Árni Bergmann og Ásta Sóllilja

Ég er að lesa minningar Árna Bergmann. Það er forvitnilegur lestur. Mér finnst eins og við höfum verið samferða frá því ég var í foreldrahúsum. Ég las Þjóðviljann frá því ég fór að fylgjast með. Það var um það leyti sem Árni kom heim frá námi í Moskvu og tók til við að bjarga heiminum með bókmenntagagnrýni og fleiru á Þjóðviljanum. Mér er óhætt að segja frá þessu svona, því Árni gerir það sjálfur glaðlega og af hreinskilni.Við Þjóðviljinn urðum samferða allt þar til hann lognaðist út af. Ekki síður en Mogginn, sem fylgdi mér fram í janúar 2010. Þá var hann orðinn mér um megn. Ég kaupi hann reyndar stundum um helgar til að ná réttu sambandi við nafna minn Magnússon, útgerðina í landinu og túlkun Davíðs Oddssonar á sjálfum sér og samtímanum.

Árna þekki ég alls ekki persónulega þótt hann hafi verið einn þeirra, sem kynntu fyrir mér menningu veraldarinnar allt frá barnæsku minni og síðast í frábærri bók um glímuna við Guð.

 

Árni segir skemmtilega frá kynnum sínum af þekktu fólki og óþekktu eins og staða hans á Þjóðviljanum gaf tilefni til. Athyglisverðar eru sagnir hans af Halldóri Laxness og sannast þar enn á ný, að HKL var ólíkindatól. Árni segir. "Þegar Halldór var síðast gestur í okkar húsi (1987) barst talið að fátæktarbæjum sem hann hafði gist á ferðum sínum um landið. Eitt slíkt kot var fyrir vestan. "Það var í Múlasveit", sagði Halldór, "þar var einhver mesta fátækt á Íslandi. Ég batt saman fötin mín í spotta og hengdi upp í rjáfur um nóttina og kannski slapp ég með þessu móti við að fá á mig lús sem þar var krökt af."

Fleiri kotbæir voru nefndir. Einn gestanna, Kjartan Ólafsson, mundi að á einum þeirra var stúlka sem hét Ásta Sóllilja og spurði: "Fékkstu nafnið þaðan?"

"Sóllilja?" hváði Halldór. "Í hvaða bók var hún?"" 

Margt annað sagði Halldór þetta kvöld með þeim Kjartani og Árna, sem vert væri fyrir áhugasama að lesa í minningum Árna.

En því rifja ég þetta upp hér að fyrir mörgum árum birti ég lítinn pistil á þessum blöðum um sama efni þ.e. Ástu Sóllilju, sem ég dreg hér fram mér og öðrum til ánægju. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eg er ekki vanur að lesa Mogga bloggið. Enn einvern vegin rakst eg inn a bloggið þitt broðir. Þu sem gallharður sjalfstæðismaður her a fyrri öld ert farin að afneita fortið þinni i politik, og farin i þokkar bot hrosa einum mesta sosialista Islands, og þar ibot fyrrum ritstjora Þjoðviljans eru i min eyru uppljomun? Hvers vegna að gleðja föður okkar og broður sem aðhyltust og lasu allt sem Arni Bergman let fra ser. Eg er viss um að þeir se mjög anægðir með sinna skipti þin. Enn þer að segja, eru þetta bara elliglöp þin? Eg vil bara oska þer og mer til hamingju með að loksins ert þu orðin sannkristinn. ❤️

Arnor Sveinsson (IP-tala skráð) 13.2.2016 kl. 00:41

2 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Sæll bróðir minn.

Við skulum fara varlega í að túlka heinssýn mína út frá þessu litla bloggi. Það er göfugt að tala af kurteisi um andstæðinga sína og enn göfugra að heiðra skoðanir þeirra með því að kynna sér þær og reyna að skilja þá hugsun, sem að baki býr. Þetta lærðum við bróðir minn í föðurhúsdum þótt fordæmið væri missterkt. Ég hef lengi virt Árna Bergmann og sagði einhvern tíman hér á þessum blöðum, að sól íslenskrar blaðamennsku hafi risið hæst á dögum hans á Þjóðviljanum og Matthíasar á Mogganum. Það er ekki þar með sagt að grundvallarskoðanir mínar í pólitík hafi breyst. Ég er vonandi jafn frjálslyndur og ég var og til hægri við þann stað í pólitík, sem þú vilt setja mig niður núna.

Þessu til viðbótar þá vil ég segja þér, að þegar ég bjó fyrir vestan og var formaður sjálfstæðimanna þar, þá hafði Alþýðubandalagið 50 atkvæði í Laxárdalshreppi en Þjóðviljinn seldist í 5 eintökum. Eitt þessaraa eintaka fór í mitt hús og má segja að ég hafi lagt drýgri skerf til útgáfu blaðsins en margir aðrir pólitískir andstæðingar mínir. 

Þú ættir að lesa ævisögu Vilborgar Dagbjartsdóttur, kennara og skáldkonu m.m. Þar er á ferðinni sannkristinn sósíalisti.

Sigurbjörn Sveinsson, 13.2.2016 kl. 13:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband