Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Samhverfa

Þú

með ódáinsakra

í blóði

og auðnu mína.

 

Hjartsláttur

vængja þinna

er vegferð mín

frá einu mosavöxnu spreki

til annars.

 

Við eigum

veglaust mark

án móta.

 

 


Hættu nú þessu bulli Andrés

Þú og aðrir stjórnarliðar haldið um valdataumana nú um stundir. Þið farið með völdin. Það stoðar ekki að benda á aðra.
mbl.is Valdhafar vilja ekki breyta stjórnarskránni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Eyjamenn að fara á límingunum?

Þessi frétt og yfirlýsing Eimskipa ber með sér, að skipstjórar Herjólfs hafa verið undir þrýstingi að sigla skipinu frá Eyjum til lands þegar þeir hafa metið það áhættusamt. Ef þessi leikur er stundaður í Eyjum þessa dagana og jafnvel endranær þá er það háskaleikur. Skipstjórarnir verða að geta lagt hlutlægt mat á aðstæður sem fagmenn og ótruflaðir af tilfinningum og hagsmunum, sem eru miklu minni en öryggi farþeganna, áhafnar og skips, sem þeir bera ábyrgð á.

Nú er komið í ljós, að flugstjóri vélar, sem fórst í Rússlandi í fyrra og flaug með forseta Pólands og annað fyrirmenni, var undir miklum þrýstingi að lenda vélinni í slæmu veðri, þótt allt mælti gegn því. Hann tók ranga ákvörðun sem var mannleg.

Ekki setja skipstjóra Herjólfs í þessa aðstöðu.


mbl.is Í höndum skipstjórans hvort siglt er
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skálanes hefur alið börn náttúrunnar

Lengst af á síðustu öld fór fyrir búi á Skálanesi Jón Einar Jónsson, bóndi, ásamt konu sinni Ingibjörgu, sem ættuð var frá Bíldudal. Þar ólu þau upp stóran barnahóp í litla húsinu við veginn. Tvö herbergi og eldhús. Þau hjónin voru gestrisin úr hófi og höfðingjar heim að sækja. Jón Einar var Breiðfirðingur, sem sleit barnsskónum m.a. í Breiðafjarðareyjum. Það var hann sem sagði mér, að Passíusálmarnir hefðu bjargað þjóðinni frá nýguðfræðinni. Hann var fæddur aldamótaárið 1900.

Jón stýrði um árabil verslun í Skálanesi fyrir Kaupfélag Króksfjarðar. Þjónustulundin var einstök og aldrei spurt um opnunartíma. Og klubban var á vísum stað handan við veginn ef berja þurfti harðfisk. Harðfiskurinn var einstakt sætmeti á Skálanesi.


mbl.is Frægur vegur hverfur á brott
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnlyndi

Svandís hefur valdið mér vonbrigðum. Hún kom fersk inn í borgarmálapólitíkina og virtist laus við klisjukennt þref stjórnmálanna. Sá hlutina að því er virtist í nýju ljósi. Notaði amk. ný orð yfir hlutina sem almenningur skildi. Nú hefur á daginn komið að þetta var ekki nýtt sjónarhorn, hvað sem öðru líður.

Svandís boðar ráðherraræði. Það er sú stjórnsýsluaðferð, sem sögð er vera að liða VG í sundur. Það ætlar að ganga erfiðlega að sameina sósíalismann og lýðræðisástina. Ítrekaðar tilraunir til slíkra hjónabanda hafa farið út um þúfur allt fram á þennan dag.


mbl.is Þörf á ítarlegri umræðu um stjórnsýslu Orkustofnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bolli eða Kjartan?

Hér annars staðar á blogginu má finna vangaveltur undir fyrirsögninni: Guðrúnar saga Ósvífursdóttur. Því miður leyfir sá höfundur ekki athugasemdir við bloggið sitt, sem óneitanlega væri skemmtilegt að gera. 

Það er vissulega rétt að Laxdæla fjallar fyrst og fremst um Guðrúnu en ekki þá fóstbræður Kjartan og Bolla. Líf Guðrúnar er þráður sögunnar. Sagan er reyndar að öllu leyti saga kvenna og eru karlar í aukahlutverkum.  Ef til vill hefur kona sagt söguna fyrir. Ættmóðir Sturlunga? Guðný Böðvarsdóttir? Hún var öllum hnútum kunnug um Dali og Snæfellsnes.

Kjartan var glæsilegur oflátungur og yfirgangssamur og hafði unnið sér margt til óhelgi, þegar hann féll. Guðrún elskaði Bolla, sem var höfðingi í lund og langþreyttur til vandræða. Bolli var vænstur hennar manna en beittur andlegri kúgun af hálfu Guðrúnar til að fremja óhæfuverk.

Ég held að Hannes Hólmsteinn sé glámskyggn, þegar kemur til þess að greina á milli afburðamanna og hæfileikamanna, eða hvort yfirleitt sé einhver brýn nauðsyn til þess.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband