Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Fláræði í stjórnarsáttmála

Í stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar segir:

"Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu."

  Að jafnaði vísa stjórnarsáttmálar til þess, sem ríkisstjórnir ætla sér að gera. Þeir vísa ekki til þess, sem aðrir kunna að standa fyrir eða vilja hrinda í framkvæmd. Í ljósi þeirra atburða, sem hafa gerst hér á landi að undanförnu í tengslum við samningaviðræður við ESB, þá er þetta ákvæði stjórnarsáttmálans bara bull og ósannindi.

Er nema von, að Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, kalli þetta svikin kosningaloforð síns eigin flokks. Þessi orð hans hafa vafalítið verið honum þungbær en vel valin. 


mbl.is Á ekki að koma neinum á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ári síðar

Fyrir tæpu ári settist ég undir húsvegg í Búðardal og varð fyrir bókmenntalegri upplifun. Hún var svolítið sérstök, þar sem hún átti upptök sín í litlum kassa á húsinu. Ég bloggaði um þetta dulítið.

Ég átti leið þarna hjá í dag. Það var um svipað leyti dags og síðast. Norðanátt, strekkingur og frost í lofti. Það var ofurlítið skjól við húsvegginn. Fuglinn vaggaði sér rétt utan við fjöruborðið, mávur og úandi æður. Hún var þarna í hópi eins og alltaf þegar íslaust er. Sólin skein. Úr veggnum hljómaði gamla Gufan eins og áður. Það var bókmenntaþáttur og ungur maður las úr nýútkominni bók. Það var tunglbók sagði hann. Eitthvað, sem gefið er út á fullu tungli. Það munu vera öðruvísibækur. Hún heitir Spennustöðin.

Ég veit ekki hvað þeim kemur til, húsráðendum, að standa fyrir þessu útvarpi í mannlausu húsinu á Ægisbrautinni í Búðardal. Kannski synir þeirra Óskars og Hennýar haldi með þessu minningu foreldra sinna á loft. Eflaust. Kannski gamli maðurinn hafi setið þarna og losað sig við streitu hversdagsins undir Gufunni.

Eins og ég.

Þessi bekkur er sannkölluð Spennustöð.  


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband