Sýklalyfjaóreglan

Ég komst á dögunum yfir ráðherrabréf frá Vilhjálmi Ara Arasyni lækni til nýja ráðherrans í heilbrigðismálum.  Ekki að þar séu nein  undirmál að finna. Síður en svo.  Í bréfinu er læknirinn að vekja athygli á þeim vanda sem skapast við sýklalyfjanotkun. Það eru orð í tíma töluð. Vilhjálmur segir: 

"Kostnaður vegna sýklalyfja er mikill í þjóðfélaginu og skipar fimmta sætið í heildarkostnaði vegna lyfjamála.  Ofnotkun í þessum lyfjaflokki er að mörgu leiti alvarlegri en annarra lyfja vegna langtímaafleiðinga sem ofnotkun hefur í för með sér og snýr að hratt vaxandi sýklalyfjaónæmi.

Nýjustu upplýsingar frá Sýklafræðideild LSH sýna að tveir algengustu sýkingarvaldarnir sem valda flestum hálsbólgum, eyrnabólgum og lungnabólgum eru í nær helmingi tilfella með ónæmi fyrir penicillínlyfjum eða helstu varalyfjum.  Stór hluti barna bera þessar bakteríur, sérstaklega eftir að hafa fengið sýklalyf. Erfiðleikar eru þegar í dag að átta sig á kjörlyfjum og skammtastærðum sem duga til að meðhöndla alvarlegar sýkingar sem þessar bakteríur geta valdið, ekki síst meðal barna.

Sýklalyfjanotkunin hér á landi er allt að 40% meiri en á í hinum Norðurlöndunum auk þess sem meira er notað af breiðvirkum sýklalyfjum.  Hlutfallslega er notkunin langmest hjá yngstu börnunum eða sem samsvarar um fjórungi af allri sýklalyfjanotkun utan sjúkrahúsa.  Í samanburði við sýklalyfjanotkunina eins og hún var fyrir 10 árum í íslenskri rannsókn að þá hefur hún aukist um 35%  hjá börnum undir  5 ára aldri.

Stærsti hluti af öllum komum fyrir alla aldurhópa til heilsugæslunnar og á vaktir er vegna loftvegasýkinga og miðeyrnabólgu barna sem í mörgum tilvikum leiðir til sýklalyfjaávísunar.  Nýlega hefur verið sýnt fram á þrefaldan mun í sýklalyfjanotkun barna eftir landsvæðum og í nýlegri skýrslu Landlæknis um ávísanir á lyf 2007 var mikill munur milli landsvæða og  var sýklalyfjanotkun t.d. á Akureyri helmingi minni en á höfuðborgarsvæðinu. "

Við þurfum að átta okkur á því, að í hvert skipti sem sýklalyf er notað skapast sá möguleiki, að upp vaxi sýklar, sem eru harðgerari en þeir sem fyrir eru og jafnvel ónæmir fyrir viðkomandi lyfi. Því þarf ábendingin fyrir notkun lyfsins hverju sinni að vera skýr og notkun þess afdráttarlaus nauðsyn. Læknar ráða ekki við það einir að stýra þessu í heilbrigðan farveg. Til þess þurfa þeir hjálp almennings og skilning á því, að oft á það betur við að láta náttúruna sjálfa sjá um að lækna sjúkdómana en að krefjast læknisdóma til þess.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Komið frá lækni var þessi pistill fræðandi.  Læknar hafa ýtt undir notkun sýklalyfja við eyrnarbólgu í börnum í sumum vestrænum löndum.  En mér er ekki kunnugt um verklag ísl. lækna.

EE elle 

EE (IP-tala skráð) 19.2.2009 kl. 23:01

2 Smámynd: Guðrún Vala Elísdóttir

Ég hef þá tilgátu að börnum yngri foreldra (fyrstu börnin) séu gefin oftar sýklalyf.  Ástæðan kann að vera óöryggi yngri foreldra gagnvart veikindum barna, etv leita þeir frekar læknis og oftar og vilja þá fá lausnir við veikindum, nú eða þá það að þeir séu óöruggari gagnvart læknum og þiggi lyf!!!   Þetta segi ég nú bara vegna þess að mín reynsla er svona, og alhæfi út frá því.  Alhæfingar eru reyndar varasamar, og ég veit ekkert hvernig þetta er hjá öðrum.  Alla vega þá fékk elsta barnið mitt mest og flestu penicillinkúrana og en hin börnin minna alveg í réttri röð niður á við.  Öll voru þau með skemmda hálskirtla og þrjú eyrnabólgubörn.  Sá yngsti sem er sjö ára hefur ekki farið oftar á sýklalyf en 2-3 sinnum, þrátt fyrir ýmis veikindi.  Viðhorfið verður annað þegar maður eldist, enda var reynsla mín að sýklalyfin brutu niður varnir líkamans, og barnið veiktist fljótlega aftur... Minn elsti átti við þrálát veikindi að stríða á unglingsárum og ÞÁ var hann orðinn ÓNÆMUR fyrir lyfjunum.  Jæja, vildi bara tjá mig aðeins - sem leikmaður og fjögurra barna móðir.

Guðrún Vala Elísdóttir, 22.2.2009 kl. 02:24

3 identicon

Fyrir þá sem hafa áhuga á heilsu barna og lýðheilsu almennt bendi ég á fyrirspurn Ástu Möllers þingkonu og fyrrv. formann heilbrigðisnefndar alþingis til heilbrigisráðherra í gær um mikla sýklalyfjanotkun hér á landi og vaxandi sýklalyfjaónæmi. Nálgast má umræðuna á vef alþingis, þingmál 540.

Málefnið er sérstaklega mikilvægt heilsu ungra barna hér á landi í dag en þau bera í u.þ.b. helming tilfella þessar ónæmu bakteríur eftir að hafa fengið sýklalyf hér á land. Þetta eru sömu bakteríurnar og valda flestum alvarlegum sýkingum í dag. Um 20% af allri sýkalyfjanotkun í þjóðfélaginu er til barna undir 7 ára aldri, oftast vegna vægra sýkinga þar sem sýklalyfjameðferð er óþörf. Samt virðist sýklalyfjanotkunin hafa aukist hjá börnum á þessum aldri um 35% á sl. 10 árum og var hún samt mikil fyrir. Alvarlegar sýkingar sem þessar ónæmu bakteríur geta valdið er erfitt að meðhöndla þegar í dag og eru læknar oft í miklum vanda með meðferð sem dugar. Ef sama þróun heldur áfram í náinni framtíð stefnir í mikið heilbrigðisslys hér á landi að mínu mati sem ógnar lýðheilsunni, sérsatklega meðal yngri barna. Við þessu ber að vara og tel ég það ekki hræðluáróður, sérstaklega þegar bent er á leiðir til hugsanlegra úrbóta eins og kom fram í brefi til helbrigðisráðherra og heilbrigðisnefndar frá undirrituðum nýlega og Ásta Möller benti vel á í sinni fyrirspurn. Það er þó rétt að lykillinn er aukin fræðsla um þessi efni til almennings og að farið sé eftir bestu leiðbeiningum um meðferð á hverjum tíma. Til þess að þarf sterka heisugæslu og vel skipulagða vaktþjónustu.

Vilhjálmur Ari Arason (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband