Grauturinn er heitur

og kötturinn á sífelldu róli. Hve lengi hefur verið tönglast á því að lækna vanti, þeir komi ekki heim úr námi, þeir eldist, vinnuframlag minnki og engum dettur í hug í alvöru að draga fram ástæðurnar, sem liggja í augum uppi? Allra síst pólitíkusarnir, sem ábyrgð bera á þessu ástandi.

Litið hefur verið á heimilislækna sem þjóna kerfisins og hlutverk þeirra útmálað með hástemmdum orðum og tilvísunum til alþjóðlegra yfirlýsinga um mikilvægi heilsugæslunnar sem fyrstu viðkomu í leit að heilbrigðisþjónustu. Spor sögunnar liggja allt til Alma Ata 1978. En útfærslan og kraftarnir hér á landi hafa allir farið í annars vegar að njörva heimilislæknanna niður sem ríkisstarfsmenn og "embættismenn" ef vel liggur á fólki  og hins vegar að reita af þeim fjaðrirnar, kroppa af þeim kjörin. Dæmin úr rekstri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eru næg og þau nýjustu snúast um ýtrustu útfærslur á lágmarkskjörum, þegar Róm brennur undir fótum stjórnsýslunnar.

Hvernig er heilsugæslan rekin, þar sem þjónustustigi er viðunandi? Í Bretlandi, Danmörku, Svíþjóð, Noregi? Þar hafa stjórnmálamenn áttað sig á því, að sama rekstrarform hentar ekki öllum læknum og að ábyrgð þeirra sjálfra á læknisþjónustunni kann að laða fram meiri starfsánægju og meiri afköst. Í annan stað þá kostar það fjármuni að hafa heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað þannig að til sparnaðar leiði á síðari stigum heilbrigðisþjónustunnar. Þessu hafa stjórnmálamenn í áðurnefndum löndum áttað sig á. 

Hér á landi hafa menn aldrei horfst í augu við þessar staðreyndir nema etv. á áttunda áratugnum, þegar nauðsynlegar umbætur voru gerðar á heilbrigðisþjónustu í dreifbýli. Stjórnmálamennirnir fara í kringum þessar staðreyndir eins og kettir í kringum heitan graut og læknar í ábyrgðarstöðum líka. 

Á meðan hanga síðustu Móhíkanarnir á blóðugum nöglunum í störfum sínum og ekkert Kolbrúnarskáld sjáanlegt til að draga þá upp úr hvönninni.  


mbl.is Tveggja vikna bið á heilsugæslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ágæti Sigurbjörn.

Eins gott að Kolbrúnarskáldið fyrirfinnist aldrei
því launin reyndust ekki sýnni en svo, - eða öllu heldur svo
augljós, - að ekki var laust við að Þorgeir þykktist við Þormóð
eftir að hafa þegið af honum lífgjöfina.

Þetta mun alþekkt fyrirbrigði í heimi sálverkenda!

Er annars nokkuð að frétta af góðum transmiðlum þar vestra?!

Húsari. (IP-tala skráð) 27.4.2014 kl. 15:27

2 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Öllum öðrum fremur svara verður er Húsari. Ég hef verið vant við látinn í suðurhöfum og síðan með Dalamönnum, sem mæta vorinu með sama jafnaðargeði og þeir hafa gert síðustu þúsund árin. Afsaka mig þó ekki fremur en endranær.

Transmiðlar? - cismiðlar? Verðugt umhugsunarefni. Síðasti transmiðillinn, sem ég hef haft spurnir af, er einstæða móðirin, sem náði sambandi við afa sinn og hafði 42 milljónir upp úr krafsinu. Það er vel að verki staðið.

Með því getur hún etv. orðið cismiðill.

Sigurbjörn Sveinsson, 6.5.2014 kl. 21:33

3 identicon

Ágæti Sigurbjörn.

Þakka hlý orð í minn garð.

Transmiðill er sá sem fellur í leiðslu eða trans og virðist þeirri
gáfu gæddur að geta haft samband við annan heim.
Ástandi miðils meðan á þessu stendur hefur oft verið lýst svo
að engu sé líkara en að hann „yfirgefi líkamann“en rödd, andlit
og látbragð getur tekið verulegum breytingum meðan á þessu
stendur og ósjaldan ber það allan svip hins framliðna sem fram
kemur í leiðslu þessari enda sjá menn það svo fyrir sér að
hinn framliðni hafi um stundarsakir tekið sér bólstað í líkama
miðilsins.

Indriði Indriðason (f. 12. október 1883) er sennilega þekktastur
íslenskra transmiðla en Tilraunafélagið sem var stofnað 1908
hélt að hluta til um starf hans.

Mig minnir að Andrés Böðvarsson hafi komið eftir hans dag
en ef til vill skammlífur nokkuð.

Á seinni tímum komu fram Hafsteinn Björnsson og Lára Ágústsdóttir.

Í okkar tíma er Þórhallur Guðmundsson hvað þekktastur.
Telst hann vart meðal transmiðla heldur þeirra sem vökumiðlar
eru nefndir og þá með fullri eða hálffullri meðvitund meðan hann
starfar.

Císmiðlar(!) eru svo sennilega þeir sem strauja kortin í það
óendanlega á þeim miljónum vefsíðna sem taka að sér þjónustu
með nútímasniði á þessu sviði og lítið um að menn taki þar andvörpin
sem hins vegar liðu fæstum úr minni sem þátt tóku í fundum á fyrri tíð
en andvörpin þau fylgdu því er miðill hvarf til uppheima meðan líkami
hans var til lánsins á jörðu niðri, - að því er virtist!

Húsari. (IP-tala skráð) 9.5.2014 kl. 08:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband