Niðurskurðurinn er greinilega ekki að virka

Fyrir um 40 árum fannst riða í fé á Hornstöðum í Laxárdal, Dal. Á bænum var að mig minnir innan við 200 fjár á vetrarfóðrum, sem hafði sumarhaga í lokuðu hólfi. Land Hornstaða var  afgirt og voru menn þess fullvissir að enginn samgangur var við aðra hjörð. Smitið sem fannst var bundið við á, sem ættuð var úr Hrútafirði og lömb undan henni.  Féð var allt skorið.

Mörgum árum síðar hitti ég Margréti Guðnadóttur, prófessor í veirufræði, á göngum Alþingis, þar sem við vorum bæði að nudda í fjárveitingavaldinu. Ég tók upp þennan þráð við hana og lýsti aðstæðum fyrir vestan og þeirri skoðun minni að þarna hefði tapast gullið tækifæri til að láta féð lifa og fylgjast með gangi sjúkdómsins í hjörðinni við náttúrulegar aðstæður. Margrét tók afdráttarlaust undir þessa skoðun mína og var sammála því, að hér hafi verið skorinn vænlegur efniviður til rannsókna. Hún bætti því reyndar við, að stefnan væri hér á landi að eyða öllu þessu rannsóknarefni.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar fréttir bárust af riðusmiti í Skagafirði og niðurskurði þar. Niðurskurður hefur farið fram en ekki í Syðri Hofdölum í Blönduhlíð eftir því sem fréttir herma. Þar var smitið bundið við einn aðkomuhrút og hefur ekki fundist í öðru fé samhólfa. Bóndinn þybbast við og hefur nú Landbúnaðarnefnd Skagafjarðar og nágranna sína með sér.

Er ekki kominn tími til að beita öðrum og hægvirkari rannsóknaraðferðum en tafarlausum niðurskurði á þessa hægvirku sýkingu til að komast til botns í hegðun hennar.

Niðurskurðirinn er greinilega ekki að virka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað kemur prófessor í veirufræði sjúkdómi sem orsakast ekki af veiru við? Hefðir þú ekki eins geta spurt prest eða spurt prófessorinn um umferðarslys og íþróttameiðsli? Það er vinsælt að sletta nöfnum og titlum þegar þekking er ekki fyrir hendi. Og sennilega er margt vitað um riðu og verið rannsakað sem þú ekki veist en heldur að þurfi að rannsaka. Enda fyrst greind 1732, þekkt um allan heim og líklega undir smásjá nokkur hundruð vísindamanna í dag.

Niðurskurður er smitvörn en ekki rannsóknaraðferð. Og það er vel þekkt hvernig sýkingin hagar sér, bæði þar sem niðurskurði er beitt og þar sem ekki er beitt niðurskurði. Margoft gegnum aldirnar hefur fé fengið að lifa og fylgjast verið með gangi sjúkdómsins í hjörðum við náttúrulegar aðstæður. Að endurtaka það þjónar engum tilgangi og getur ekki flokkast sem annað en dýraníð.

Vagn (IP-tala skráð) 17.11.2020 kl. 22:39

2 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Þegar í fyrstu málsgrein athugasemdar Vagns hér að ofan verður ljóst, að honum er ekkert ofar í huga en að kefja þessa umræðu. Okkur Margréti Guðnadóttur kom s.s. riðuveikin ekkert við og erum boðflennur á þessum vattvangi, Margrét að ósekju, þar sem ég kallaði hana látna mér til vitnis. 

Ég skal fúslega játa rýra þekkingu um riðuveikina. Mér er þó nokkur vorkunn, þar sem þekking á þessum sjúkdómi virðist almennt vera mjög ófullnægjandi og í engum takti við þá vinnu sem lögð hefur verið við hann eins og Vagn lýsir svo vel. 

Ég tel það eðlilega ósk að reynt verði að brjóta til mergjar þessa þraut þannig að bændur standi ekki ráðþrota hvað eftir annað í tómum stíum eftir ítrekaðan niðurskurð og endurteknar sýkingar. 

Sigurbjörn Sveinsson, 17.11.2020 kl. 23:27

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

28.10.2020:

"Jón Kolbeinn Jónsson, héraðsdýralæknir á Norðurlandi vestra, segist telja að mögulega megi rekja riðusmit í fé í Skagafirði til gamalla urðunarstaða sem hafi tekið við sýktum gripum.

Riðusmitefni geti nefnilega lifað í áratugi."

Hugsanlega megi rekja riðusmit til gamalla urðunarstaða

Þorsteinn Briem, 18.11.2020 kl. 00:04

4 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Sá merki læknir Guðmundur Georgsson á Keldum, sem eyddi þar starfsævinni í rannsóknir og kennslu, sagði við ráðunautafund 1999:

"Hérlendis hefur í rúma tvo áratugi verið gert skipulagt átak við að uppræta riðu og hefur mikið áunnist, en sjúkdómurinn hefur verið að skjóta upp kollinum í einstaka hjörðum að nýju, en vonir standa til að takast megi að uppræta hann algerlega með því að beita nýfenginni þekkingu á arfgerðum príongensins og áhrif þeirra á næmi fyrir riðusmiti við val á fé til ásetnings, einkum á svæðum þar sem riða hefur hvað lengst af verið landlæg.

Þá hugsun, sem hann veltir fram í niðurlagi þessa paragrafs, virðist útilokað að þróa til fulls við hlið þeirra riðuvarna, sem nú er beitt.  

Sigurbjörn Sveinsson, 18.11.2020 kl. 11:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband