Einar Már Guðmundsson...

...skrifar skemmtilegan texta. Hann er skáld. Þessar vikurnar minnir hann á rödd hrópandans. Stíll hans er beittur og málið fallegt. Hann segir þjóðinni til syndanna. Í honum er söknuður. Hann saknar ljóðsins eins og fram kom í síðustu Morgunblaðsgrein.  Hann kann ekki við sig í þessu nýja hlutverki þrátt fyrir allt. Fyrir honum er galdur ljóðsins einstakur. Þar fær tungan túlkað það, sem ekki verður annars staðar sagt. Eða með öðrum hætti tjáð. Íslendingar eru lítt gefnir fyrir að hampa hver öðrum. Nema skáldum sínum. Svo hefur verið á öllum tímum. Einar nýtur þess núna. Í honum er þó e-r söknuður og jafnvel sársauki. Sársaukinn stafar af þeim fjötrum, sem verið er að færa þjóð hans í. Kannski á hann eftir að yrkja um það eða öllu heldur yrkja sig frá því. Yrkja eins konar þjóðartorrek. Þá eignast þjóðin kannski gimstein í aura stað. "Fagur gripur er æ til yndis" sagði Oscar Wilde og hafði eftir öðrum. Var þar þó vel mælt.

John Stuart Mill unni frelsinu eins og allir vita.  Ekki síður en Einar Már. Margir hafa lesið Frelsið og sumir oftar en einu sinni. Þar talar Mill fyrir þeirri skoðun, að sérhver maður eigi að hafa frelsi til orðs og athafna eftir sínum smekk. Þannig sé manninum best borgið. Síðan leiðir hann rök að því, að þannig verði samfélögum manna einnig best borgið. Það má hafa ákveðnar nytjar af frelsi einstaklingsins, sem gagnast fjöldanum. Jafnvel það, sem orðið gæti manni að meini að annarra áliti er honum frjálst að mati Mill. En hann slær ákveðinn og mjög skýran varnagla. Frelsi mannsins takmarkast við þær gjörðir, sem ekki verða öðrum að meini. Eða með öðrum orðum: Það sem spillir lífi annarra er manninum ekki heimilt.

Það, sem nú hefur gerst á Íslandi er einmitt þetta. Frjálshyggjan hefur leitt fram umhverfi athafnafrelsis og verðmætasköpunar, sem féll þorra þjóðarinnar í hlut. Þegar fram í sótti grófu um sig í þessum jarðvegi pappírsverðmæti og/eða skuldaaukning með fjárfestingum, sem engu skila og ekki vitað hvort og hvenær það verður. Hluti þessa fjár hefur lent utan Íslands og enginn hefur fulla yfirsýn yfir, hvar það er niður komið. Með þessu móti hefur lífi þjóðarinnar verið spillt í skjóli frelsisins. Það fer gegn kenningum Mills. Allir eru sammála um að betra hefði verið að taka í taumana fyrr, setja bönkunum skorður og hafa hemil á skuldasöfnuninni. En það var ekki gert af því að menn voru uppteknir af hugmyndafræðinni um mikilvægi frelsisins og við því mætti ekki róta nánast hvað sem í húfi væri. Önnur skýring á þeim hrunadansi, sem hér hefur dunað síðan fyrir mitt ár 2004, er ekki í boði. Hugarfarið var mengað af pólitískum átrúnaði.

Þannig eru frelsinu takmörk sett. Frelsið er þjónn en ekki guð. Barnið, sem engin takmörk eru sett, leiðir frelsið til glötunar. Það vita allir foreldrar. Því er ekki ólíkt farið með okkur. Og útrásarvíkingana. Þeir hegðuðu sér eins og börn við aðgæslu- og afskiptaleysi foreldranna. Þær uppeldisaðferðir dugðu greinilega ekki og því er þjóðin komin í eitt allsherjar meðferðarbatterí.

Er nema von að Einar Már sé súr.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nei, það er ekki nema von. Þetta hefur verið góður matartími.

Ásta Sóllilja (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 12:54

2 identicon

Nú segir íslendinga lítt gefna fyrir að hampa hvert öðru. Sennilega rétt, þó vil ég þakka fyrir þennan frábæra pistil. Hef jafnvel spur mig hvort Einar sé okkar Vásalv Havel?

Hallgerður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 08:13

3 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Málið er að börnunum voru engin takmörk sett. Því fór sem fór.

Haraldur Bjarnason, 17.12.2008 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband