10.3.2010 | 12:49
Stjórnarandstaðan situr um líf ríkisstjórnarinnar
Þjóðin á mest undir því núna að forusta VG lifi af stjórnarsamstarfið við Samfylkinguna. Það gerir hún ekki með liðsinni BB og Sigmundar Davíðs.
Þvert á móti.
Spurningin er því aðeins þessi: Hvenær og við hvaða aðstæður mun minnihluti VG-þingmanna rétta Þorgeiri höndina, þar sem hann hangir í hvönninni.Þegar upp er staðið þá eru þetta í raun þau einu örlög, sem fyrir hvorum tveggja liggja. Það er ekkert val.
Stjórnarandstaðan situr um líf ríkisstjórnarinnar. Þeim gengur ekkert annað til en að fella hana þrátt fyrir að þau launráð kunni að valda þjóðinni meira tjóni en ávinningurinn kann að verða frá þeirra sjónarhóli. Þeirra hlutskipti verður þá að hafa stjórn á undanhaldinu fyrir sannleikskröfunni og hagræðing sögunnar í þágu þeirra, sem leiddu þjóðina til glötunar.
Vissulega hafa atburðir síðustu vikna orðið til hagsbóta fyrir hugsanlega betri niðurstöðu Icesavemálsins en það sá enginn fyrir og forustumenn stjórnarandstöðunnar hafa purkunarlaust notað þetta mál eins og verstu tækifærissinnar og ekki vílað fyrir sér að snúast eins og trekkspjöld og ganga á bak orða sinna eða amk. flýja frá gefnum yfirlýsingum hvað eftir annað. Nú er slegið úr og í með það, hvort yfirleitt þurfi að borga þessa peninga og þjóðin ærð með fagurgala um afl samstöðunnar. Eða með öðrum orðum þá er föðurlandsástin hert við afl þjóðaratkvæðisins og þjóðin teymd út í fen án nokkurrar fyrirhyggju.
Það eru takmörk fyrir því, hve langt á að ganga í nafni hugsanlega bestu fjárhagslegu niðurstöðu sérstaklega fyrir þingmenn, sem í orði hafa stutt og vilja styðja starfhæfa ríkisstjórn á vinstri væng stjórnmálanna. Lengi skal manninn reyna er sagt, en það er enginn svo sterkur, að hann þoli bræðravíg án sára.
Til í sæti á réttum forsendum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:45 | Facebook
Athugasemdir
Reyndar má færa rök fyrir því að stjórnarandstaðan hafi bjargað lífi ríkisstjórnarinnar. Ef stjórnarandstaðan hefði ekki lagt til í janúar að reynt yrði að semja á ný við brezk og hollenzk stjórnvöld, sem ríkisstjórnin tók í fyrstu fálega í, hefði tíkisstjórnin ekki haft neitt hálmstrá til þess að hanga á núna, þ.e. að samningaviðræður væru í gangi. Bretar og Hollendingar settu síðan það skilyrði fyrir nýjum viðræðum sem kunnugt er að stjórnarandstaðan væri með í ráðum. Þannig að ef það hefði ekki verið fyrir stjórnarandstöðuna er líklegt að ríkisstjórnin væri fallin núna. A.m.k. mun líklegra.
Hjörtur J. Guðmundsson, 10.3.2010 kl. 13:03
Ágætis greining á stöðunni og skemmtileg, Sigurbjörn.
Hjörtur, er þetta ekki að rökstyðja hlutina aftanfrá?
Axel Jóhann Hallgrímsson, 10.3.2010 kl. 13:20
Sæll bróðir. Mitt svar er á nýja blogginu mínu á eyjunni þar sem ég vildi gjarnan eiga þig að eins og á gamla staðnum. BK
Vilhjálmur Ari Arason, 10.3.2010 kl. 13:26
Þetta er vel hugsað hjá bloggara en það mætti bæta því við að sú glufa sem virðist opin til betri samningskjara felst einvörðungu í afborgunar og vaxtarskilmálunum. Varðandi "lögfræðilegu" atriðin og skyldur ríkisins til að greiða það sem uppá vantar munu viðsemjendur okkar ekki breyta neinu. Á þessu hanga atriði Framsóknarmenn og Bjarni Ben veit ekki hvað hann vill. Það verður því ekkert samið við þá fóstbræður. Ef íslendingar hafna samningum á forsendum "lagaskylduóvissunnar" þá er útséð um samninga yfirleitt.
Gísli Ingvarsson, 10.3.2010 kl. 13:51
Það er verið að mýkja kallinn upp svo það sé hægt að nauðga Icesave og ESB upp á þjóðina, ég trúi því ekki að hann láti kaupa sig fyrir það.
Sævar Einarsson, 10.3.2010 kl. 18:57
Góð greining hjá þér Sigurbjörn. Það er þjóðarnauðsyn að "órólega deildin" inna VG taki sönsum þannig að stjónin geti beitt sér. Glundroðap´lotík D og B er eingöngu rekin til að reyna að koma stjórninni á kné. Tilgangurinn að þeir nái svo sjálfir tangarhaldi á stjórnarráðinu að nýju og geti varið þá sem ábyrgð bera á hruninu.
Reinhard Reynisson (IP-tala skráð) 10.3.2010 kl. 22:01
Mér sýnist gæta nokkurs misskilnings hjá ritara á því hvernig skipað er í stjórn og stjónarandstöðu. Mér sýnist vísað í formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í neðangreindu:
"Þjóðin á mest undir því núna að forusta VG lifi af stjórnarsamstarfið við Samfylkinguna. Það gerir hún ekki með liðsinni BB og Sigmundar Davíðs"
Þessir tveir ungu þingmenn eru í stjórnarandstöðu og það er hlutverk slíkra að benda á löst þegar stjórnin bendir á kost. Með því móti ná menn lýðræðislegri lendingu. Ritari má gleðjast yfir því að BB og Sigmundur Davíðs eru ekki farnir að brenna jólatré eða lyftarabretti á Austurvelli eða gera árásir á Alþingishúsið með grjótkasti og eggja-, líkt og liðsmenn síðustu stjórnarandstöðu gerðu
Flosi Kristjánsson, 11.3.2010 kl. 09:45
Ég get ekki fallist á að hlutirnir séu svo klipptir og skornir Flosi hvað varðar stjórn og stjórnarandstöðu eins og þú vilt vera láta. Það hefur engum dulist að ríkisstjórnin hefur á undanförnum vikum reynt að ná viðunandi lendingu í Icesavemálinu en ekki haft til þess meiri hluta á þingi. Þetta hafa m.a. gagnaðilarnir gert sér grein fyrir enda forseti staðfest það með málskoti sínu.
Í ljósu þessa hefur verið kallað eftir samráði og stuðningi stjórnarandstöðunnar enda hún margoft lýst yfir áhuga sínum á að koma að málinu og amk. formaður Sjálfstæðisflokksins ítrekað lýst því yfir að ekki sé ágreiningur um að þessa peninga beri að greiða.
Þegar á hefur reynt og möguleikar virst á að hnykkja málinu til samnings, þá áður auglýstur einbeittur vilji stjórnarandstöðunnar í þá átt hafa sljóvgast. Ég tel að stjórnarandstaðan muni ekki síta það að stjórnin félli á þessu máli og stjórnarkreppa tæki við. Það er undirhyggjan í pólitíkinni þessa dagana.
Stuðningur stjórnarandstöðunnar er s.s. sýnd veiði en ekki gefin og ekkert til bjargar til að gera stjórnina starfhæfa nema afdráttarlaus stuðningur allra þingmanna hennar.
Sigurbjörn Sveinsson, 11.3.2010 kl. 10:35
Mjög er þín sýn á stöðuna lituð af rósrauðum gleraugum.
Það er þjóðarnauðsyn, að þessi ríkisstjórn fari frá hið snarasta.
Það sem er fætt í skrílslátum og með hálfsannleik og jafnvel lygi forgengur á sama hátt.
Svo mun um þessa stjórn og mín von er sú, að kosið verði að nýju til Alþingis í haust. Fyrir þann tíma verði kosið á lista aftur og skerpt á gömlu gildum míns elskaða Flokks.
Þér er vel kunnugt um, að þar er elexír þess besta sem til er í þjóðarsál okkar og þar er að finna essensinn af því heiðarlegasta í framtaki lýðsins.
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 11.3.2010 kl. 15:06
Sæll Bjarni. Það er engin glýja í augum mínum og því síður rósrautt gleraugnaljósbrot. Bara ískalt hlutlægt mat á stöðu okkar.
Fyrir það, sem Sjálfstæðisflokkurinn gerði og lét ógert, erum við nú að gjalda. Þar á bæ virðast menn lítið hafa lært og enn síður hafa þeir nokkra löngun til að gera yfirbót og verða betri menn. Flokkurinn er alveg ófær um að taka við stjórnartaumunum og reyndar hugsa ég til þess með hryllingi, ef þessi þingflokkur á að verða þungamiðja Alþingis.
Í annan stað þá er þjóðinni nauðsyn á starfhæfri ríkisstjórn. Sá kostur, sem er í boði, er sú stjórn, sem nú situr. Hún er bækluð vegna misgengis í þingliði VG. Menn eins og ég, sem hafa stjórnmál ekki að trúarbrögðum og líta á stjórnmálastarf sem vettvang til að koma hagsmunum almennings vel fyrir, eiga fáa eða enga aðra kosti nú um stundir en að taka þátt í að stuðla að traustu stjórnarsamstarfi í þeirri von að stjórnin komi einhverju góðu til leiðar.
Þeir, sem hæst láta nú um ónýta og aðgerðalausa ríkisstjórn, sýnast mér þeir, sem í hinu orðinu klifa á því að farsælast sé að hafa afskiptalitla stjórnmálamenn.Vilji þeir vera sjálfum sér samkvæmir, þá ættu þeir að styðja stjórnina með oddi og egg.
Sigurbjörn Sveinsson, 11.3.2010 kl. 23:20
Sæll Sigurbjörn,
ágæt færsla. Ég tel að Icesave muni ekki fella núverandi ríkisstjórn. Icesave er í raun aukaatriði þó stórt sé.
Ef þú hugsar um; nauðungasölur heimila/gjaldþrot fyrirtækja-VG-Steingrím og siðan Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þá munt þú sjá tengsl sem geta orðið stjórninni að falli.
AGS hefur gefið fyrirmæli um það að ekki lífvænleg heimili/fyrirtæki skulu sett í þrot. Þeirri stefnu fylgir Steingrímur. Sú stefna er í andstöðu við VG. Þarna liggur skurðpunturinn sem mun fella stjórnina. Icesave er bara ein birtingamynd þessa hnúts.
Gunnar Skúli Ármannsson, 12.3.2010 kl. 23:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.