Dagsverk

Í kvöldsólinni stendur roðagullinn bekkurinn Beinbrjótur

og býr sig undir svefninn.

Þær hafa farið um hann mjúkum höndum í dag

og hann tekið ástum þeirra.

 

Það er eins og forlögin hafi aldrei kallað hann til verks

og krömin sé mitt einkamál. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Verðum við ekki að fara að huga að útgáfu nafni?

Sigurbjörn Þorkelsson (IP-tala skráð) 20.6.2009 kl. 23:30

2 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Enn skal efna nafni minn kær.

Sigurbjörn Sveinsson, 21.6.2009 kl. 00:27

3 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Ljóðin þín gleðja og koma af stað hollri heilaleikfimi.

Hólmfríður Pétursdóttir, 21.6.2009 kl. 16:03

4 identicon

Nú hefði verið fróðlegt að biðja nafna þinn Þorkelsson
um að útskýra þetta ljóð, línu fyrir línu, orð fyrir orð.

Húsari. (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 07:44

5 identicon

Ha. ha. Þetta er/var góð skrítla. Húsari verður að herða sig.

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 22:34

6 identicon

"Mitt er að yrkja, ykkar að skilja," sagði skáldið.

Orðið Beinbrjótur, skrifað með stórum staf á tæpast við nema
læk nokkurn á Grímstunguheiði er slíku nafni nefnist eða
sýkigras. Í fyrra tilfelli er bekkur í merkingunni lækur í fornu máli
en í hinni síðari blómabekkur sem þekkist úr talmáli en man ekki
eftir að hafa séð orðið í orðabókum.
Það hefði verið ánægjulegt að sjá sýkigras kynnt til sögunnar með
þessum hætti en speglun þess af sólu óþekkt og kindur skyrpa
þessum fjanda útúr sér og forðast sem mest þær mega.
Ef sýkigras hefði verið þarna með réttu þá hefðu tvær síðustu línur
fengið á sig sérlega dulúðugan blæ og geðþekkan.
Mér skilst að leiðin úr Botnsdal til Þingvalla hafi nefnst beinbrjótur og
orðið skrifað með litlum staf, Orðið Leggjarbrjótur þekkist frekar.
Blóm sýkigrassins eru hvít og mynda blöðin blævæng við jörðu.
Flestir myndu þeirrar skoðunar að skáldið yrki hér um bakverk og að
bekkur fái heitið Beinbrjótur vegna þess hversu rúmið/bekkurinn
er lélegur. Með þessu lagi er hægt að skrifa þær án þess að gefa frekari skýringar, því þær lægju hvort eð er í augum uppi. -
Lárus í Grímstungu hefði þó glaðst yfir lotningu höfundar fyrir
heiðinni og þeirri unaðssemd sem fylgir göngu um hálendið þó nokkuð
reyni á þrek og þol um síðir en allt gleymist það örskjótt fyrir sakir
tröllskapar landslagsins og endurspeglun kvöldsólarinnar í
lækjum og vötnum.

Húsari. (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 10:40

7 Smámynd: Friðrik Thor Sigurbjörnsson

Hér er leitað langt yfir skammt.

Friðrik Thor Sigurbjörnsson, 30.6.2009 kl. 11:26

8 identicon

Lát heyra!

Húsari. (IP-tala skráð) 30.6.2009 kl. 11:40

9 identicon

myndirðu kalla þetta beinkröm, faðir sæll?

Tómas Örn (IP-tala skráð) 30.6.2009 kl. 19:08

10 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Lárus í Grímstungu var landsfrægur hestamaður m.a. Hann var og líka fjallkóngur til margra ára á sínum heimaslóðum. Hann og Eyjólfur í Sólheimum í Laxárdal voru vinir. Eyjólfur reið oft án fyrirvara í Húnavatnssýslur og settist að vinum sínum. Hann kom oftar en ekki til baka ríðandi öðrum hrossum en þeim, er hann lagði upp með.

Eyjólfur fékk jafnan koníaksflösku með póstinum á þriðjudögum. Hún var gjarnan þorrin á miðvikudögum. Eyjólfur hafði misst konu sína á miðjum aldri og þegar sonur hans fann sér kvonfang fannst Eyjólfi tilhlýðilegt að finna sér konu á svipuðum aldri. Átti hann með henni eina dóttur. Kona þessi varð síðar húsvörður við Menntaskólann í Reykjavík og kynntust henni þar margir á mínum aldri.

Eyjólfur í Sólheimum varð vinur minn á níræðisafmæli sínu. Sú vinátta hélst í rúm tíu ár eða þar til hann lést á sjúkrahúsinu á Akranesi. Þá hafði ég annast hann endurgjaldslaust frá níræðu svo sem afmælisgjöfin til hans sagði til um. Hann var eini heiðursborgari Laxárdalshrepps, sem mér er kunnugt um. 

Eyjólfur var kappi og hafði marga til reiðar. Þegar aðrir voru önnum kafnir við af slátrun á Boreyri tam. reið hann í hlað og leit til með vinnufólki og var af honum góð kaupstaðarlykt. Það sagði mér Haukur Kristjánsson frá Hreðavatni, yfirlæknir slysadeildar til margra ára en hann var stúdent við kjötskoðun á Borðeyri á þeim tíma. 

Eitt sinn kom til mín maður á slysadeild og þótti mér hann minna allmikið á Eyjólf í Sólheimum. Hann var um nírætt og hafði fallið af hestbaki og brotið þrjú rif og vildi lítið úr því gera. Þetta var Þorlákur Ottesen, landsfrægur hestamaður eins og Lárus í Grímstungu og Eyjólfur í Sólheimum. 

Fall hans var meira en mitt, ekki hafði orðið til þess bekkurinn Beinbrjótur heldur skepna af holdi og blóði.

Sigurbjörn Sveinsson, 30.6.2009 kl. 21:28

11 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Rétt er að geta þess, að Eyjólfur var orðlagður glímumaður á sínum yngri árum. Hann sagði mér þá sögu, að hann hafi oft átt leið niður í Hjarðarholt að glíma við dreng á líku reki, sem var úr Reykjavík. Þetta var Ólafur Thors, sem fæddur var 1892 en Eyjólfur1889. Þannig hefur verið á þeim nokkur aldursmunur á þroskaárum. Þetta kemur vel saman við það sem fylgir Thorsurunum en vinfengi var á milli fjölskyldu séra Ólafs i Hjarðarholti og Thors Jensen og börn Thors voru gjarnan um sumartíma vestur í Dölum. 

Eyjólfur sagði mér að Ólafur hefði verið sá eini, sem hann lagði ekki í glímu um ævina.Hann sagði að Ólafur hefði veið fjörugur og alþýðlegur félagi og drenglyndur en þeir hefðu aldrei glímt fyrir innan túngarðinn í Hjarðarholti því þar var alþýðan óvelkomin.

Þetta þurfa synir mínir, sem hér hafa gert sig heimakomna,  að vita um langömmubróður sinn og annað hitt um langömmu sína, að hún kom Páli Ólafssyni frá Hjarðarholti, sem þá fór fyrir Verslunarfélagi Dalamanna í kynni við kaupmenn í Stykkishólmi er þau voru saman á ferð sjóleiðina til Reykjavíkur.  

Við það eitt að nefna Lárus í Gímstungu hefur Húsari nú orðið til þess að ljóðið er eitthvað skýrara og synir mínir hafa fengið að heyra sitthvað um hana langömmu sína og húsverðina í MR.

En enginn þeirra hefur fengið mynd sína á fatnað eins og Hannes.

Sigurbjörn Sveinsson, 30.6.2009 kl. 21:58

12 identicon

Ég kann höfundi bestu þökk fyrir bráðskemmtilegan texta
sem og að hafa íofið hann silfurþræði við það efni sem
upphaflega var tilefni þessa. -
Mig minnir að Aðalbólsheiði, Grímstunguheiði og jafvel
Arnarvatnsheiði liggi saman og er þá ekki úr vegi að
minnast þess ágæta manns sem ég annað hvort sá eða
heyrði af sem bjó á Aðalbóli í Austurdal, Benedikt Jónssyni,
en hann fylgdi ófáum ferðamönnum um óravíddir þar efra
og á eyrunum við Aðalból skiptu hross um eigendur
á góðri stundu. -
Þeir sem ekki geta ort eða komið saman óbrjáluðum texta gerast oft
gagnrýnendur að ég ekki segi ofsækjendur þeirra er það geta
og af skiljanlegum ástæðum.
Ég hef í engu breytt skoðun minni varðandi skáldskap þann er birst
hefur á þessum síðum enda fer þar saman glöggt auga fyrir
íslensku máli og einstök fágun og nákvæmni.
Sumir skrifa eina bók, semja eitt lag eða eitt kvæði sem fer svo nærri
því sem kalla mætti hinn eina hreina tón að það lifir sjálfstæðu lífi
kynslóð fram af kynslóð.
Pater Nostrum útheimtir að menn hafi lágmarksþekkingu um stílbrögð
til að bera.
Ég vona að kvæðið Andvaka fari víða og að sem flestir fái notið
þeirra töfra sem sannanlega er þar að finna, - ekki síðri en af öðrum toga
en að ofan greinir.
Sigurbjörn Þorkelsson ætti ekki einasta að huga að útgáfu á
íslensku heldur einnig á öðrum málum. Hvað hefur þó sinn tíma. -
Kæra þökk fyrir það allt.

Húsari. (IP-tala skráð) 1.7.2009 kl. 02:53

13 identicon

Austurdal > les: Austurárdal

Húsari. (IP-tala skráð) 1.7.2009 kl. 10:34

14 identicon

Benedikt Jónssyni >les að sjálfsögðu: Benedikts Jónssonar

Húsari. (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 00:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband