10.6.2011 | 22:34
Nú er nóg komið
.. og er ekki þar með sagt að efast sé um það, sem Sigrún ber að Ólafur Skúlason hafi gert á hennar hlut. Ekki verður séð af þeirri skýrslu, sem lögð var fram í dag, að sr. Karl hafi komið fram í þessu máli af undirhyggju, sem honum er ekki samboðin. Moldviðrið var nægjanlegt til að æra hvern mann og hann hélt þó þeim sjó, að vilja ekki gefa biskupi sínum opinn víxil. Og lét mannlegar athugasemdir falla í dagbók sína, sem sýna þá eiginleika, sem gerðu hann að góðu biskupsefni.
Á þessari stundu má hefndarþorstinn ekki taka við þessu máli. Hann á hér ekki heima. Nú tekur fyrirgefningin við. Karl biskup er valmenni. Valmenni horfast í augu við mistök sín og það, sem betur hefði mátt fara. Það veit ég að Karl gerir. Við erum engu bættari að biskupinn falli. Sigrún ætti fremur að veita honum höfuðlausn en að krefjast þess.
Biskup segi af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég reyndar fæ ekki séð hverju slík "sannleiksnefnd" á að skila. Maðurinn sem um er fjallað er löngu látinn og ekki hægt af þeim sökum að yfirheyra hann, Hvernig á þá að vera hægt að meta hvað aðrir gerðu rangt í málinu þegar engann veginn er hægt að sjá hvort umræddir atburðir áttu sér yfirleitt stað?
Það er svolítið eins og það sé algert bann við því að efast um þetta mál og málatilbúnaðinn. Ef menn eru ekki algerlega á þeirri skoðun að Ólafur hafi brotið af sér þá séu þeir alveg galnir. Nú ætla ég ekki að segja hvort Ólafur sé sekur eða ekki um þau brot sem á hann hafa verið borin. Það getur einfaldlega enginn sagt til um, Hvorki sannleiksnefndin né nokkrir aðrir.
Það eina sem stendur eftir er framburður þeirra kvenna sem hafa komið fram með frásagnirnar. Sem sagt, aðeins önnur hlið málsins.
Jóhann Kristjánsson (IP-tala skráð) 10.6.2011 kl. 23:12
Því miður er ekki sjálfgefið að maður trúi því að hr. biskupinn
hafi skrifað þetta í dagbók sína á þessum tíma.
Það er nú svo komið.
Viggó Jörgensson, 11.6.2011 kl. 01:31
Ég leiði þessa síðustu athugasemd hjá mér.
Sigurbjörn Sveinsson, 11.6.2011 kl. 02:27
Ég sagði mig úr þjóðkirkjunni fyrir nokkrum árum. Blöskraði algjörlega fréttirnar af sumum kirkjuþingunum. Sífelldur ófriður og illindi presta hafa skaðað kirkjuna meira en flest annað. Mér finnst miklu betra að standa til hliðar þó ég virði trú fólks og aldrei dottið í hug að gera lítið úr henni. Ég trúi bara á hið góða og það dugar mér prýðilega. Mér finnst kirkjunnar menn hafa haldið illa á þessu biskupsmáli Ólafs Skúlasonar. Því miður mun allur sannleikurinn í því máli aldrei verða ljós. Það er að sjálfsögðu slæmt og mun halda áfram að skaða íslensku þjóðkirkjuna.
Sigurður Sveinsson, 11.6.2011 kl. 07:47
Furðufuglastofnun ríkisins... er einhver hissa; Þetta er jú það sem er að gerast almennt með trúarsöfnuði... End er idolið hann Guddi og meint galdrabók hans langversta fyrirmynd sem hugsast getur.
DoctorE (IP-tala skráð) 11.6.2011 kl. 15:21
Ég veit ekki hvort ég treysti mér til að tjá mig um þetta mál. Til þess þekki ég of vel þjánigu sumra sem orðið hafa fyrir misbeitingu valds af hendi einhvers sem þeir treystu. Ég þekki líka efann um hvort ég sjálfur hafi brugðist eða brugðist rétt við þegar mér var trúað fyrir slíkri þjáningu. Með hann verð ég að lifa.
Rannsóknarskýrslan - eftir því sem ég veit best - fjallar um hvort kirkjan og starfsmenn hennar hafi brugðist í viðbrögðum sínum gagnavrt þeim sem töldu á sér brotið.
Þú viðrar málefnalega skoðun á því hvort önnur manneskja eigi að fyrirgefa . Það er vandmeðfarið. Allavega sýnist mér fara best á því sýna nærgætni í umræðunni, sem mér finnst þú gera að mestu.
Þess vegna blöskrar mér að sjá viðbrögð þeirra fjögurra sem gert hafa athugasemdir. Helst er að sjá að enginn þeirra hafi lesið hvað þú skrifar. Slíkir skoðanasóðar ættu að halda sér á sínum eign síðum, enda hefur enginn þeirra hirt um að reyna að skilja hvað þú ert að fara. Það er eins og þeir séu að tala við sjálfa sig. Það eru óvenjuleg viðbrögð á bloggsíðu þinni.
Gunnar (IP-tala skráð) 12.6.2011 kl. 23:10
"Kristilega kærleiksblómin spretta
kríngum hitt og þetta!"
"Um hina heittelskuðu."
HKL. Ljós heimsins 1936.
Húsari. (IP-tala skráð) 15.6.2011 kl. 02:09
Ólafur Kárason var einfeldningur, þegar til ástamála kom. Það er nauðsynlegt til að ná lífshamingjunni fyrir tilstilli Afmors. Það fór HKL illa að ná sér niður á kristindómnum fyrir orð einfeldningsins. Þeirra er himnaríki eins og segir í Fjallræðunni.
Þetta mál verður ekki leyst með aðferðum Laxness. Það leysir hvorki Nasi né Jónas Bjarnason á Fæti undir Fótafæti. Hvenær var Laxness alvara? Aldrei eða alltaf? Kannski Ásta Sóllilja geti sagt okkur það?
Sigurbjörn Sveinsson, 15.6.2011 kl. 21:30
Sæll Sigurbjörn.
Bestu þökk fyrir svarið.
Margur hefur flokkað Gerplu undir
skemmtiefni eða e.k. paródíu en HKL
hefur í viðtali sagt að spé eða gys hafi
verið honum víðsfjarri við samningu
þeirrar bókar.
Alþýðubókina samdi hann í Los Angeles
og segir í viðtali 1988: "Maður var alltaf að
reyna að bæta eitthvað en stundum var það
misskilið algerlega."
Ég hef heyrt reynda skólastjórnendur og kennara
halda því fram í alvöru að HKL hafi unnið
skemmdarverk á íslensku máli.
Mér finnst það álíka fjarstæða eins og að hann hafi
fjandskapast út í kristni eða íslenska bændur.
Með tilvitnuðum orðum vildi ég
heilshugar taka undir skrif þín:
"Nú er nóg komið."
Húsari. (IP-tala skráð) 17.6.2011 kl. 01:18
Engum er skylt að fyrirgefa neinum neitt. Maður fyrirgefur ef maður sjálfur getur og vill. Gunnar hóf skrifin vel að ofan og kom með góða punkta, en hvað meinar mann með að kalla 4 menn að ofan ´skoðanasóða´? Nokkrir þeirra komu líka með góða punkta.
Elle_, 19.6.2011 kl. 21:28
Það er rétt hjá þér, Elle, að engum er skylt að fyrirgefa og enginn getur krafið annan um fyrirgefningu. Því getur þó enginn neitað að fyrirgefningin er kjarninn í boðskap kristninnar þegar hún er upp á sitt besta og sannkallað kærleiksblóm, af því tæi sem Húsari nefnir til sögunnar. (Enda hafa vísir menn kennt okkur fávísum að Ólafur Kárason sé Jesúgervingur)
Það er og hárrétt ábending hjá þér að að fljótfærnislegt var af mér að gefa þeim öllum fjórum sömu einkunn. Sigurður Sveinsson á það ekki skilið, þótt athugasemd hans væri ekki beint svar við innleggi Sigurbjörns. Það er virðingarverð afstaða að segja sig úr þjóðkirkjunni ef maður finnur sig ekki í þeim selskap.
Skoðanasóða kalla ég hinsvegar þá sem sletta skyri í allar áttir þegar aðrir, líkt og Sigurbjörn hér, gera tilraun til málefnalegrar umfjöllunar um efni sem er vandmeðfarið og rammasta alvara: einn yppir öxlum, annar er með dylgjur og sá þriðji með aulafyndni.
Fyrir sumum okkar snýst þetta mál núna ekki um að vera í liði með eða gegn biskupi heldur í liði með kirkjunni þótt hún geri og hafi gert mistök.
Gunnar Sandholt (IP-tala skráð) 29.6.2011 kl. 12:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.