13.4.2010 | 17:40
Gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi sumarið 1964
Ég fékk snuprur fyrir það hér á vefnum, þegar ég í upphafi goss bloggaði um Íslandsmanninn á fleygiferð og tengdi þá atburði æskuminningum úr Þórsmörk og eftirminnilegum einstaklingum, sem ég kynntist þar. Það má auðvitað segja, að ekki sé hægt að ætlast til að það liggi í augum Íslandsmannsins uppi að sjálfsögð tengsl séu á milli glundroðans, sem myndast, þegar annars vegar Íslandsmaðurinn vill allur steðja á sama stað eins og t.d. við eldgos og hins vegar kyrrðarinnar í Þórsmörk, þegar Jón heitinn Böðvarsson og Jóhannes úr Kötlum og fleiri góðir menn réðu ríkjum í Langadal. Þarfirnar og áhugamálin eru ólík og hugrenningatengslin ekki öllum ljós eins og glögglega hefur komið fram í vitnisburði mektarmanna um örlagaatburði í lífi þjóðar.
Ég dvaldi um tíma á unglingsaldri í Skagfjörðsskála sumrin 1963 og 1964 með ættingjum mínum. Þar fóru þá fyrir Ferðafélaginu Finnur Torfi Hjörleifsson, kennari og Jón Böðvarsson, sem bjó sig undir meistarapróf í Íslensku. Jóhannes úr Kötlum hafði verið skálavörður og man ég ekki glöggt hvort svo héti hann enn og væru þeir félagar staðgöngumenn hans. Hann hafði þá ekki lengur fulla starfskrafta. Finnur Torfi var mikill garpur og fús til gönguferða og nutum við þess ríkulega nafni minn Björnsson og ég ásamt fleirum.
Jón Bö var að mestu í skálanum og lá yfir fræðunum. Kom hann þá stundum fram og spjallaði við þá sem voru heima við og þótti gaman að deila viðfangsefnum sínum með öðrum. Hann var fæddur kennari og naut þess að gefa af sér. Man ég vel eftir því, að hann kom fram á suðurloftið um miðjan dag. Um leið og tekið var undir spjallið var hann óðar þotinn og kom að vörmu spori með Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar, gat dæma um þýðingu Odds og lagði út af þeim á sinn fræðilega hátt og hélt okkur hugföngnum hátt í eina kennslustund.
Góðviðrisdag einn kom öllum að óvörum öflug smárúta frá Vestfjarðaleið norður yfir Krossá og voru farþegar fáir. Í ljós kom að þar var á ferð forseti Íslands, Ásgeir Ásgeirsson ásamt Dóru konu sinni, dótturinni Völu og Gunnari Thoroddsen, manni hennar og e-m börnum. Þau ætluðu að njóta veðurblíðunnar í Mörkinn þennan dag. Ásgeir, sem var alþýðumaður í bestu merkingu þess orðs, gaf góðfúslega leyfi til að rútan ferjaði allnokkurn hóp yfir Krossá og inn á Goðaland. Þaðan var svo haldið á Útigönguhöfða í blíðskaparverði eins og þessi mynd ber með sér. Er hún hún tekin til suðurs af Útigönguhöfða og er fönnin allmiklu meiri en í dag vegna betra veðurfars undanfarin ár.
Ásgeir hafði ég hitt áður. Vorum við berrassaðir í klefanum í gömlu sundlaugunum í Laugardal og notaði hann handklæðið af lipurð til að aga okkur strákana. Við vorum í skólasundi en hann var að búa sig undir daginn sem sameiningartákn þjóðarinnar.
Dagurinn hans byrjaði jafnan í sundlaugunum með Íslandsmanninum eins og alkunna er.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.4.2010 kl. 15:02 | Facebook
Athugasemdir
Ætli maður með handklæði til að aga drengi á þennan hátt yrði ekki kærður fyrir ofbeldi nú til dags?
Stelpur kynntust líka þessari aðferð.
Takk fyrir frásöguna.
Hólmfríður Pétursdóttir, 13.4.2010 kl. 19:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.