29.11.2020 | 12:50
Ekki svipta börnin bernskunni
segir barnamálaráðherrann Ásmundur Einar Daðason í athyglisverðu viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsis. Byggir hann þessi ummæli m.a. á persónulegri reynslu sinni af að alast upp hjá veikri móður með geðhvarfasýki. Nú hefur hann að markmiði að samhæfa krafta samfélagsins í þágu barna sem standa höllum fæti af þessum sökum og öðrum sambærilegum. Hann boðar kerfislæga nálgun til að bæta stöðu barna.
Ásmundur Einar lýsir vel skjólinu, sem hann átti í sveitinni hjá afa sínum og ömmu og mikilvægi þess fyrir barnið að finna athvarf þar sem regla var á hlutunum og allt var fyrirsjáanlegt og í föstum skorðum.
Annað athyglisvert viðtal við Sigurlaugu Jónsdóttur birtist í Fréttablaðinu um helgina. Hún lýsir uppvexti með móður með geðhvarfasýki á svipaðan hátt og Ásmundur Einar. Hún segir:
"Ég hefði viljað eiga talsmann í þessu öllu og að fræðsla til kennara og félagsráðgjafa væri virkari gagnvart börnum í erfiðum aðstæðum. Þegar ég horfi til baka er ég ekki á því að það hefði átt að hlífa mér við sveiflunum. Ég hefði bara viljað að einhver hefði haldið í hönd mér í gegnum þetta. Að ég hefði getað leitað til einhvers sem gæti lánað mér dómgreind á erfiðum stundum. Einhver afruglari"
Þessi umræða er frábær og alveg sjálfsögð. Hún mun vonandi koma miklu til leiðar. En gleymum því ekki, að kærleikurinn og persónulegt, tilfinningalegt atlæti gagnvart börnum er það sem mestu skiptir - eins og barnamálaráðherrann fékk að reyna svo vel hjá ömmu sinni og afa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)