Bloggfærslur mánaðarins, mars 2014

Elfur tímans

Í dag lauk 37 ára samfelldu tímabili í trúnaðarstöðum fyrir lækna.  Þetta byrjaði allt með ráðningum fyrir unglækna 1977 en í dag lauk formennsku minni í Almenna lífeyrissjóðnum, sem er starfsgreinarsjóður lækna. Á milli þessara tveggja punkta er mannsævi fjölbreyttra daga og kynni af helftinni af læknum samtímans og mörgum stjórnmála- og embættismönnum.  

Þegar hugsað er til baka, þá finnst mér einhvern veginn þeir hafi haft mest til brunns að bera og öðrum að miðla, sem náðu flugi án hafta, hafta, sem þeir lögðu á sig sjálfir eða létu öðrum eftir. Ef litið er til lækna, þá eru þeir eftirtektarverðir, sem spöruðu sig ekki þegar starfsævinni var lokið og hljóðir dagar framundan, menn eins og Árni Björnsson, skurðlæknir og fleiri góðir læknar ótaldir.

Ég læt hér fylgja nokkrar hugleiðingar mínar, sem birtust í Læknablaðinu fyrir löngu:  

"Þessir góðu eiginleikar Árna komu vel fram þegar hann var löngu hættur störfum, en taldi sér skylt að taka þátt í umræðunni um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Mátti öllum ljóst vera að þar fóru saman geislandi fjör og baráttugleði, frelsi andans og skapandi hugsun, öllum óháð nema sannfæringunni um það sem hún taldi rétt og satt." 

"Annar vinur minn í læknastétt skrifar skemmtilegan og ertandi stíl um gagnagrunninn. Og margt annað. Hann er alveg laus við að vera leiðinlegur. Hann er kominn á eftirlaun og engum háður. Hann er frjáls maður. Ekki tortímandi eins og Bjartur, miklu fremur andríkur, uppbyggilegur og skapandi. Kannski losnar hugsun minnar kynslóðar úr klakaböndum hagsmuna og sérhyggju, þegar hún kemst á aldur." 
 
 

Þeir sem lofa miklu,

... "sjálfum himninum jafnvel, eru að öllum líkindum annaðhvort skáld eða stjórnmálamenn. Fyrrnefndu vegna þess að þeir halda í einlægni að orð geti breytt heiminum, síðarnefndu vegna þess að þeir vita í eðli sínu að orð geta hæglega fært þér völd og vinsældir. Þeir eru ekki jafn barnalegir að upplagi og skáldin, og trúa þess vegna ekki í alvöru að þeir geti sótt sér himin með orðum, meginatriðið er að beita orðunum þannig að þau færi þeim það sem þeir falast eftir."  (Jón Kalman, Fiskarnir hafa enga fætur)

"Keep them ignorant, keep them pregnant".

Á öllum tímum hefur þetta verið eitt af beittustu vopnum mannsins. Skerða upplýsingu, hefta umræðu, banna samblástur. Heimaaldi múllann frá Sauárkróki, sem hefur öreklapper, þegar litið er til reynslu af öðrum þjóðum, reynir að keyra í gegn þingsályktun, sem tryggir alþjóðlegt limbó alþýðunnar á Íslandi. Hvers vegna? Til að tryggja ákveðna niðurstöðu áður en nokkuð liggur í raun fyrir? 

Má ekki bara svara þessu með samningi? Hvað er á móti því? Maður fer ósjálfrátt að halda að samningur kunni að verða of jákvæður, kunni þrátt fyrir allt að verða samþykktur afr þjóðinni. Andstaðan stafi af hræðslu við það.

Ef svo er, þá er alveg bókað, að verið er að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband