtak neikvæðar tilfinningar en hagræðing  jákvæðar.  Það vafðist hvorki fyrir fréttastofu RUV né fulltrúa foreldra í seinni fréttum sjónvarps að verið væri að skera niður á leikskólum borgarinnar. Talsmaður borgarinnar talaði hins vegar um að hagræðing hafi verið minnkuð þannig að nú væri hún nánast orðin engin. Í fljótu bragði sýnist þessi fullyrðing tæplega meðmæli með eigin verkum og endurtekin hagræðingarrullan orðin beggja handa járn í höndum heilaþvegins stjórnmálamannsins.

Ég hef alltaf skilið hagræðingu á þá leið, að verið væri að breyta fyrirkomulagi til að meira fengist fyrir sama fé eða greiða þyrfti minna til að fá ákveðna vöru eða þjónustu. Þetta er líka skilningur orðabókarinnar því þar segir, að hagræðing sé að breyta þannig að afköst aukist eða kostnaður minnki.  

Jón heitinn Gúm, sem kenndi mér íslensku í menntaskóla, vakti oft athygli okkar strákanna á skrauthvörfum, þegar þau komu fyrir í texta og hvatti okkur til að nota þá aðferð, þegar við ætti. Að tefla við páfann, eru skrauthvörf, sem flestir kannast við.  Orðabókin segir að skrauthvörf eigi við það að nota fínlegra eða vægara orð í stað orðs, sem þykir ófínt, dónalegt eða hranalegt og nefnir botn í stað rass því til skýringar.

Ekki veit ég hvað stjórnmálamenn eru að forðast með því að klifa á hagræðingu í stað þess að kalla hlutina sínum réttu nöfnum eins og niðurskurð. Ég vil þó ráðleggja þeim að nota ekki önnur hugtök en þau, sem þeir hafa vald á, þegar þeir kjósa að nota skrauthvörf í stað sannleikans.  

 

 


Maðurinn lifir ekki af brauði einu saman

hefur verið sagt. Ég held að ég afsanni þetta innan tíðar. Hér á heimili eru nú orðið gerðir þvílíkir brauðhleifar og af svo drullugóðum gæðum að lifa má af þeim án annars til margra daga. Fyrir nokkru bakaði spúsa mín brauðhleif, sem var svo stór að undrun sætti. "Man eating plant" datt heimasætunni í hug. En gómsæt var hún og hvarf fljótlega á sinn stað. Nú er komið úr ofninum annað brauð öðru betra og mætti halda að atvinnubakarar hefði lagt þar hönd að verki. Og til viðbótar er það snyrtilega vaxið og prútt og frjálslegt í fasið eins og brauð eiga að vera.

Það skal tekið fram, að brauðgerðarvél önnur en konan mín hefur aldrei komið inn fyrir dyr á þessu heimili.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband