Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

Faðir minn heitinn?

Færi ekki betur á því, að faðir hans sálugi vitji Kára í draumi?  Annars er ég ekki viss um, að Stefán heitinn Jónsson komi fram í háloftunum.
mbl.is „Væri ég lifandi hefði ég sent þessa vísu inn í Moggann“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

App er kló

Appið hefur vafist fyrir mér. Þó það beygist eins og tam. happ þá finnst mér það einhvern veginn án jarðteningar í íslenskunni.  Enda er tilvísunin í enska orðið "application". Einhvers staðar er því haldið fram að "application" sé forrit. Svo er auðvita ekki.

Application er e-ð, sem veitir aðgang, umsókn eða tengi. Því má nota orðið yfir smáforrit meðal annars. Í þeirri merkingu auðveldar og einfaldar forritið fólki aðgang að flóknari aðgerðum með stórum gagnagrunnum á netinu. Appið stingur okkur réttilega í samband við slíka möguleika.

Allir Íslendingar hafa vanist orðinu "kló" yfir það verkfæri, sem kemur okkur í samband við rafmagnið. Kló er skemmtilegt nýyrði í rafmagnsfræðinni. Hún líkist á vissan hátt klóm í dýraríkinu og svo notum við hana til að "læsa" rafmagnstækin í rafstrauminn.

Af hverju ekki að nota klær til að læsa okkur við aðgerðir af þessum toga á netinu?     


Læknavandinn á LSH-einföld lausn

Á fundi í Læknafélagi Íslands í gær hvatti heilbrigðisráðherrann menn til að tala í lausnum.  Blóðbankastjóri til hins sama, ef ég man rétt.  Þetta er gagnleg ábending  og að mínu viti ekki  erfitt að verða við þessari ósk.  Það er hins vegar skiljanlegt, að menn kinoki sér við að nefna snöru í hengds manns húsi, sérlega þegar fjármunir hafa afgerandi þýðingu fyrir lausn máls á fjárhagslega aðþrengdum spítala til áratuga. Hvar er þá lausnina að finna? 

Ég hitti góðan vin minn í lyflæknastétt á „göngunum“ liðið vor. Hans sagði svona eins og upp úr þurru: Segðu mér af hverju unga fólkið vill ekki vinna hjá okkur?  Hjá mér var auðvitað fátt um svör. Ég fann að þetta lá þungt á honum enda hans tími löngu kominn til að hlífa sér og gæta heilsunnar.

Ég hef auðvitað fylgst með þróuninni á Landspítalanum til margra ára og ekki með öllu ókunnugur því,  hvaða kúltúr hefur verið ríkjandi þar innan veggja varðandi  málefni yngri lækna og hvernig tekið er á umkvörtunum þeirra. Á liðnum árum hafa verið teknar íþyngjandi ákvarðanir um vinnufyrirkomulag og vaktalínur, sem hafa leitt til árekstra og jafnvel uppsagna. Þetta hefur verið gert í skjóli kreppuunnar, aðhaldsaðgerða, hagræðingar og raunverulegs niðurskurðar. Sú staðreynd, að lyflækningasviðið er undirmannað í dag er bein afleiðing þessara ákvarðana yfirstjórnar sjúkrahússins.  Hefur það leitt til þess að ungu læknarnir kjósa að vinna annars staðar.

Það er rétt hjá ráðherranum að fjármunir séu ekki allt í þessari stöðu heldur einnig vilji til verka.  Þar getur hann ekki átt við annað, en að yfirstjórn sjúkrahússins verði að setjast niður með læknum og vinda ofan af ástandinu. Yfirstjórnin verður að ganga í sig. Verkefni dagsins er að spyrja ungu læknana hvers vegna þeir vilji ekki vinna á lyflækningadeild LSH.  Þetta er ekkert flóknara. Svo verður að horfast ú augu við það, sem færa þarf til betri vegar.  Allt tal um annað er einungis til þess fallið að þynna út vandann,  breiða yfir hann; láta sem svo, að hann sé ekki til.  Á því hefur því miður borið.

Fækkun lækna í námsstöðum á lyflækningasviði LSH er auðvitað aðgerð að sínu leyti. Það eru viðbrögð lækna í þröngri stöðu. Það eru ekki viðbrögð lækna, sem eru afhuga ævistarfinu. Þvert á móti. En það verður ekki bætt um nema við þá verði rætt og á þá hlustað og þeim mætt með nauðsynlegum úrbótum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband