2.1.2011 | 23:05
Bolli eða Kjartan?
Hér annars staðar á blogginu má finna vangaveltur undir fyrirsögninni: Guðrúnar saga Ósvífursdóttur. Því miður leyfir sá höfundur ekki athugasemdir við bloggið sitt, sem óneitanlega væri skemmtilegt að gera.
Það er vissulega rétt að Laxdæla fjallar fyrst og fremst um Guðrúnu en ekki þá fóstbræður Kjartan og Bolla. Líf Guðrúnar er þráður sögunnar. Sagan er reyndar að öllu leyti saga kvenna og eru karlar í aukahlutverkum. Ef til vill hefur kona sagt söguna fyrir. Ættmóðir Sturlunga? Guðný Böðvarsdóttir? Hún var öllum hnútum kunnug um Dali og Snæfellsnes.
Kjartan var glæsilegur oflátungur og yfirgangssamur og hafði unnið sér margt til óhelgi, þegar hann féll. Guðrún elskaði Bolla, sem var höfðingi í lund og langþreyttur til vandræða. Bolli var vænstur hennar manna en beittur andlegri kúgun af hálfu Guðrúnar til að fremja óhæfuverk.
Ég held að Hannes Hólmsteinn sé glámskyggn, þegar kemur til þess að greina á milli afburðamanna og hæfileikamanna, eða hvort yfirleitt sé einhver brýn nauðsyn til þess.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hvernig dettur þér í hug að segja að Guðrún hafi elskað Bolla??
Jóna Hammer (IP-tala skráð) 3.1.2011 kl. 16:18
Ég trúi orðum Guðrúnar. Hún var Bolla verst.
Sigurbjörn Sveinsson, 3.1.2011 kl. 20:18
Þú segir að Guðrún Böðvarsdóttir hafi verið öllum hnútum kunnug í Dölum og um Snæfellsnes. Kannski mætti þrengja hringinn með því að fara vel í saumana á staðarlýsingum og kanna hvar Guðrún hafi þekkt til.
Ætli hún hafi komið á Svínadal? Höfundur Laxdælu hefur sennilega ekki þekkt þar til staðhátta. Ég fékk einu sinni að slást í för með þér og tveimur eldri höfðingjum, - Pétri sýslumanni og Elíasi vegagerðarmanni - upp á Svínadal til að átta okkur á lýsingu Laxdælu á banastað Kjartans. Landslagið fellur ekki að sögunni. Þeir Pétur og Elías kunnu kaflann utanbókar og létu laxdæluna ganga, en við ungu mennirnir hlupum eftir þeim hvor með sína bókina og reyndum að fylgja þeim, ofandottnir. Þeim bar ekki saman en kunnu að rökræða. Í minningunni var blíðskaparveður, landið fagurt og frítt. Mér fannst Elías hafa betur og stakk upp á að hann kæmi með vegagerðartækin og flytti Kjartansstein þannig að landslagið passaði við söguna.
En Hannes? Hvar kemur hann við sögu?
Gunnar M. Sandholt (IP-tala skráð) 4.1.2011 kl. 17:33
Má vera að sitthvað hafi skolast til frá frásögn Guðnýjar þar til sagan var færð í letur. Aðalatriðið er, að viðurkennd séu handtök kvenna á þessari sögu.
Ekki var amalegt að fylgja þeim Elís Þorsteinssyni frá Ljárskógaseli og bónda á Hrappsstöðum og Pétri Þorsteinssyni úr Stöðvarfirði í "lautina þar sem Láfi var, leiddur af móður sinni" eins og þú orktir svo smekklega. Þangað að bæjarlæknum á Höskuldsstöðum hefur höfundur Laxdælu áreiðanlega komið eða munnmælin farið rétt með.
Þetta var unaðslegur dagur á hásumri 1988.
Sigurbjörn Sveinsson, 4.1.2011 kl. 18:27
Hannes bloggaði um Guðrúnar sögu en vildi enga samdrykkju um það blogg frekar en annað, sem hann lætur frá sér. Hann er enn á bak við hornið á Dómkirkjunni á gægjum þó liðin séu þrjátíu ár bráðum.
Þú ættir að líta á þetta hjá honum. Hann reynir m.a. að líkja þeim saman Sigurði Nordal og Einari Ólafi í því skyni að sanna kenningu sína að sitthvað sé afburðamaður og hæfileikamaður. Eins og þeir séu yfirleitt samanburðarhæfir. Þetta voru ólíkir menn og elja Einars Ólafs mun gagnast fræðunum og menningunni ekki síður en það, sem Sigurður skildi eftir sig.
Sigurbjörn Sveinsson, 4.1.2011 kl. 18:38
Hér er bloggið hans Hannesar http://hannesgi.blog.is/blog/hannesgi/entry/1130062/
og vísan:
Andagiptin á mig þar
einkum trú´ eg rynni
í lautinni þar sem Láfi var
leiddur af móður sinni.
Sigurbjörn Sveinsson, 4.1.2011 kl. 22:10
Sæll Sigurbjörn.
Fyrr er hagyrðingur en höfuðskáld, stóð þar.
Vona bara að ekki hafi verið sneitt að Hannesi
þegar þau orð voru rituð.
Líkar vel tal um "áfengan texta" og á
það sannarlega við um 3. efnisgrein í texta er fjallar
um Jónas Jóhannesson, bónda í Ljárskógaseli.
Veldur hver á heldur! Einhver hefur hitað púns af
minna tilefni!
Bestu þökk fyrir það.
Húsari. (IP-tala skráð) 6.1.2011 kl. 01:23
... og nú er komin ný Guðrúnarsaga, Mörg eru ljónsins eyru eftir Þórunni Erlu- og Valdimarsdóttur. Undarlega daðrandi og spennandi saga, á köflum áfeng í skilningi ykkar Húsara, á köflum spennandi reifari og svo margt annað. Fersk Laxdæla.
Nú erum við líklega þvert á vilja okkar skotnari í Kjartani og Bolla en Guðrúnu sjálfri, - uppteknari af Hannesi en Helgu Kress - og farnir að velta okkur upp úr hvort taki því að greina mun á afreks- og hæfileikamanni. Þá er vert að benda á hvernig Þórunn kynnir þá kappa til sögu sinnar. Frændurnir Bolli og Kjartan sitja undir tré við Ægisíðu. Eina golan er andardráttur þeirra, djúpur eins og vináttan. Bolli lítur upp í hlyninn og spyr: Við búum í trjálausu landi. Hvað er þá þetta? Kjartan: Þetta er tré þótt lítið sé, miðað við aldur og tegund. Bolli: Já. Miðað við getu ... við betri aðstæður . Annar þeirra, við vitum ekki hvor: – Í betra loftslagi.
Það er kannski ekkert að því að greina milli afreks- og hæfileikamannsins. En dálætið á afreksmanninnum er oftast sprottið af mikilli þröngsýni og oftast sjálfhverfri. Hvor er meiri afreksmaður Sólksinsdrengurinn eða kjaftaskurinn sem kláraði sig í morfís og var kosinn á þing fyrir vikið?
Gunnar M. Sandholt (IP-tala skráð) 7.1.2011 kl. 00:10
Hef ekki lesið Þórunni Erludóttur og ekki setið við fótskör Helgu Kress síðan hún lét mig stagla í Þýzku hér um árið í Lækjargötunni. Þá var Jón enn lesinn og Lorelei er í fersku minni og fleiri góð ljóð, sem má syngja við skál.
Ég hef bara Laxdælu að styðjast við.
Sigurbjörn Sveinsson, 7.1.2011 kl. 09:50
Er ekki afrekið fólgið í því að nýta hæfileikana sem best? Þar af leiðandi, allir afreksmenn eru hæfileikamenn, en ekki allir hæfileikamenn eru afreksmenn?
Tómas Örn Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 7.1.2011 kl. 10:08
Þarf það alltaf að boða gott, þegar hæfileikamaðurinn verður afreksmaður? Er e-ð jákvætt við það að kaffæra kóng, ógna fólki til að brjóta samninga og níðast á lítilmögnum norður í landi?
En Íslendingar á öllum tímum hafa hampað þessum manni frekar en Bolla og eru nú að súpa seyðið af þessu lífsviðhorfi sínu.
Sigurbjörn Sveinsson, 7.1.2011 kl. 12:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.