Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Mikilvæg vistaskipti

Helgi Hálfdanarson færði þjóðinni mikil alþjóðleg, andleg verðmæti með þýðingum sínum. Ekki er gert lítið úr Matthíasi Jochumssyni og Steingrími Thorsteinsyni þótt verk Helga séu sögð stórvirki meðal þýðinga ljóðaleikja Shakespears. Helgi gerði annað og meira en að færa leikrit Shakespears í íslenskan búning; hann gerði úr þeim ný listaverk að ytri og innri gerð. Þetta gerði hann á svo yfirlætislausan hátt og með svo mikilli naumhyggju, þegar líf hans sjálfs er skoðað, að næsta torvelt er fyrir venjulegan alþýðumann eins og mig að átta mig á þeim uppvexti og lífsreynslu, sem réðu þessari vegferð.

Því hefur verið lýst opinberlega, að þetta hafi verið nánast eins tilviljun og hafist á pöntuðum þýðingum. Þá er eins og Helgi hafi verið settur í gang og síðan haldið áfram eins og svinghjól, sem útilokað er að stöðva.

Því er stundum á loft haldið að svelta eigi listamenn til stórvirkjanna, í þeim ham einum veiti andagiftin þeim nægan innblástur til að markverð list verði til. Þetta er auðvitað mesta firra.  Það er eins og menn jafni listsköpun við kappreiðar eða jafnvel hanaat, þar sem dýrin eru kvalin með hungrinu til átaka.  Altaristaflan í Skálholtsdómkirkju, loftmyndirnar í Sixtínsku kapellunni og hin skosku sönglög Beethovens eru allt pöntuð listaverk. Krafa lágmenningarinnar á Íslandi um okkar daga er að illa sé búið að listamönnum og menn vilja jafnvel kosta til níðstöngum í hafnarkjöftum til að ná því markmiði sínu. En það er önnur saga. 

Einhver pantaði þýðingu hjá Helga og það varð ekki aftur snúið. Hann fór í förina, sem hvorki hann né aðrir höfðu séð fyrir. Og hann skrifaði bækurnar, sem enginn hafði lagt á ráðin um. Því er lítið hampað, að til þess að svo mætti verða, þá lagði Helgi lífsstarf sitt til hliðar tiltölulega ungur og fann sér annað, sem hæfði betur þessari ástríðu. Má vera, að þessu hafi verið öfugt farið, ástríðan hafi dafnað fyrir vistaskiptin, en það gildir einu. Vistaskiptin voru mikilvæg og örlagarík fyrir íslenska menningu. 

Enn eru menn á ferð, sem hefðu gagn af að horfa í sína skuggsjá eins og Helgi og hafa vistaskipti eftir hæfileikum sínum. Enn eru ferðir í boði, sem ekki hafa verið farnar og bækur að skrifa, sem ekki hafa verið skrifaðar.


mbl.is Bjarni og Þorgerður Katrín oftast nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjúkraliða úr prísund hjúkrunarfræðinga

Nú á dögum vill ungt fólk ekki leggja fyrir sig fag, sem er öðrum stéttum háð um atvinnuréttindi og ekki hægt að nýta á eigin ábyrgð nema að breitt sé yfir starfsheitið. Þessu þurfa sjúkraliðar að una. Er því engin furða, að fólk forðist að leggja fyrir sig þetta nám, þó margir séu vafalítið tilbúnir til að starfa við heilbrigðisþjónustu með einhverri þekkingu án þess að leggja fyrir sig langt háskólanám.

Sjúkraliðanám varð til á Íslandi um 1970 eins og svo mörg störf heilbrigðisstarfsmanna að tilhlutan lækna.  Ragnheiður Guðmundsdóttir, augnlæknir, heiðursfélagi Læknafélags Íslands átti hér hlut að máli en hún var þá starfandi læknir í Landakoti.  "Hún var augnlæknir á Landakotsspítala en skipulagði jafnframt kennslu sjúkraliða á þeim spítala og annaðist kennslu þeirra. Ragnheiður mun hafa átt frumkvæði að kennslu sjúkraliða hér á landi eftir að hafa kynnst starfi þeirra erlendis." Lbl. 11/2004. Margt annað fagfólk en hjúkrunarfræðingar og læknar kemur nú að menntun sjúkraliða eins og eðlilegt er eftir þróun samfélags okkar.

Sjúkraliðar eru löggiltir heilbrigðisstarfsmenn en mega ekki starfa með sínu starfsheiti við þau störf, sem þeir eru þjálfaðir til nema á ábyrgð hjúkrunarfræðinga. Þetta er lögbundið. Sjúkraliðar háðu harða baráttu fyrir að fá þessu breytt fyrir rúmum áratug eða svo og tengdu þá baráttu við átök við ríkisvaldið um önnur kjör. Við lausn þeirrar deilu lofaði þáverandi forsætisráðherra og núverandi seðlabankastjóri að leggja fram frumvarp í þinginu sem lagaði stöðu sjúkraliða að þessu leyti. Við þetta loforð var staðið en frumvarpið kom aldrei til afgreiðslu þar sem því hafði ekki verið lofað, að það kæmi til umræðu. Síðan hefur ekkert gerst.

Tímarnir eru breyttir og sjúkraliðar eiga annað og betra skilið en að búa við þessa "átthagafjötra". Þeir eiga að geta tekið að sér viðeigandi störf með sínu starfsheiti án íhlutunar hjúkrunarfræðinga.


Á ruslahaugi líðandi stundar

Matthías er enn að. Það var hressandi að fara á ný til fundar við hann í Lesbók s.l. laugardag. Matthías hefur fljótandi stíl, sem þó er alltaf í ákveðnum farvegi. Eins og hann lýsir stíl Guðmundar Andra, að hann renni eins og vatn um landslagið. Þeir höfundar, sem fara alveg áreynslulaust um hjáleiðir hugsunarinnar eins og ekkert sé sjálfsagðara, henta mér betur en þeir, sem búa að krepptum hringvöðva rökrænnar afleiðslu. Ég er líka svolítið reikull í hugsun eins og þeir. Kannski skiptir það máli, að í prósanum sé ljóðskáldið ekki fjærri eins og Matthías bendir sjálfur á. Lestur Málsvarnar og minninga Matthíasar fyrir nokkrum árum var ógleymanleg reynsla. Það var sannkallað ferðalag fá einni hugsun til annarrar. Ljóð í prósa. Söknuður vaknaði við bókarlok. Það eru meðmæli með bók sagði einhver nýlega.

Ég minntist á fyrr í vetur, að stjórnmálamenn þyrftu að glíma við tillit þjóðarinnar, spegla sig í augum hennar og reyna þannig getu sína til að þjóna henni. Sú glíma væri ævilöng. Nú hefur Árni Bergmann sagt mér og hefur það eftir ekki ómerkari manni en Kazantsakis, að manninum sé sæmst að glíma við Guð. Við hvern annan ætti hann að glíma, spyr hann. Þeir hafa báðir glímt við Guð, Árni og Matthías. Það er að sínu leyti merkilegt. Ég ætla að finna þeirra niðurstöðu. Ég hef komist að minni. Það eru víðar leyndarmál en í Seðlabankanum.

Þessar hugsanir eru áfengar og krefjast hófs.

Árni og Matthías voru fjórða valdið í mínum uppvexti. En þá talaði enginn um þetta fjórða vald. Flokkspólitískir ”sneplar” voru það frekar. Ég velti því stundum fyrir mér, hvort ekki hafi verið auðveldara að skrifa fyrir flokkslínuna, sem allir þekktu, en hina huldu hönd auðsins eins og nú gerist. Þrátt fyrir allt.   

Matthíasi hefur orðið um kreppu frjálshyggjunnar eins og fleirum. Hann var búinn að sjá hana fyrir þó með svolítið öðrum hætti en við, þegar við upplifðum hana á okkar skinni. Matthíasi þykir sem menn hafi framið skemmdarverk á frelsinu og fullveldinu undir lamandi dáleiðslu auðsins.

Það er hægt að taka undir það.

Annar maður sló á svipaða strengi 6. nóvember 2007. Það var Davíð Oddsson:  "Hin hliðin á útrásinni er þó sú og fram hjá henni verður ekki horft, að Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis. .....við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma.” “ Hitt er einnig til að ný orð fái nánast á sig goðsagnakennda helgimynd, eins og orðið útrás sem enginn þorir að vera á móti svo hann verði ekki sakaður um að vera úr takti, hafi ekki framtíðarsýn eins og það heitir nú, og þekki ekki sinn vitjunartíma.” 

Þessi orð báru ekki tilætlaðan árangur. Augu okkar voru haldin.  Þá sögu er tímabært að skrifa. Fyrr en síðar.

"Veiða og sleppa"

Ég tel það heilbrigða athöfn að veiða sér til matar. Ekki svo að skilja, að margir séu í brýnni þörf fyrir það nú á dögum. En þetta er í eðlinu og sjálfsagt að svara þessari hvöt með þeirri útivist og tengslum við náttúruna sem fylgir. Svo fylgja því líka búdrýgindi.

Ég á hins vegar mjög erfitt með að skilja þá, sem veiða dýr til þess eins að sleppa þeim aftur. Fá fiskinn til að bíta á agnið og berjast síðan fyrir lífinu að uppgjöf. Ég kem þessu ekki heim og saman við neina heilbrigða hvöt eða sjálfsbjargarviðleitni mannsins. Þá eru fá dæmi úr náttúrunni um dýr sem veiða að nauðsynjalausu. Drápseðli minksins á sér vafalítið einhverjar rökréttar skýringar þrátt fyrir allt. Þetta að "veiða og sleppa" hlýtur að vera einhver síðari tíma tilbúningur. 

Ég get engin önnur rök séð fyrir þessu háttalagi en að létta á veiðiám, sem ætlað er að standa undir meira veiðiálagi en þeim er unnt frá náttúrunnar hendi. Eða með öðrum orðum að hemja rányrkjuna, sem þar hefur verið stunduð. Eða með enn öðrum orðum að halda uppi leigutekjum, sem ekki styðjast við eðlilega sókn í ána. 

Hvar eru dýraverndarsamtök? Eða er það kannski fólkið, sem segir hvalveiðar viðbjóðslegan verknað, sem stundar þessa þokkalegu iðju?

Við vini mína sem veiða og sleppa vil ég segja: Ekki persónugera þetta.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband