Ekki af brauði - en bruðl?

 Úr Mbl.grein 2006:

Við bræðurnir erum að gera upp bú foreldra okkar. Víóluleikarinn löngu látinn og móðirin flutt í húsnæði fyrir aldraða. Verkið er hvorki flókið né fyrirhafnarsamt; óbrotið alþýðufólk á Íslandi, sem haft hefur viðurværi sitt af listum, safnar ekki auði, sem mölur og ryð fá grandað. En eitt og annað leynist þó innan um persónulega hversdagshluti. Stafli af nótum fyrir strengjakvartetta, einleiksverk fyrir lágfiðlu, jassverk fyrir saxófón og stórsveit. Þarna eru til að mynda eftirritanir með eigin hendi pabba. Og jafnvel er hér hluti af sögu stéttarbaráttu hljómlistarmanna á Íslandi. Tónlistarblaðið frá 1956 liggur þarna innan um nóturnar.  

 Í þessu blaði er grein, sem ber heitið „Aðbúnaður sinfóníuhljómsveitarinnar, ábending til ábyrgra aðila“. Og þar er fátt, sem kemur á óvart hálfri öld síðar. „Góðtemplarahúsið í Reykjavík er notað sem æfingasalur fyrir hljómsveitina, þrátt fyrir það að þau salarkynni hafa ekkert af því, sem nauðsynlegt er fyrir hljómsveitina; fyrst og fremst enga „acostic“ (eða hljóm); engin upptökuskilyrði; enga hljóðfærageymslu, sem hægt er að nefna því nafni og enga nótnageymslu, svo nokkur dæmi séu tekin.      

Hljómurinn í aðalsal Þjóðleikhússins er algjörlega óhæfur til sinfóníutónleika, eins og þeir hafa eflaust tekið eftir, sem hafa hlýtt á tónleika í hljómleikasölum erlendis, enda er Þjóðleikhúsið ekki byggt með það fyrir augum, að halda þar sinfóníutónleika.“    

Í niðurlagi greinar sinnar undir fyrirsögninni „Það sem koma verður“ segir höfundurinn frá portúgölskum ferðamanni, sem fær á Íslandi að hlýða á La Bohéme eftir Puccini flutta af eintómum Íslendingum. Ferðamaðurinn getur ekki orða  bundist þegar hann kemur heim til Portúgal og segir frá þessari litlu, stoltu menningarþjóð norður við heimskautsbaug, sem er svo rík af menningarauðæfum, að hún á sína eigin óperu og sinfóníuhljómsveit. Og Íslendingar komast við af hinum erlenda palladómi eins og svo oft áður. En þá segir: „En hver er svo sannleikurinn í því, - sannleikurinn, sem hinn portúgalska ferðalang hefur ekki rennt hinn minnsta grun í? Engin þjóð í heiminum, sem vill telja sig til menningarþjóða, býr jafn illa að sinfóníuhljómsveit sinni og íslensk menntayfirrvöld sjá sóma sinn í að gera, - aðbúnaður og fjárframlög eru svo léleg, að skömm er að. Það verður að reisa hér tónlistarhöll, þar sem hljómsveitin getur haft sínar æfingar, útvarpshljómleika og almenna tónleika alveg eins og ríkið hefur byggt Þjóðleikhúsið fyrir leiklistina, Listasafn Íslands fyrir málaralist og höggmyndalistina og bókasöfn, þar sem íslenskum almenningi gefst kostur á að kynnast íslenskri ritlist.“

Velviljaður stjórnmálamaður, vinur litla mannsins, lagði til hér fyrr á árum, að sinfóníuhljómsveitin yrði lögð niður og listafólkið sent út um víðan völl að kenna tónlist. Þótt segja mætti að slík ráðstöfun kynni að leiða til fjörgvunar tónlistarskólanna í bráð, þótti ýmsum, að þetta væri jafn gáfulegt og að efla grunnskólana með því að leggja niður háskólann. Sem betur fer hefur skilningur að þessu leyti aukist. Þó virðist áhuginn enn vera í tæpu meðallagi á því að tónlistarhús rísi og við í svipuðu fari og fyrir hálfri öld eins og lýst er í ágætri grein Gunnars Egilssonar, klarínettuleikara, sem til er vitnað hér að ofan. Tónlistariðkunin er gerð að áhugamáli þröngs hóps og litið er fram hjá öllum þeim skara sem á tónlistina leggur stund um okkar daga.

Og einnig er litið fram hjá þessum óbrotnu alþýðumönnum, sem ruddu brautina og voru jafnvel Vestfirðingar eins og Einar Oddur, aldir upp í bókabúðinni á Ísafirði eða á skútuþilfari fyrir Vestfjörðum. Margir þessara alþýðumanna öfluðu sér menntunar víða um heim til að miðla landsmönnum list sinni við kröpp kjör og af nánast óskiljanlegum brennandi áhuga. Þeir lögðu grunninn að því, sem við búum við í dag.

 

Þær eru furðu lífseigar minningarnar um Olav Kielland sveiflandi tónsprotanum í Góðtemplarahúsinu, dragandi fram það besta í misjafnlega vel undirbúnum hljóðfæraleikurum og erilsöm afgreiðsla skömmtunarseðla fyrir ýmissri hversdagsvöru á loftinu, ótímabær karlakórssöngur undir súð í litlu íbúðinni í Sigtúni, kvartettæfingar á Fjólugötunni, lúðrablástur í Hljómskálanum og sveifla stórsveitar í Breiðfirðingabúð. Ný lágfiðla, sérsmíðuð fyrir pabba í Englandi, gjöf Ragnars í Smára. Höfðingslund, sem aldrei er frekar höfð á orði og vafalítið Ragnari gleymd áður en leyst er úr næsta vanda listarinnar..............  

 

.............er vafalítð glöggur hagfræðingur og ber gott skyn á það sem vel má fara við hagstjórnina. Hann vill fresta tónlistarhúsi. En honum er ekki ætlað að forgangsraða samfélagslegum verkefnum okkar. Það er stjórnmálamönnum ætlað, sem eðli málsins samkvæmt þurfa að geta litið bæði til brauðsins og draumanna. Og maðurinn lifir ekki af brauði einu saman. Hann lifir alls ekki af brauði. Hann lifir af ævintýrunum.  

Það var merkilegur dagur í sögu hugmyndanna, þegar Sigurður Nordal komst að þessari niðurstöðu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðir straumar. Sáttur.

Verðum að gera þjóðarsátt um 10 ára byggingartíma tónlistarhússins????

Glerið verður dýrt.

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 12:44

2 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Þetta er misskilningur. Það er vitað hvað glerið kostar. Samningar hafa verið gerðir við framleiðandann; hann hefur leyst hina verkfræðilegu þraut. Þekkingin er dýrmæt en um leið brothætt. Það má ekki sóa henni í móðu tímans. Að klára tónlistarhúsið er að bjarga verðmætum en ekki spilla þeim.  Og svo verðum að hafa e-ð fyrir stafni í kreppunni. Ekki sitjum við með hendur í skauti og grátstafinn í kverkunum.

Nei alls ekki.

Sigurbjörn Sveinsson, 28.1.2009 kl. 13:12

3 identicon

Það má alla vega ekki láta þetta enda eins og Bókhlöðufíaskóið, þó svo það sé kreppa nú eins og þá. 

Tómas Örn (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 13:14

4 identicon

Það er ekki vitað hvað glerið kostar. Það er le.t.v búið að finna út hvernig hvernig tæknilega útfærslan verður. Kostnaður við þá athugun var svimandi. Eftir því sem ég veit best, var fallið frá að nota riðfrítt stál, vegna kostnaðar, heldur farið í að nota zinkað stál í rammana. Það líst mér ekki á. Ekki er enn víst hvort Kínverjarnir geti staðið við sitt.  Glerið mun kosta milljarða. Hef heyrt tölur en vill ekki hafa þær eftir.

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 28.1.2009 kl. 13:34

5 Smámynd: 365

Verður tónlistarhúsið minnisvarði um kapp en ekki forsjá

365, 28.1.2009 kl. 13:54

6 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Mér er nett sama hvað það verður kallað, ef það verður klárað. Það er auðvitað ekki hægt að hafa þetta svona til frambúðar. Hatrið á fráfarandi ríkisstjórn og útrásarvíkingum má ekki bera okkur ofurliði, þannig að við sættum okkur við tónlistarhúsið eins og níðstöng í hafnarkjaftinum um aldur og ævi.

Sigurbjörn Sveinsson, 28.1.2009 kl. 14:20

7 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Til uppl. vegna færslu 4: Samningar hafa verið gerðir um glerhjúpinn eins og fram hefur komið. Engu hefur verið breytt í hönnun og efnisvali og framleiðslan er komin á fulla ferð.

Sigurbjörn Sveinsson, 28.1.2009 kl. 20:10

8 identicon

Færsla 7:                                                                                        Frumhugmyndin var í riðfríuefni.

Samkvæmt  teikningum virðist glerveggurinn hafa skroppið saman um helming.

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 20:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband