Skylt er skeggið hökunni

Ólafur Jóhannesson hafði forgöngu um lagasetningu, sem gerði mögulegt að verðtryggja fé, sem veitt var að láni. Þetta var að því er mig minnir 1979. Lánsféð hélt raungildi sínu auk þess sem vextir voru greiddir fyrir lánið. Áður höfðu lánastofnanir reynt að verja eigur sínar með tvískiptum vöxtum þar sem hluti vaxtanna voru svokallaðir kjörvextir þeirra. Lögin, sem gjarnan eru kennd við Ólaf, voru framfaraspor.

Nú háttar þannig, að verðtryggingin hentar ekki vel í samfélagi, þar sem verðbólgan æðir áfram og allt virðist á hverfanda hveli nema lánsféð, sem varið er af verðtryggðum lánasamningum. Þá reyna menn að finna lagalegar glufur á brjóstvörn verðtryggingarinnar og draga í efa, að lagasetning Ólafs hafi á sínum tíma átt sér stoð í stjórnarskránni. 

Nema hvað. Til varnar verður embættismaður sunnan úr Evrópu, sem fer fyrir rannsókn EFTA á meðferð Íslendinga á verðtryggingunni, a.m.k. þeim hluta, sem tengir íslenska lánasamninga við gengi erlendra gjaldmiðla. Hver annar en barnabarn Ólafs Jóhannessonar. 

Tilfinningar og ættrækni hafa alltaf verið merkilegur fylgifiskur stjórnmálaþróunar og sjálfsagður ef út í það er farið.

Þetta er fyrst og fremst til gamans sagt og fyrir forvitni sakir og alls ekki til að beita aðferðinni "hjólað í manninn".  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ólafslög voru samþykkt á Alþingi á útmánuðum 1979. Þau fengu þetta viðurnefni vegna þess að málið var svo umdeilt og viðkvæmt, að Ólafur varð að höggva á hnútinn með því að semja lögin sjálfur og leggja það fram í sínu nafni sem forsætisráðherra í stað þess að það væri stjórnarfrumvarp. Fram að þeim hafði verið í gangi eitt stórfelldasta þjóðfélagsranglæti sögunnar þar sem verðbólgan olli því að lántakendur fengu gefins stóran hluta lána sinna en sparifjáreigendur voru féflettir, oft tekinn ævisparnaður af fólki. Lögin komu í gegn einu af helsta baráttumáli Vilmundar Gylfasonar.

Ómar Ragnarsson, 22.5.2013 kl. 23:41

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það merkilega er í þessu sambandi, sérstaklega í ljósi þess að allar staðreyndir liggja á borðinu, hversu mikið þessum lögum er hampað og hvað þau eru talin hafa hjálpað mikið í baráttu við verðbólguna.

Á áttunda áratugnum var verðbólgan hlaupandi á milli 20 og 40%. Þetta var auðvitað óviðunnandi ástand. Verðtrygging var sett á 1979 og verðtryggði bæði fjármagn og laun. Í kjölfar þessara laga óð verðbólgan upp og árið 1983 náði hún hámarki, fór yfir 100%!

Þá var verðtrygging launa afnumin og náðist nokkur árangur í þessari baráttu, þó ekki nema niður á svipað ról og á áttunda áratugnum, þetta 20 - 40%.

1991 var gerð þjóðarsátt. Í kjölfar hennar náðist loks að koma verðbólgunni niður. Frá 1994 og allt fram undir hrun var verðbólgan hér lág og stöðug, utan smá skot í kjölfar þess er tölvubólan sprakk, rétt eftir aldamótin, þá fór hún uppundir 10% smá stund, en lækkaði síðan aftur.

Það er því söguleg staðreynd að verðtrygging er ekki tæki til baráttu við verðbólguna, þvert á móti er hún sem eldsneyti hennar.

Hins vegar er friður á vinnumarkaði sterkt vopn og í raun eina vopnið. Friður á vinnumarkaði skapast þegar fólk hefur í sig og á og finnur að stjórnvöld standi að baki þjóðinni. Friður á vinnumarkaði skapast þegar skynsamt og heilbrigt fólk stjórnar landinu.

Því var ótrúlegt að horfa uppá fráfarandi stjórnvöld skapa úlfúð aðila vinnumarkaðarins gegn sér, ótrúlegt að horfa upp á fráfarandi stjórnvöld kasta stríðshanska í andlit aðila vinnumarkaðarins.

Það er vonandi að hin nýju stjórnvöld átti sig á þessari staðreynd og vinni að sátt milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Einungis þannig er hægt að ná árangri.

Þetta eru sögulegar staðreyndir, ekki skáldskapur eða pólitík. Þessar staðreyndir er hægt að nálgast t.d. hjá Hagstofunni og Seðlabankanum.

Gunnar Heiðarsson, 23.5.2013 kl. 07:20

3 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Verðtryggingin var aldrei hugsuð sem tæki í baráttunni við verðbólguna. Verðtryggingin var tæki til að fást við afleiðingar verðbólgunnar og til að fá fólk til að spara fremur en að eyða. Friður á vinnumarkaði er eitt þeirra vopna sem beita má gegn verðbólgunni.

Sigurbjörn Sveinsson, 23.5.2013 kl. 19:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband