Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Bolli eða Kjartan?

Hér annars staðar á blogginu má finna vangaveltur undir fyrirsögninni: Guðrúnar saga Ósvífursdóttur. Því miður leyfir sá höfundur ekki athugasemdir við bloggið sitt, sem óneitanlega væri skemmtilegt að gera. 

Það er vissulega rétt að Laxdæla fjallar fyrst og fremst um Guðrúnu en ekki þá fóstbræður Kjartan og Bolla. Líf Guðrúnar er þráður sögunnar. Sagan er reyndar að öllu leyti saga kvenna og eru karlar í aukahlutverkum.  Ef til vill hefur kona sagt söguna fyrir. Ættmóðir Sturlunga? Guðný Böðvarsdóttir? Hún var öllum hnútum kunnug um Dali og Snæfellsnes.

Kjartan var glæsilegur oflátungur og yfirgangssamur og hafði unnið sér margt til óhelgi, þegar hann féll. Guðrún elskaði Bolla, sem var höfðingi í lund og langþreyttur til vandræða. Bolli var vænstur hennar manna en beittur andlegri kúgun af hálfu Guðrúnar til að fremja óhæfuverk.

Ég held að Hannes Hólmsteinn sé glámskyggn, þegar kemur til þess að greina á milli afburðamanna og hæfileikamanna, eða hvort yfirleitt sé einhver brýn nauðsyn til þess.  


Hvernig hefðu þeir farið að Mandela og Kristur?

Ég horfi stundum á fuglana út um gluggann heima hjá mér. Starrarnir berast um í hópum. Þeir virðast flögra stefnulaust frá einum stað til annars og ómögulegt er að sjá hvað ræður för þeirra. Kannski brestur í grein eða opnaður er gluggi. Þegar líður á daginn stækkar hópurinn. Þá er markmiðið orðið ljósara - að fara í öruggan náttstað. Þetta er svolítið svipað með þjóðina. Hún flögrar frá einni hugsun til annarrar. Það er eins og hún sé á ferðalagi í vandræðum sínum. Ljóð er ferðalag frá einni hugsun til annarrar sagði skáldið á sinni tíð. Það er tæplega hægt að kalla okkar tíma ljóð og enn síður skáldskap. Til þess eru þeir alltof raunverulegir.

Það er auðvelt að blaka við hugsun þjóðarinnar. Sú aðferð er notuð til að hrekja hana af leið. Nú fer orka hennar í að velta fyrir sér sundurlindi á stjórnarheimilinu, upplausn vinstri manna og meintu framhjáhaldi. Þetta virðist skipta öllu máli nú.   

Það er þægilegt líf að stjórna svona þjóð, sem telur það sitt brýnasta verkefni að ræða, hvort þremenningarnir hafi greitt einu eða öðru atkvæði vegna grundvallarsjónarmiða eða hefnigirni.

En saman mun þjóðin finna sér öruggan náttstað - eins og fuglar himinsins.

Þannig bloggaði ég í desember 2008 að breyttu breytanda. Bent hefur verið á að ekkert hafi breyst í þjóðfélaginu frá hruni og má það til sanns vegar færa. Sökin er tæplega fárra og enn síður einhverra annarra en okkar. Breytingin kemur aðeins með okkur, með nýjum tímum og siðum, sem við stöndum fyrir.

Hvernig hefðu þeir farið að Mandela og Kristur? Hefðu þeir orðað hugsanir sínar eins og víða má sjá á blogginu nú um stundir?

Gleðileg jól.


Af ávöxtunum skulu þér þekkja þá

Hér hefur náðst gleðilegur og mikilvægur áfangi við raunhæft verkeni í útflutningi heilbrigðisþjónustu. Margir hafa sýnt þessu áhuga en ekki viljað leggja lið. Vandaður undirbúningur og ekkert óðagot staðfestir, að verkefnið er í góðum höndum  fjárfesta með úthald. Þeir munu njóta ávaxtanna og væntanlega mun áhöfnin stækka þegar fram í sækir.

Þetta verður mikilvægt fyrirtæki í Mosfellsbæ og arðsdamt fyrir þjóðina.


mbl.is Samið um lóð fyrir einkasjúkrahús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvort er mikilvægara að hjóla í Icesave eða Steingrím J.

Hvað sem öðru líður þá tel ég það skynsamlega pólitíska forgangsröðun að ljúka þessu Icesavemáli fyrst og hjóla síðan í Steingrím fyrir meint afglöp, ef menn telja það réttmætt. Menn eru greinilega partískir í þessu og falla fyrir þeirri freistingu, þó þjóðin þarfnist annars.

 

Sjálfsréttlætingarpistlarnir úr Hádegismóum svo sem Reykjavíkurbréf dagsins eru svo annar vandi. Forvitnilegt verður að sjá hvernig forusta Sjálfstæðisflokksins bregst við fullyrðingunni um, að allt annað en höfnun nýja samkomulagsins verði svik við síðasta landsfund.  

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið forustuafl í utanríkismálum Íslands og dregið aðrar stjórnmálastefnur til lags við sig í friðsamlegum samskiptum við nágrannaþjóðirnar. Nú kveður hins vegar við annan tón og virðist einangrunarhyggja ráða æ meiru um afstöðu til pólitískra og viðskiptalegra samskipta við önnur lönd. Sú stefna mun aldrei gera annað en þjóna pólitískum stundarhagsmunum ráðandi afla í flokknum. 


Nú á að nota Moggann til illra verka

Tónninn var sleginn í morgun strax á forsíðu. Dregin upp dekksta hugsanlega niðurstaða fyrir þjóðina að vinna úr. Icesave málið allt er áfellisdómur yfir mistökum við stjórn landsmála á síðasta áratug. Því má ritstjórn Moggans ekki til þess hugsa að sátt náist við nágranna okkar og viðskiptamenn. Það myndi draga í brennipunkt afglöpin. Þá virðist betra að ala á sundurlyndi þjóðarinnar og taka hættu á ófyrirsjáanlegu tjóni.

Ég hef enn taugar til Moggans og þeirra sem það ráða húsum. En nú eru þeir á varasömum villigötum.


mbl.is „Ég ber ábyrgð á Svavarsnefndinni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lánsamir stjórnmálamenn

sem nú eru að leiða til lykta þetta vandræðabarn útrásarinnar. Við verðum að ná sátt við grannþjóðir og helstu viðskiptamenn. Einangrunarstefna er eyðandi, þegar smáþjóð á í hlut. Ofsinn, sem birtist í margvíslegu bloggi um þetta mál er í takt við gorgeirinn, sem varð okkur að falli.

Nú verður forvitnilegt að fylgjast með Bjarna Ben. og Sigmundi og klappstýrunni Ólafi Ragnari.


mbl.is Icesave-samningur í dag?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldarar úti í feni pólitískra loforða

Ég rakst á kunningja minn fyrir  rúmu ári. Hann er Norðmaður og býr hér á landi. Hann var að blaða í fasteignaauglýsingum og ég spurði, hvort hann ætlaði að festa sér húsnæði. Hann kvað svo ekki vera. Sagðist ætla að bíða í a.m.k. eitt og hálft ár í viðbót. Botninum yrði ekki náð fyrr. Þannig hefði það verið í kreppunni í Noregi fyrir 20 árum. Við ræddum það aðeins og þá atburði og þá kom fram, að um fjórðungur allra heimila í Noregi lenti í greiðsluvandræðum og engar sérstakar ráðstafanir voru gerðar af hálfu almannavaldsins í þeirra þágu. 

 

Það var athyglisvert að sjá gömul viðtöl við talsmenn Sigtúnshópsins í sjónvarpinu á dögunum. Sigtúnshópurinn  varð til í misgengi launa og verðlags 1983. Í hópnum voru ungir húsbyggjendur og vorum við hjónin á þeim báti um þetta leyti. Engar kröfur komu fram um að fá peninga að gjöf. Pétur J. Eiríksson krafðist aðlögunar fyrir fólkið til að það gæti staðið í skilum, aðlögunar, sem fæli sér aukin lán og lengingu þeirra eldri. Mannréttindaráðherrann var í þessum hópi. Skuldirnar voru borgaðar og erum við hjónin enn að og teljum það ekki eftir okkur. 

Vandinn, sem við er að glíma núna er tvíþættur a.m.k. Annars vegar er raunverulegur greiðsluvandi fólks, sem reisti sér ekki hurðarás um öxl miðað við óbreyttar forsendur, en getur ekki staðið í skilum án breytinga á skilmálum skulda sinna. Hins vegar er miklu stærri hópur, sem kominn er út í fen pólitískra loforða, sem gefin hafa verið allt frá hruni um að töfralausnir úr pípuhöttum stjórnmálmanna muni gera hann jafnsettan og hann var fyrir hrun. Engir stjórnmálamenn eða flokkar eru án sakar í þessum leik. Og jafnvel hinn gamalreyndi mannréttindaráðherra fer þar fremstur í flokki.

Þessi hráskinnaleikur hefur orðið til þess að draga úr greiðsluvilja fólks. Eða telja menn, að allir þeir viðskiptamenn bankanna, sem eiga 40 % lána þeirra í vanskilum, séu í raunverulegum greiðsluerfiðleikum?


Lífeyrissjóðirnir flysjaðir - stjórnin býður verstu niðurstöðu fyrir lífeyristaka

..og verri fyrir suma lífeyrissjóði. Ólyginn sagði mér, að fasteignalánin yrðu jöfnuð við fasteignamatið. Það vill segja, að þeir, sem höfðu "vit" á því að skuldsetja sig upp í rjáfur vegna fasteignakaupa og fjármagna e.t.v. alls konar í leiðinni, munu fá óreiðuna afskrifaða og þeir, sem lenda rétt undir fasteignamatsþakinu munu missa af vagninum. Lífeyrissjóðunum er ætlað að afskrifa tugi milljarða á þennan hátt.

Flestir lífeyrissjóðir  hafa rýrnað um meira en 20 % og tekinn og ótekinn lífeyrir þar með. Nú eiga lífeyrisþegarnir að bæta um betur og borga þetta líka. Þetta verður ekki gert með lagaboði heldur verður "samkomulag"  rekið ofan í kok á lífeyrissjóðunum. Þeir stjórnarhættir eru reyndar gamalkunnir.

Jafnræðisreglan er löngu gleymd. Gert verður upp á milli þeirra, sem staðið hafa í skilum og jafnvel borgað lánin hraðar en gert var ráð fyrir og dekurbarnanna, þeirra sem eiga séreign sína á bankareikningum og hinna, sem hafa hana í lífeyrissjóðunum og þeirra, sem þegar hafa tekið út séreign sína og þeirra, sem eiga hana enn á rentunni. Enn verður þeim refsað, sem hafa sýnt forsjálni og fyrirhyggju.

Nú er nóg komið.

Tómas Guðmundsson segir Matthíasi á spjalli þeirra, að það hafi komið honum á óvart, að Jón Þorláksson skildi styðja það í þinginu, að hann fengi listamannalaun. Við því hafi hann ekki búist. Jón var þekktur fyrir að vera sparsamur á annarra fé, sagði Tómas.

Það eru fögur eftirmæli.


Kindabóla en ekki sláturbóla

Þessi kvilli hefur verið í fréttum að undanförnu og Matvælastofnun vakið athygli á honum á heimasíðu sinni. Ég tel nafngiftina "sláturbóla" villandi, þar sem um erfiðan sjúkdóm er líka að ræða í lambám og ungum lömbum. Sláturbóla er staðbundið heiti einkum á Austurlandi. Ítarlega var ritað um þennan sjúkdóm í Læknablaðið 1990 og höfðu höfundarnir, læknarnir Stefán Steinsson og Sigurbjörn Sveinsson, kynnst sjúkdómnum við störf sín í Dölum og Austur Barðastrandarsýslu. Nokkru áður hafði verið ritað um þetta fyrir bændur í búnaðarblaðið Frey og voru höfundar Rögnvaldur Ingólfsson, þá héraðsdýralæknir og Sigurbjörn Sveinsson. Í texta, sem finna má á þessari slóð, segja Stefán og undirritaður:

"Sjúkdómur einn heitir »orf« í erlendum ritum. Þetta er búfjárkvilli, en getur þó borist til manna. Honum var lýst árið 1787 í sauðfé (getið í 1), 1879 í geitum (getið í 2) og 1934 í mönnum (3). Hann er ekki algengur og hefur vafist fyrir læknum að greina hann og meðhöndla rétt. Því er vakin athygli á honum hér. Á íslensku gengur sjúkdómurinn undir mismunandi nöfnum eftir héruðum: Skagfirðingar kalla hann hornabólu en Skaftfellingar sláturbólu. Hvorugt nafnið er allsendis réttnefni, eins og lesendur munu sjá. Lambabóla, bændabóla og kindabóla koma til greina. Orf er erlent alþýðunafn. Það mun komið úr fornsaxnesku, skylt orðinu sem á þeirri tungu þýðir naut (4). Einn höfundur segir það af sama stofni og íslenska orðið »hrufa« (5). Á fræðimáli er sjúkdómurinn oftast nefndur ecthyma contagiosum (4) en stundum dermatitis pustularis contagiosa (6). Síðara nafnið lýsir honum betur, en er öllu stirðara. Enskir kalla þetta ýmist orf, »soremouth« eða »scabby mouth«, og eru þá að tala um sauðfé, einnig »sheep pox« um menn. Þýskir tala um »Lámmergrind« (7). Í þessu skrifi höfum við eftir nokkrar vangaveltur valið nafnið kindabóla. Ekki er örgrannt um að menn kalli ýmis þau kýli sláturbólu, sem í sláturtíðinni fást, þar með taldar meðfærilegar bakteríusýkingar. Því er sláturbólunafnið ónákvæmt. Hornabóla er eina lifandi nafnið sem nothæft væri, ef forðast ætti nýyrðasmíð. Af neðanskrifuðu má þó sjá, að ekki smitast meinið af hornum einum. Því er leið nýyrðasmíða farin og kindabóla er ágætlega lýsandi nafn. Hér skal, áður en rætt er um eðli meinsins, drepa á nokkur sjúkratilfelli, sem höfundar hafa sjálfir stundað, eða haft spurnir af."


"Norðan við hníf og gaffal"

...sagði Hrafn í Kiljunni í gær, þegar hann vitnaði til heimkynna sinna norður við Ballarhaf. Það mátti halda að í kjölfar þess fylgdi kuldi sá og fásinni sem vitnað var til. En það var öðru nær. Þau hurfu á vit fegurðinni. "Fagur gripur er æ til yndis", sagði Óskar á sinni tíð og hafði eftir öðrum. Það er jafn satt fyrir því. Enda sást það á þeim öllum þrem. Þau voru snortin og Egill skríkti.

Fegurðina er erfitt að skilgreina. Henni verður tæplega með orðum lýst. Hún verður til í orðunum. Hún er afurð. Eins og eitt húsgagn er öðru fremra í málleysi sínu, þannig talar fegurðin í bókmenntum ekki fyrir sig sjálf heldur við fyrir hana. Hún bara er þarna. Og við skynjum hana. Þorgerður skynjaði hana í látlausri ástríðu, í því sem ekki var sagt, í línum sem skiluðu lesandanum Paradísarheimt í fáguðu handverki.

Eða það mátti á henni skilja.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband