Kreppuhagfræði bjartsýninnar

Við þurfum sífellt að láta krónuræfilinn ganga manna á milli. Eins hratt og við framast getum. Það er óhætt í samdrættinum. Veldur tæplega verðbólgu við okkar aðstæður.  Við megum ekki læsa buddunum eða lúra á krónunni. Þetta kenndu þeir okkur hagspekingarnir, sem voru tíðir gestir á skjánum fyrir nokkrum vikum, en sjást því miður ekki lengur. Hvað varð annars um þá? Eru þeir að fara yfir jólaprófin? Hvað um það, þá skiptir hins vegar máli í hvað við eyðum. Við eigum að eyða í mannaflafreka starfsemi þar sem verðmætasköpunin fer fram innanlands. Það segja spekingarnir. Og margt af því er ekki "eyðsla" heldur fjárfesting. Mennta- og heilbrigðismál er dæmi um slíka starfsemi, þar sem auðlindin felst í mannaflanum og hvert vel unnið verk skilar öðru betra.

Þeir vissu þetta forfeðurnir þegar þeir lögðu grunn að fallegum og gagnlegum opinberum byggingum í fátækt og kreppu og þar standa  skólarnir upp úr víða um land. Gylfi Þ. Gíslason og Bjarni Benediktsson vissu líka hvað þeir voru að gera, þegar þeir treystu fjárhagsgrundvöll Sinfóníuhljómsveitar Íslands í kjölfar kreppunnar 1967-8, þannig að listamennirnir voru ekki lengur bónbjargamenn hjá ríkissjóði.

Nú reynir á að hugsa stórt og við hæfi. 

Tónlistarhúsið hefur forgang fyrir margra hluta sakir og er ekki síður mikilvægt en nýtt sjúkrahús. Þar sem það stendur nú með framkvæmdirnar í andaslitrunum er það eins og vitnisburður um ófarir þjóðarinnar og uppgjöf. Þögull minnisvarði um þjóðina, sem gekk í björg með aflamönnum verðlausra fjármuna og beygði sig í lotningu fyrir fagnaðarerindi þeirra.  Þessir tímar eru að baki og hamrahöllin á hafnarbakkanum þarf að breytast í þann kyndil, sem Ólafur Elíasson, myndlistarmaður ætlar henni að vera og þjóna tónlistinni en fyrst og fremst þjóðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband