Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Tóku upp greiðslukort ríkisins

Fyrir stuttu varð mikill hávaði vegna þess að einn af forsvarsmönnum KSÍ hafði tekið upp greiðslukort samtakanna suður í Sviss og notað það til að greiða fyrir vín og fagrar meyjar handa sér og gestum sínum auk þess að missa kortið í hendur misráðvandra vandalausra.

Nú hefur það verið endanlega staðfest af Sólon Sigurðssyni fyrrum bankastjóra í viðtali við Fréttastofu Ríkisútvarpsins í gærkvöldi að svipaðri aðferð var beitt við einkavæðingu bæði Landsbankans og Búnaðarbankans. Ríkishirslurnar voru opnaðar og greitt fyrir okkar eignir með okkar eigin fé. Lánallínurnar lágu bara í kross þannig að dæmið liti betur út.

Enn á ný berast böndin að kjörnum fulltrúum þjóðarinnar, sem þá fóru með völd. Einkavæðing ríkisbankanna var eins misheppnuð og hugsast gat og höfuðorsök þeirra skemmdarverka, sem framin voru á hinu frjálsa og opna þjóðfélagi á síðustu árum.

Þann skaða mun ganga seint og illa að bæta.  


Ömurlegur málflutningur bloggara v. þessa frétt

Ég hef lesið í gegnum þennan á þriðja tug færslna við þessa frétt og ekki rekist á eina, sem haft hefur að geyma efnislegar athugasemdir við málflutning prófessorsins. Andófið byggist á "Júdasi" og "handrukkun" og fleiru í þeim dúr. Maðurinn er greinilega óalandi og óferjandi og ber að taka af launaskrá hjá hinu opinbera, þar sem hann fer gegn hagsmunum þjóðarinnar.

Fyrir fáeinum misserum leyfði lítill minni hluti fræðimanna og jafnvel stjórnmálamanna sér að gera athugasemdir við framgang efnahagslífsins og vekja máls á að illa kynni að fara. Þá var þeim mætt með sömu aðferð og hér er beitt þó vera kunni að orðalagið hafi ekki verið jafn ruddalegt og hér má sjá.

Nú nagar þjóðin sig í handabökin fyrir að hafa ekki lagt við hlustir.


mbl.is Gegn hagsmunum Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband