Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012

Til hliðar við ómálefnalegan munnsöfnuð

Tveir menn tóku til sín gagnrýni mína um ómalefnalegan munnsöfnuð í Evrópuumræðunni og kröfðust annars af mér. Varð ég m.a. við því með pistli, sem ég skrifaði hér á bloggið fyrir 3 árum eða 2009:

"Ég hef haft takmarkaðan áhuga á að Íslendingar gerðust aðilar að Evrópusambandinu. Mér hefur sýnst Evrópusambandið bandalag gamalla þjóða, sem reist hafa verndarmúra umhverfis elliheimili sitt en brotið um leið innviðina, sem skilið hafa þær í sundur. Mér hefur þótt sem hagsmunum okkar yrði síður borgið innan þessara evrópsku múra en utan þeirra, þar sem færi gefst til skyndiaðlögunar að mismunandi mörkuðum og nota má krónuna eins og fljótvirkan þrýstijafnara í hagkerfinu. Að vísu hef ég haft góðan skilning á hinu pólitíska mikilvægi Evrópusambandsins fyrir þjóðir Evrópu í ljósi sögunnar. Sérstaklega varð mér þetta ljóst eftir að ég kynntist ungum Þjóðverja, sem tókst að horfa til framtíðar í sameinaðri Evrópu og sætta sig við fortíðina og þær hörmungar, sem áar hans höfðu leitt yfir Þjóðverja og aðra Evrópumenn.

Svo var það fyrir páska í fyrra, að ég skipti alveg um skoðun. Krónan hafði átt undir högg að sækja og öllum, sem það vildu sjá, varð ljóst, að verðmæti hennar var orðið rekald í tafli spákaupmanna m.a. af því tagi, sem við nú lesum um í fréttum. Og spákaupmennina var ekki bara að finna í útlöndum heldur í öllum kimum samfélags okkar. Bankarnir, fyrirtækin og lífeyrissjóðirnir okkar bröskuðu með krónuna, hvort heldur sem var í viðskiptum dagsins eða í framvirkum gjaldeyrissamningum. Mér sýndist þetta vonlaus staða og að Seðlabankinn og hagkerfið yfirleitt réðu ekki við kaupmennsku af þessu tagi. Krónan yrði alltaf dauðadæmd þegar ofurríkir fésýslumenn eða purkunarlaus fyrirtæki veldu hana til að kreista út gróða sinn. Krónan yrði að víkja.

Þess vegna tók ég afstöðu með Evrópusambandinu.

Ef einhver getur boðið mér nothæfa mynt án þess að Ísland fórni hluta fullveldis síns og yfirráðum auðlinda sinna, þá skal ég vera fyrsti maður til að hoppa þar um borð. Við eigum tæplega annað val en að kjósa evruna og Evrópusambandið."

Krónan heldur ekki nema með höftum og efnahagsstjórnin hefur verið slök og ekki spyrnt við fallvöltu gengi gjaldmiðilsins. Til þess að kóróna vitleysuna vilja stjórnmálamennirnir ríghalda í krónuna til þess sð geta reglubundið breytt yfir mistök sín við efnahagsstjórnina með því að ráðstafa auðnum frá einum til annars með þessum einfalda krana, sem krefst einskis annars en að skrúfa hann fram og til baka.

Þetta er ástand, sem er óviðunandi fyrir okkur, og krefst úrlausna, sem ekki eru í boði við óbreytt fyrirkomulag í stjórn efnahagsmála.


Ómálefnalegan munnsöfnuður

eins og lymskulegur, ESB-dindill, svikari, gabba, narra,  gamlir kommúnistar, ofurróttæklingar, refjar, ESB-þjónkun, má finna víða í Evrópuumræðunni. Þarf ekki að leita víða né í mörgum bloggum til að finna gildishlaðinn málflutning af þessu tagi og jafnvel í einu og sama blogginu eins og hér um ræðir. Svona orð dæma sig sjálf. Þau færa okkur frá kjarna máls, sem þó kann að vera einhvers virði. Svona lítilsvirðing við almenning, sem þó er verið að höfða til, er beggja handa járn svo vægt sé orðað og engum til sóma.

Það veldur enn meiri vonbrigðum þegar þessari aðferð er beitt í leiðaraskrifum virðulegra dagblaða, sem maður hefur borið hlýjan hug til. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband