Lífeyrissjóðirnir ekki hraðbankar

Fyrirhugað er að rýmka reglur um endurheimt séreignasparnaðar hjá lífeyrissjóðunum. Þegar hefur viðmiðunaraldur verið lækkaður í 60 ár og eins á að heimila þeim, sem illa standa, töku séreignasparnaðar óháð aldri. Um þetta ræða stjórnmálamenn eins og ekki þurfi annað en að breyta leikreglunum til þess að þetta leysi vanda fjölda fólks bæði illa stæðra eigenda lífeyrissparnaðarins og stjórnmálamanna í úlfakreppu.

Um hvaða fjárhæðir er hér að tefla? Á það hefur verið slegið lauslega  út frá ýmsum forsendum. Séreignasparnaðurinn er nokkur hundruð milljarðar sem stendur, en gera má ráð fyrir að hann verður ekki allur nýttur í þessu skyni. Þó verður að gera ráð fyrir, að þeir, sem náð hafa 60 ára aldri, hugi að öðrum ávöxtunarleiðum þegar opnast fyrir úttekt hjá þeim og að fólk í fjárhagsvanda nýti sér þá rýmkun sem því býðst. Um er að ræða milljarða tugi  fyrir hvern og einn af stærstu lífeyrissjóðunum, sem reiða þarf af hendi. Eða hundruð milljarða alls þegar upp er staðið.

Það má sjá í hendi sér, að sjóðir með eignir bundnar í verðbréfum ráða ekki við útstreymi lausafjár af þeirri stærðagráðu sem fyrirhuguð er. Þeir munu neyðast til að setja þau bréf, sem seljanleg eru, á brunaútsölu. Þeir, sem eftir sitja í sjóðunum, munu verða handhafar lélegri verðbréfaeignar. Eða mun ríkissjóður mæta þessari þörf fyrir aukið lausafé með því að láta prenta peninga? 

Ég er hræddur um að þessi hlið mála hafi ekki verið hugsuð til enda.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sæll Sigurbjörn

Tek mið á þínu sjónarmiði hvað þetta varðar enda vel rökstutt. 

Ég hef persónulega ekki tekið ákvörðun um hvort ég leysi út mína séreign eða ekki. Ef af verður mun ég leysa hana út og setja á ríkistryggðan innlánsreikning.

Þú mátt ekki miskilja það sem ég er að benda á. þ.e. að sjóðstjórar séreignasjóða hafa allt annað en fjárfest með langtímasjónarmið í huga eins og margoft hefur komið fram.

Ef fjárfestingar séreignasjóða hefðu verið með öruggari hætti en raun var, hefði ég ekki getað mælt með því við nokkurn mann að taka hann út. Enda sjóðirnir undanþegnir aðfararlögum og glórulaust að láta hann brenna með öðru fé á verðbólgubáli húsnæðislána. Hinsvegar verðum við að taka mið af því að traust fjármálakerfisins er í molum og ekkert sem bendir til þess að nægjanlegar breytingar hafi átt sér stað til að vinna það traust aftur. Því er skiljanlegt að fólk vilji taka út séreignina til að bjarga því litla sem eftir er af þeim sparnaði. 

Ég hef einnig bent á að lífeyrissjóðirnir hafa hvað eftir annað stært sig á því hversu góðar eignir þeir eiga og tap sjóðanna sé lítið brot af því sem almennt gengur og gerist í fjármálageiranum. meðan þeir telja fólki svo trú um í hinu orðinu að þessar eignir séu verðlausar.

Eru þá lífeyrissjóðirnir ekki að fresta því óumflýjanlega þegar þeir þráast við að niðurfæra verðlitlar eignir sínar og eru hugsanlega búnir að stórtapa með því að brenna inni með eignir frekar en að selja þær á raunvirði sem fer ört lækkandi. Við sáum öll hvernig fór fyrir sjóðunum sem reyndu hvað þeir gátu að halda uppi gengi bréfa í bönkunum og keyptu í stað þess að selja.

Við skulum ekki gleyma að með þessum samþykktum geta sjóðirnir notað iðgjöldin sem streyma inn sem aldrei fyrr, til að greiða út  séreignasparnað í áföngum og sitja svo uppi með verðlausu eignirnar fyrir þá sem eru að leggja inn í sjóðin,  því sem lífeyrisgreiðandi er ég þá væntanlega að kaupa bréf á miklu yfirverði. Er það eitthvað skárri lausn?  Það er þá alveg eins gott að fá fram raunverulegt verðgildi þeirra eigna sem þeir meta svo hátt í bókum sínum.

Kær kveðja.

Ragnar 

Ragnar Þór Ingólfsson, 17.2.2009 kl. 12:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband