Lífeyrissjóður með hreint sakavottorð

Þegar málefni lífeyrissjóða í vörslu Landsbankans voru til umræðu á dögunum kom fram, að Almenni lífeyrissjóðurinn hafði farið í gegnum sama nálarauga Fjármálaeftirlitsins og þeir og ekki fengið á sig athugasemdir.  Því er sjaldan hampað, sem vel er gert og því ástæða til að hrósa starfsmönnum sjóðsins og framkvæmdastjóra hans fyrir samviskusamlega unnin störf eftir fyrirmælum stjórnar sjóðsins í gjörningaveðri verðbólunnar sem var.

Nú hafa augu manna beinst að risnu, sem forráðamenn  lífeyrissjóða hafa þegið úr hendi viðskiptamanna og vörsluaðila lífeyrissjóðanna. Er það gömul saga og ný að borið sé fé á menn með þessum óbeina hætti til að liðka fyrir viðskiptum. Læknar þekkja það úr eigin ranni, að fyrirgreiðsla lyfjafyrirtækja við þá hefur ekki öll verið hugsuð sem þráðbein leið til að lina þjáningar sjúklinga. Þá er eins víst, að velgjörðir viðskiptamanna lífeyrissjóðanna hafa ekki allar verið beinlínis til þess fallnar að bæta hag sjóðfélaganna.

Við eftirgrennslan mína hefur komið í ljós að risna af þessu tagi hefur ekki tíðkast innan Almenna lífeyrissjóðsins. Þær eru hverfandi ferðirnar, sem farnar hafa verið til útlanda og tengja má því, sem til umræðu hefur verið. Ekki er mér kunnugt um ferðir innanlands svo sem laxveiðiferðir.  Mér er kunnug sú skoðun stjórnarmanns í Almenna lífeyrissjóðnum frá fyrstu hendi, að laxveiðiferðir til að mynda í boði vörsluaðila sjóðsins, sem þá var Glitnir, væri dæmi um hreina spillingu.

Stjórn Almenna lífeyrissjóðsins er nú öll kosin af félögum í sjóðnum og þarf sjóðurinn því ekki að fara í gegnum þá erfiðu umræðu um hlut atvinnurekenda, sem framundan er hjá mörgum lífeyrissjóðum stéttarfálaga.  


mbl.is Lífeyrisréttindi skerðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott að heyra að einhvers staðar hafi verið gengið fram af ráðdeild og sparsemi og virðingu fyrir umbjóðendum sínum á þessum síðustu og verstu tímum.

Það er eins og máltækið segir það þarf mjög sterk bein til þess að þola góða tíma og sannast það í þessu tilviki.

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 09:11

2 identicon

Hef athugað þetta sjálfur, með mínum hætti.

Betra væri að fleiri stjórnir  gætu sýnt það sama.

Ætla ekki að hrósa ykkur. Þetta er bara eins og það á að vera.

Þess vegna er það nauðsynlegt að sjóðsfélagar kjósi sjóðstjórnir beint.

Þá er meiri möguleiki að greina  sauðina frá höfrunum.

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 11:06

3 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Mér finnst alveg mega hrósa þeim sem á það skilið jafnvel þó þau séu að vinna vinnuna sína, bara ef tekið er fram fyrir hvað er verið að hrósa. Svo stjórnin á alveg skilið að fá hrós fyrir að standast ,,mútur."

Skólastarf gengi t.d. ennþá betur ef fólki sem þar vinnur og nemendum líka væri tamara að minnast á og þakka það sem vel er gert.

Kveðjur HP:

Hólmfríður Pétursdóttir, 26.3.2009 kl. 11:18

4 Smámynd: Friðrik Thor Sigurbjörnsson

Ég tek undir þetta með Hólmfríði - mér þykir eðlilegt að hrósa fólki fyrir að gera hlutina eins og þá á að gera. Það hefur löngum verið vinstrimanna háttur, a.m.k. hér á Íslandi, að gagnrýna einungis og hrósa aldrei. Það er þeirra sýn að allt sem rétt er gert sé sjálfsagt framlag til samfélagsins og það skuli hvorki launa né lofa.

Þessa stefnu er íslenskt samfélag að taka undir verndarvæng jafnaðarflokkanna og því get ég, og mín kynslóð, varla beðið eftir því að flýja land. Það verður tómlegt umhorfs á Fróni að áratug liðnum ef fram heldur sem horfir.

Friðrik Thor Sigurbjörnsson, 26.3.2009 kl. 11:51

5 Smámynd: Friðrik Thor Sigurbjörnsson

Að sjálfsögðu mæli ég ekki fyrir hönd heillar kynslóðar en þetta er það viðhorf  sem gegnumgangandi er hjá því fólki sem er að ljúka námi og hefja störf og fjölskyldulíf.

Friðrik Thor Sigurbjörnsson, 26.3.2009 kl. 11:52

6 identicon

Hólmfríður.

Ég þakka sjóðstjórn, en hrósa ekki. Mér líður illa í skjall umhverfi.

'Olafur Sveinsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 11:57

7 identicon

Friðrik. Ég veit ekki hvað flokks pólitík hefur með þetta mál að gera?

Þá flýrðu allavega ekki til Norðurlandanna.

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 12:27

8 identicon

Hvernig er það Friðrik frændi - er aldrei hægt að hafa skoðanir á neinu nema það sé tengt við flokkspólitík - ef sú er raunin þá skil ég vel ef þú getir ei beðið eftir að flýja land.....hlýtur að vera ansi þreytandi að vera alltaf settur í bás og að þín viðmið og gildi eru aldrei viðurkennd eða þeim aldrei hrósað - bara flokknum/heildinni!!

Þeir sem lesa skrif mín núna gera kannski ráð fyrir því að ég sé sjálfstæðismanneskja þar sem að hér kem ég inná frelsi einstaklingsins  (svona eins og þú myndir líklegast benda á) ... en þeir sem mig þekkja vita nú betur en að svo er ekki!! ;D

Þórdís Jóna (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 12:29

9 identicon

Ég skil ekki alveg hvernig þú gast dregið fram flokkapólitíkina í þessari umræðu Fred, hún hefur ekkert að gera með þetta.  Það eru örugglega einhverjir vinstri menn í stjórnum einhverra lífeyrissjóða, rétt eins og það eru hægri menn og miðjumenn.  Það sem skiptir máli í þessu er að haga sér í samræmi við hagsmuni sjóðsfélaganna, hvar á bekk sem þeir skipa sér.  Það ber ekkert að hrósa sérstaklega fyrir það, þannig á það bara að vera. 

Tómas Örn (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 13:20

10 Smámynd: Friðrik Thor Sigurbjörnsson

Það liggur í augum uppi að viðhorfið sem ég gagnrýni er einstaklingsins fyrst og flokkanna síðar. Þannig gagnrýni ég í fyrri efnisgreininni viðhorfið og í þeirri seinni harma ég þá þróun sem hefur orðið í þá veru að viðhorfinu er hampað af ríkisstjórninni sem situr nýbrennd og möluð í Lækjargötunni.

Hvernig sem á það er litið var ég ekki, í þessu máli, að skipa Ólafi, mínum ágæta frænda, í e-n ákveðinn stjórnmálaflokk fremur en annan. Það má hins vegar ljóst heita að Ólafur er eldheitur vinstrimaður, samkvæmur sér í sannfæringu sinni, og ég leyfi mér að fullyrða að hann skammast sín ekki fyrir það frekar en Þórdís . Þessi yfirlýsta stefna er ekki mín eigin og fékk ég það á tilfinninguna af skrifum frænda að þau ættu sér rót í henni. Þess vegna talaði ég um vinstrimenn.

Efnisgreinarnar tvær voru því aðskildar en um leið tengdar. Það er (sem betur fer) ekki til neitt sem heitir Vinstrimannaflokkurinn. Þá væri ég í öllu meiri vanda.

Með góðri kveðju og í mestu frændsemi ,

Friðrik Thor Sigurbjörnsson, 26.3.2009 kl. 13:21

11 Smámynd: Friðrik Thor Sigurbjörnsson

Varðandi þína athugasemd, Tómas, þá gefa margar umræður tilefni til frekari umræðu um umræðuefni sem ekki voru áður til umræðu.

Svona til þess að hafa hlutina á kristaltæru.

Friðrik Thor Sigurbjörnsson, 26.3.2009 kl. 13:27

12 identicon

Mér finnst þessi umræða hér orðin skuggalega persónuleg :-) með allt þetta frændfólk í framlínu. Spurning um að senda nótu á línuna og bjóða fleirum að taka þátt?

Ég verð að viðurkenna að í sakleysi mínu þá sá ég ekkert athugavert við athugasemd Friðriks fyrst þegar ég las hana. Að endurskoðuðu máli - er ég ennþá sömu skoðunnar. Líklegast hefur "hugsanalest" hans að lesinni athugasemd Óla gefið honum tilefni til að koma með yfirlýsingu sem tengist áhyggjum hans af umhverfinu sem hann býr í. Það er ekki skrítið að hann noti hvert tækifæri sem gefst til að koma á framfæri þeim áhyggjum enda liggur mikið við fyrir okkur unga fólkið að rétt sé farið að og sem betur fer hefur hann, sem aðrir, sterkar skoðanir á hvaða leið verður farin. - Það er jú bara með mikilli rökræðu, gagnkvæmri gagnrýni og stöðugri endurskoðun sem líklegt er að rétta leiðin verði ofan á.

Það er rétt að málið sem er efni bloggfærslunnar er kannski ekkert sérstaklega pólitískt - en umræður sem af henni spinnast geta farið út um víðan völl. Sem betur fer.

Ásta Sóllilja (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 13:36

13 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Nú er ég farinn að skilja Nimbus á veðurblogginu - umræðan komin út um víðan völl og farin að minna á gott fjölskyldupartí. Ég á fjósbitanum og hlátur í hug.

Sigurbjörn Sveinsson, 26.3.2009 kl. 13:41

14 identicon

Sem stofnfélagi í ALMENNA lét ég skoðun mína í ljós.

Yfir og út.

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 14:13

15 identicon

Nú verð ég seint sakaður um að vera vinstri maður en ég fæ samt ekki séð af hverju það þarf að vera eitthvað sérstakt að starfsmenn og stjórnir lífeyrissjóðs hagi sér þannig að hagsmunir sjóðsfélaga séu ekki bornir fyrir borð í ferlinu og að það beri að verðlauna eitthvað sérstaklega fyrir það.  Það gefur til kynna að sukk og svínarí sé normið og ég efast um að það sé svo.  Ég held líka að Óli sé ekkert á móti því að hrósa fólki sem á það skilið en það að sjóður starfi eftir útgefinni stefnu er bara það sem maður býst við.  Ef hann hins vegar nær framúrskarandi ávöxtun OG heldur sig við stefnuna sem hann leggur upp með, þá er ástæða til að kætast og hrósa og mæra.

Tómas Örn (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 14:26

16 identicon

Er þér ekki kunnugt um það að stjórn Almenna lífeyrissjóðsins keypti heimskulegustu gengisvarnir íslandssögunar sumarið 2007. Veðjaði á að gengið mundi styrkjast. En að sjálfsögðu veiktist það og sjóðurinn varð af 50 milljarða króna hagnaði sem Glitnir og Bjarni Ármannsson stungu í vasann.

Glitnir er því svona frábær af því að hann stal bara ávöxtun af Almenna lífeyrissjóðnum en ekki höfuðstól eins og Landsbankinn gerði?

Ljónsmakkinn (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 14:53

17 identicon

 Ljósmakki:

Hvað kemur Glitnir inn í þetta mál? Eða þá Bjarni Ármanns?

Almenni var sjálfstætt starfandi sjóður með eigin rekstur og styrka stjórn?

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 15:02

18 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Ég er vel kunnugur gengistapi Almenna á gengisvörnum. Ég kannast hins vegar ekki við þessa 50 milljarða né hef ég grænan grun um hverjir græddu hinum megin við línuna. Hygg að Glitnir hafi fyrst og fremst haft af þessu þóknanir sem miðlari. Get þó ekkert fullyrt um það.

Þetta snertir hins vegar ekki það, sem ég dró fram í færslunni, en hefur alveg sjálfstæðan tilverurétt sem umræðuefni. Almenni lífeyrissjóðurinn tapaði fé á bankahruninu ekki síður en aðrir lífeyrissjóðir og dreg ég enga dul á það.

Sigurbjörn Sveinsson, 26.3.2009 kl. 15:13

19 identicon

H.Pétur:

Lífeyrissjóðum má fækka, en einn sjóður í vörslu ríkisins, hef ég enga trú á.

Engri ríkisstjórn er ekki treystandi að standa ein, vörð um sjóðina.

'Eg vil eitthvað hafa um það að segja, hvernig mínum málum er háttað og velja trúnaðarmenn í sjóðstjórn.

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 15:27

20 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Þetta gæti orðið leiðarsteinn á vegferð lífeyrissjóðanna.

Sigurbjörn Sveinsson, 26.3.2009 kl. 15:40

21 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Það virðast margir horfa bara á það neikvæða. Auðvitað eru ekki allar stofnanir spilltar og Almenni Lífeyrissjóðurinn á mikið lof skilið fyrir heiðarleg vinnubrögð sín.

Hilmar Gunnlaugsson, 26.3.2009 kl. 15:52

22 identicon

Það ættu fleiri að opna á "leiðarsteinn" hjá þér, hér fyrir ofan,  prenta út og lesa í rólegheitunum og láta hugarflugið ráða.

Nú er ég hættur!, (í bili)

'Olafur Sveinsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 15:54

23 identicon

Það væri gaman að sjá einhverjar sannanir fyrir þessum tölum "Ljónsmakki"?  Eða heyrðirðu þær á barnum um helgina?

Tómas Örn (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 17:12

24 identicon

Áður en við höldum lengra í málefnum ALMENNA, þá fara menn bara á síðu almenna.is og skoða ársskýrslur sjóðsins.  Meira að segja fyrir árið 2008. Þar er einnig að finna ýmsan fróðleik um sögu sjóðsins, upphaf og vonandi ekki endir.

Ljónsmakkinn getur einnig fundið þar upplýsingar um stjórnarmenn aftur í tíman.

Bjarni er ekki þar á meðal. Tilnefndur af GLITNI einu sinni. Kom ekki greina.

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 26.3.2009 kl. 17:39

25 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sigurbjörn.

Nálarauga fjármálaeftirlitsins  góður! 

Þó svo að lífeyrissjóðirnir séu margir hverjir að sýna fram á ótrúlega góða afkomu miðað við aðstæður á markaði skaltu taka tölulegum framsetningum þeirra með fyrirvara. Ég er að vinna að grein, sem ég stefni á að birta á mánudag, um þann hluta eigna sjóðanna sem eftir á að afskrifa. Almenni er þar engin undantekning. Til stóð að sjóðirnir gerðu sameiginlega varúðarniðurfærslu á verðlitlum skuldabréfaeignum í tæknilega gjaldþrota fyrirtækjum og gjaldþrota bönkum en Þorgeir Eyjólfsson kom í veg fyrir það. Málið er að lífeyrissjóðirnir hafa ekki skrifað þessar verðlitlu eða verðlausu eignir niður nema að litlum hluta. Einnig er ómögulegt að segja til um hvert raunverulegt verðgildi erlendra eigna sjóðanna eru sem hafa ekki verið færðar niður nema að litlum hluta.

Þar sem seljanleiki á mörkuðum er lítill sem engin er um gríðarlegar skerðingar að ræða sem ekki hafa komið fram í bókum sjóðanna. Er útlit fyrir að staðan batni næstu árin? Nei!! Geta sjóðirnir fegrað bókhaldið? Já eða svo lengi sem iðgjöld eru hærri en útgreiðslur geta sjóðirnir dreift tapinu/afskriftum á nokkur ár án þess að sjóðsfélagar taki mikið eftir því.

Spurning til almenna: Var almenni með afleiðusamninga ef svo er hvert var tapið? Hvaða fyrirtækjum var lánað og hver er skipting á skuldabréfaeign sjóðsins á milli fyrirtækja og fjármálastofnana? Sundurliðað uppgjör erlendra verðbréfasjóða og hverjar eru afskriftir?

Því má bæta við að Robert Wade hagfræðiprófessor og fleiri hagfræðingar sem skoðað hafa kerfið utan frá telja að sjóðirnir hafi tapað umþb 50% af öllum eignum sínum. Mín spá er ekki undir 40%.

Bankarnir og fyrirtækin léku sér að því að fegra bókhaldið með ofmati á eignum fyrir framan nefið á FME og endurskoðendum, sjóðirnir eru þar engin undantekning enda voru bankarnir helstu ráðgjafar sjóðanna.

Ég tel að stjórnir sjóðanna hafi yfirleitt unnið af heilindum en þær vinna að sjálfsögðu úr þeim gögnum sem (framkvæmdastjórar/sjóðsstjórar)bankarnir veita þeim, hver sem trúverðugleiki þeirra gagna kann að vera.

Þetta mál snýst meira um almenna skynsemi frekar en almenna lífeyrissjóðinn.   

Ragnar Þór Ingólfsson, 26.3.2009 kl. 22:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband