Lífeyrissjóðirnir flysjaðir - stjórnin býður verstu niðurstöðu fyrir lífeyristaka

..og verri fyrir suma lífeyrissjóði. Ólyginn sagði mér, að fasteignalánin yrðu jöfnuð við fasteignamatið. Það vill segja, að þeir, sem höfðu "vit" á því að skuldsetja sig upp í rjáfur vegna fasteignakaupa og fjármagna e.t.v. alls konar í leiðinni, munu fá óreiðuna afskrifaða og þeir, sem lenda rétt undir fasteignamatsþakinu munu missa af vagninum. Lífeyrissjóðunum er ætlað að afskrifa tugi milljarða á þennan hátt.

Flestir lífeyrissjóðir  hafa rýrnað um meira en 20 % og tekinn og ótekinn lífeyrir þar með. Nú eiga lífeyrisþegarnir að bæta um betur og borga þetta líka. Þetta verður ekki gert með lagaboði heldur verður "samkomulag"  rekið ofan í kok á lífeyrissjóðunum. Þeir stjórnarhættir eru reyndar gamalkunnir.

Jafnræðisreglan er löngu gleymd. Gert verður upp á milli þeirra, sem staðið hafa í skilum og jafnvel borgað lánin hraðar en gert var ráð fyrir og dekurbarnanna, þeirra sem eiga séreign sína á bankareikningum og hinna, sem hafa hana í lífeyrissjóðunum og þeirra, sem þegar hafa tekið út séreign sína og þeirra, sem eiga hana enn á rentunni. Enn verður þeim refsað, sem hafa sýnt forsjálni og fyrirhyggju.

Nú er nóg komið.

Tómas Guðmundsson segir Matthíasi á spjalli þeirra, að það hafi komið honum á óvart, að Jón Þorláksson skildi styðja það í þinginu, að hann fengi listamannalaun. Við því hafi hann ekki búist. Jón var þekktur fyrir að vera sparsamur á annarra fé, sagði Tómas.

Það eru fögur eftirmæli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Jónsson

sæll Sigurbjörn

Þetta er ágætis áminning hjá þér, en það er einn hængur á, og hann er sá að þeir sem hafa tekið út sparnaðinn sinn eða geyma hann annarsstaðar en hjá lífeyrissjóðunum hafa e.tv. sýnt meiri forsjálni og fyrirhyggju en þeir sem treystu sjóðunum og sérfræðngum þeirra, með sín tengsl við verkalýðshreyfinguna, bankana og ríkisvaldið, fyrir sínum sparnaði.

Sigurjón Jónsson, 25.11.2010 kl. 09:55

2 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Sé það rétt sem ólyginn hefur sagt þér, er það enn ein sönnun þess að það er ekki til heil hugsun í höfðum þeirra sem um þetta véla.  Ég spyr hvers vegna á að aðstoða þá sem eru með góðar tekjur en skulda jafnmikið eða meira en þeir eiga, en ekki að aðstoða skuldara sem eiga raunverulega eign en eru með lág laun og því eiga ekkert afgangs þegar búið er að borga mánaðarlegar afborganir.

Kjartan Sigurgeirsson, 25.11.2010 kl. 10:07

3 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Sæll Sigurjón. Þitt sjónarmið er auðvitað gilt í umræðunni en breytir ekki kjarna máls.

Kjartan: Sanngirnishugsunin snýst nákvæmlega um það, sem þú segir.

Sigurbjörn Sveinsson, 25.11.2010 kl. 10:31

4 Smámynd: Vilhjálmur Ari Arason

Sæll Sigurbjörn. Málið er hins vegar að allt er afstætt þessa daganna sem svo oftar í okkar litla þjóðfélgi. Það skiptir nefnilega miklu máli fyrir einstklinginn hvaða ár hann er fæddur í lífinu. Á eins til tveggja áratuga tímabilum hefur verið í þrígang gott að kaupa sína aðal og oft einu eign sem viðkomandi hefur jafnvel grætt á en síðan koma slæmir tímar þar sem fólk missir eignir sínar vegna óráðsíju sem allt fjármálkerfið hefur tekið þátt í, á einn eða annan hátt. Margir sem eru nú að nálgst að geta tekið út sinn lífeyrisréttindi hafa sem betur fer verið heppnir og ekki tapað jafn miklu og þeir sem nú eru að tapa öllu sínu. Það er skylda samfélagsins að koma þeim til hjálar og jafna þannig kjörin þótt mörgum finnst það sárt og ósanngjarnt en svona er lífið og samhjálpin. Að mörgu leiti getum við sem eru í eldri kantinum sjálfum okkur um kennt að hafa ekki staðið vaktina betur. En vonandi björgumst við í sameiningu og mikilvægast nú er að koma þjóðfélaginu aftur í gang sem fyrst og missa ekki allt unga fólkið frá okkur. Ef þetta er eina leiðin að þá verður svo að vera. Bestu kveðjur, Villi

Vilhjálmur Ari Arason, 25.11.2010 kl. 15:57

5 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Ég rakst á kunningja minn fyrir  rúmu ári. Hann er Norðmaður og býr hér á landi. Hann var að blaða í fasteignaauglýsingum og ég spurði, hvort hann ætlaði að festa sér húsnæði. Hann kvað svo ekki vera. Sagðist ætla að bíða í amk. eitt og hálft ár í viðbót. Botninum yrði ekki náð fyrr. Þannig hefði það verið í kreppunni í Noregi fyrir 20 árum. Við ræddum aðeins og þá atburði og þá kom fram, að um fjórðungur allra heimila í Noregi lenti þ´í greiðsluvandræðum og engar sérstakar ráðstafanir voru gerðar af hálfu almannavaldsins í þeirra þágu. 

Það var athyglisvert að sjá gömul viðtöl við talsmenn Sigtúnshópsins í sjónvarpinu á dögunum: Sigtúnshópurinn  varð til í misgengi launa og verðlags 1983. Í hópnum voru ungir húsbyggjendur og vorum við hjónin á þeim báti um þetta leyti. Engar kröfur komu fram um að fá peninga að gjöf. Pétur J. Eiríksson krafðist aðlögunar fyrir fólkið til að það gæti staðið í skilum, aðlögunar, sem fæli sér aukin lán og lengingu þeirra eldri. Mannréttindaráðherrann var í þessum hópi. Skuldirnar voru borgaðar og erum við hjónin enn að og teljum það ekki eftir okkur. 

Vandinn, sem við er að glíma núna er tvíþættur amk. Annars vegar er raunverulegur greiðsluvandi fólks, sem reisti sér ekki hurðarás um öxl miðað við óbreyttar forsendur, en getur ekki staðið í skilum án breytinga á skilmálum skulda sinna. Hins vegar er miklu stærri hópur, sem kominn er út í fen pólitískra loforða, sem gefin hafa verið allt frá hruni um að töfralausnir úr pípuhöttum stjórnmálmanna muni gera hann jafnsettan og hann var fyrir hrun. Engir stjórnmálamenn eða flokkar eru án sakar í þessum leik. Og jafnvel hinn gamalreyndi mannréttindaráðherra fer þar fremstur í flokki.

Þessi hráskinnaleikur hefur orðið til þess að draga greiðsluvilja fólks. Eða telja menn, að 40% viðskiptamanna bankanna sé í raunverulegum greiðsluerfiðleikum?

Sigurbjörn Sveinsson, 25.11.2010 kl. 19:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband