9.2.2012 | 14:26
Sparnaðurinn orðinn að meinsemd
Það var átakanlegt að hlusta á þá nafna, Ólafana, á Bylgjunni í morgun. Þeir espuðu hvorn annan upp í andúð á lífeyrissparnaðinum. Gekk Arnarson lengra með því að telja lífeyrissjóðina með öllu gagnslausa en Ísleifsson var öllu hógværari þótt hann sæi mikinn vanda verða til vegna sjóðssöfnunarinnar.
Þegar ég var ungur maður kepptust allir við að eyða hverri krónu, sem aflað var. Enn betra var að skulda sem mest og höfðu menn að kjörorði: "grædd er skulduð milljón". Þetta var auðvitað svar við óðaverðbólgunni, sem þá réð miklu í efnahagsmálum þjóðarinnar og um viðhorf almennings til peninga. Öllum var þó ljóst að við mikla meinsemd var að eiga og skortur á innlendu lánsfé hamlandi bæði atvinnulífi og almenningi. Ólafslögin um verðtryggingu lánsfjár voru fyrsta skrefið til að snúa af þessari braut. Viðunandi árangur náðist þó ekki fyrr en með samstilltu átaki þeirra félaga Guðmundar jaka, Ásnumdar og Einars Odds og bændasamtakanna í samvinnu við ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar 1990. Fram að þeim tíma hafði mín kynslóð barist við misgengi verðtryggingar og launa. Niðurstaðan varð þannig himnasending að maður óskaði þess að þjóðin þyrfti aldrei aftur að glíma við óðaverðbólgu og þau vandamál, sem henni fylgdu. Ein af hliðarverkunum þessara efnahagsráðstafana var að þjóðin sneri við blaðinu og fór að spara og lífeyrissjóðunum var loks kleift að gera áætlanir um greiðslu lífeyris, sem hvarf ekki á verðbólgubálinu.
Það er eins og þetta sé allt saman gleymt og nú hamast menn gegn sparnaðinum og segja söfnun lífeyrisréttinda grundvallarmeinsemd og hana verði að stöðva. Glámskyggni stjórnenda lífeyrissjóðanna og áður óþekktar aðstæður í íslensku efnahagslífi leiddu til gengislækkunar lífeyrissparnaðarins. Hugsanlega má rekja ástæður þessarar glámskyggni til félagslegrar súrsunar stjórnenda lífeyrissjóðanna og bankamanna á markaðstorgi hégóma og gjálífis. Svo vilja margir vera láta og legg ég engan dóm á það. En hvernig má það vera að annars skynsamir menn beini nú allri athygli sinni að sparnaðinum sjálfum og geri hann að blóraböggli fyrir það, sem miður fór? Er það sem sagt sparnaðurinn, fyrirhyggjan, sem á að bera burt syndir heimsins að þessu sinni? Hvers konar bull er þetta? Er það ekki líklegra að efnahagsstjórnin, hvernig við fórum með þennan sparnað sem brást? Á að leggja af sparnaðinn og taka upp gegnumstreymissjóði af því að það skapar vanda að eiga til mögru áranna? Er ekki rétt að staldra hér við áður en vitleysan fer úr böndunum?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Heyr, heyr.
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 14:44
Það þarf greinilega að gjörbilta sjóðunum, og jafnvel hafa bara einn sjóð. Og svo þarf að vita til hvers sjóðirnir eru. Á að fella niður grunnlífeyrir frá tryggingastofnun og nota sparnaðin sem fólki hefur verið skilt að safna í sjóð, til að drag fram lífið í ellinni, og má enginn hafa meira en 180.000 á mánuði til að lifa á. Þetta þarf að koma upp á yfirborðið strax, og ef fólk á að lifa eingöngu á lífeyrissparnaði sínum þá þarf að fara með það eins og annað sparifé og ekki taka skatt af því eftirá. Það er ýmislegt sem þarf að skoða betur en ekki læðupokast inn í kerfi landsmanna með skítugum krumlunum eins og gert er í dag!!!!
Eyjólfur G Svavarsson, 9.2.2012 kl. 15:40
@ Ein af hliðarverkunum þessara efnahagsráðstafana var að þjóðin sneri við blaðinu og fór að spara og lífeyrissjóðunum var loks kleift að gera áætlanir um greiðslu lífeyris, sem hvarf ekki á verðbólgubálinu.
Þetta er bara ekki rétt. Þjóðin fór ekki að spara. Hún hefur verið að auka skuldir sínar alveg frá 1980.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 17:46
Sú fullyrðing að almenningur hafi tekið jákvæða afstöðu til sparnaðar á árunum eftir 1990 á við rök að styðjast. Aukin þátttaka í hlutabréfaviðskiptum og í hvers konar sparnaðarformum bankanna og síðar séreignarsparnaði tel ég bera vott um það. Til að nota línurit af þessu tagi sem gagnrök verður að sundurliða þessar skuldir og þátt opinberra aðila og fjármálastofnana í þeim. Skuldajafnvægið sem virðist ríkjandi á mestu verðbólguárunum frá 1970 til 1990 segir okkur að línurit þetta krefst nánari athugunar.
Sigurbjörn Sveinsson, 9.2.2012 kl. 21:30
Vissulega getur margt verið að athuga við línuritið að tarna. T.d. eru þetta ólíklega nettóskuldir þ.e. eignir eru ekki með. Svo er spurningin í framhaldi af því hvort t.d. erlendar eignir lífeyrissjóðanna spili þarna inn í eða ekki þ.e. hvort tekjur af þeim eignum séu inni í landsframleiðslunni.
En EF þetta eru allar skuldir Íslendinga og allar tekjur sem tengjast þessari skuldsetningu eru inn í landsframleiðslunni, þá er þetta ekki falleg mynd. Þá merkir þetta að fjárfestingar þjóðarinnar frá 1980 hafa ekki verið hagkvæmar. Þetta segir líka að þó einhversstaðar hafi myndast sparnaður þá hafa á öðrum stöðum orðið enn meiri skuldir þannig að sparnaðurinn hafi verið tálsýn.
Ef línuritið speglaðist um lárétta ásinn þá sýndist manni að sparnaðurinn bæri tilætlaðan árangur, þ.e. skuldir minkuðu jafnt og þétt með tilliti til þjóðarframleiðslu. Þá væru Jólin!
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 22:13
En EF......................???????????
Birta svona línurit óathugað, er óagað og sýnir bara ástand sendanda.
Birtir ekki heimildina.
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 9.2.2012 kl. 23:46
Ólafur Sveinsson, þetta línurit tók ég upp úr grein Ólafs Margeirssonar á Pressunni nýlega. Fannst það nokkuð sláandi en auðvitað má féfengja allt. EFið stóra setti ég inn sem varnagla um túlkun upplýsinganna.
Á hinn bógin er ég engin stofnun sem heldur utan um efnahagsgögn. Án efa geturðu fundið upplýsingar hjá opinberum aðilum t.d. Seðlabanka, um skuldir Íslendinga og landsframleiðslu. Ég hvet þig raunar til þess. Ef þú verður var við misræmi þá endilega láttu vita. (ég lít hér við næstu daga)
Bjarni Gunnlaugur Bjarnason (IP-tala skráð) 10.2.2012 kl. 01:19
Væri ekki hægt að endurskoða vísitölugrunninn? Væri ekki hugsanlegt að hætta að leggja fjármagnstekjuskatt á verðbætur? Þær eru ekki tekjur.
Held það væri ráð að endurskoða núverandi lög um verðbætur.
Hólmfríður Pétursdóttir, 10.2.2012 kl. 02:33
Þetta eru skynsamlegar pælingar. Við skulum samt ekki tapa kjarna málsins sem er að sparnaður og ráðdeild getur varla verið undirrót ófara okkar heldur hvernig með hann var farið.
Vísitölur eiga að endurspegla það, sem þeim er ætlað t.a.m. neyslumynstur fjölskyldna og kostnað við að afla sér nauðþurftanna. Séu þær notaðar til að hafa áhrif á verðmat afleiða svo sem innistæða, skulda eða launa þá má fikta með þær og eru það pólitískar ákvarðanir. Yfirleitt stendur þrýstingur fjöldans til að breyta notkun vísitalnanna í sína þágu t.a.m. til að breyta verðmati skulda. Það er gert með pólitískum ákvörðunum og verða þær ákvarðanir alltaf umdeildar.
Sigurbjörn Sveinsson, 10.2.2012 kl. 09:04
Sammála því að sparnaður og ráðdeild geti ekki verið undirrót ófara, ég er miklu fremur að benda á að líklega hefur þessi sparnaður og ráðdeild sem hér hafa virst vera, ekki verið það í raun þegar á heildina er litið.
Ég held að notkun vístölu til verðtryggingar þurfi ekki að vera alslæmt. Verður samt alltaf vandamál að vextir bíta illa og verða því of háir. Það sem er svo slæmt við þessa vísitölu okkar að hún mælir ekki aðeins breytingar á innlenda hagkerfinu heldur þvælast kostnaðarliðir erlendis frá inn í hana líka. T.d. hefur Örn Karlsson bent á þetta.http://www.heimilin.is/varnarthing/frettirhagsmunasamtokin/1409-opie-bref-til-forsaetisraeherra-og-altingismanna-um-malefni-veretryggingar
Einnig er algalið að skattahækkanir skuli stuða inn í vísitölu til verðtryggingar. Skattahækkun er verðbreyting sem stafar ekki (amk. beint)af almennum kostnaðarhækkunum heldur er tilfallandi "hugdetta" ofan frá.
Held nú raunar að einfaldast væri að leggja verðtrygginguna niður en stjórna hagkerfinu af einhverju viti. Það hefur sannað sig frjá þjóðarsáttinni að launþegar eru tilbúnir að hemja sínar kröfur. Það er aftur á móti fjármálageirinn og stjórnvöld sem hafa verið algjörlega agalaus.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 10.2.2012 kl. 09:44
Sigurbjörn. Fjöldi fólk sér aldrei eina krónu af þessum svokallaða lífeyrissparnaði. Tryggingarstofnun er nú þegar með sína putta í þessu batteríi, ásamt ríkisstjórninni og bönkunum, og deilir út eftir hentisemi, og skerðir eftir hentisemi.
Mér finnst eðlileg sú gremja margra, sem skyldaðir eru til að borga allan sinn starfsaldur í þennan sjóð, og sjá svo ekki krónu þaðan þegar eitthvað brestur í heilsunni, og í ellinni dugar þessi sparnaður ekki fyrir nauðsynjum. Hver er tilgangurinn fyrir það fólk að borga í lífeyrissjóð? Ég er ekki að tala um háttsetta embættis-sérréttindafólkið, og ríkisstarfsfólkið, heldur þá sem eru 100% rændir af þessum sjóðum.
En ég er innilega sammála þér í því að það er efnahagsstjórnin sem er rót vandans. Andvaraleysi og skortur á aðhalds-gagnrýni almennings hefur gert þessa óstjórn mögulega.
Það þekkja það flestir, að þeir hafa oft verið sakaðir um geðveiki og eitthvað álíka niðurbrjótandi, sem hafa vogað sér að gagnrýna það sem ekki er í lagi. Og fengið meðferð í þessu samspillta kerfi í samræmi við það.
Ég er ekki læknir, en ég hef myndað mér þá skoðun, að græðgi og siðblinda séu alvarlegir sjúkdómar. Þetta svið þekkir þú nú auðvitað betur en ég.
Þetta er ekki auðvelt og ekki til ein einföld lausn við sundrunginni í hámenntaða, en spillta samfélaginu á Íslandi. Siðmenntunin hefur gleymst í öllu menntastoltinu.
Ef fólk getur lært að segja sannleikann og hlusta fordómalaust og af virðingu á ólík sjónarmið, með það að leiðarljósi að skapa skilningsríkt og umburðarlynt samfélag, þá er stærsta hindrunin yfirstigin. Eftir það greiðist eðlilega úr flækjunum. En þetta skref er mörgum svo gífurlega erfitt, og auðmýkt er óþekktur og vanmetinn styrkleiki hjá þessari brynjuðu þjóð.
Þetta er mín skoðun, en ég er ekki með neinar gráður og því ekki svo marktæk í fræðunum.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 10.2.2012 kl. 10:08
Á hitt ber að llíta að skattarnir eru andvirði þjónustu, sem hið opinbera lætur okkur í té. Þegar skattarnir hækka verðum við væntanlega að draga úr einkaneyslunni. Þannig er vísitala, sem gerir ráð fyrir sköttunum í raun "réttari" en sú, sem er án þeirra þ.e. ef um neysluvísitölu er að ræða. Vísitalan verður líka að gera ráð fyrir innfluttri vöru ef við notum hana á annað borð. Þessir þættir sýna hins vegar veikleika verðtryggingarinnar eins og bent hefur verið á.
Það er ekki einfalt mál að leggja sanngjarnan grunn að mati á verðmætum, sem lánuð eru til langs tíma. Það hefur samt alltaf verið gert. Hér áður fyrr voru matsmenn fengnir til að gera úttekt á jörðum við skipti ábúenda og lögðu menn sig fram um að allra hlutur yrði sem réttastur.
Þetta er enn verkefni okkar.
Sigurbjörn Sveinsson, 10.2.2012 kl. 10:18
"Ef fólk getur lært að segja sannleikann og hlusta fordómalaust og af virðingu á ólík sjónarmið, með það að leiðarljósi að skapa skilningsríkt og umburðarlynt samfélag, þá er stærsta hindrunin yfirstigin. Eftir það greiðist eðlilega úr flækjunum. En þetta skref er mörgum svo gífurlega erfitt, og auðmýkt er óþekktur og vanmetinn styrkleiki hjá þessari brynjuðu þjóð."
Það þarf enga gráðu Anna Sigríður til að láta svona gullkorn falla.
Sigurbjörn Sveinsson, 10.2.2012 kl. 10:23
kl 10.23. Þetta með auðmýktina. Nokkrir stjórnarmenn lífeyrsissjóða virðast hafa snúið bökum saman og standa í hring, brynjaðir, með spjótin munduð, í stað þess að sýna þá auðmýkt, að taka þátt í umræðum, sem hér að ofan.
Anna: Þetta með gráður og fræði, er óþarfa lítillæti.
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 10.2.2012 kl. 11:55
"Á hitt ber að llíta að skattarnir eru andvirði þjónustu, sem hið opinbera lætur okkur í té. Þegar skattarnir hækka verðum við væntanlega að draga úr einkaneyslunni. Þannig er vísitala, sem gerir ráð fyrir sköttunum í raun "réttari" en sú, sem er án þeirra þ.e. ef um neysluvísitölu er að ræða."
Ef þetta ætti að virka svona þá yrðu menn,þegar skattar eru hækkaðir að bíða eftir að fyrirtækin lækki vöruverð og mæla svo vísitöluna. Ekki veit ég til að vinnubrögðin séu þannig. Enda gilti þetta ekki nema í fullkomnu samkeppnisumhverfi sem er svo sannarlega ekki hér á landi. Niðurstaðan er því venjulega sú að skattar hækka vísitöluna sem veldur mældri aukningu á verðbólgu sem veldur því að stýrivextir eru ekki lækkaðir eða jafnvel hækkaðir,sem veldur kostnaði sem er velt út í verðlagið sem veldur verðbólgu og kostnaðarauka fyrir ríki og sveitarfélög sem veldur skattahækkunum. Á gamalli og góðri Íslensku kallast svonalagað, hringavitleysa.
Þegar Orkuveita Reykjavíkur hækkaði gjaldskrá sína verulega þá kostaði það mig meira í hækkun lána heldur en það kostaði meðal Jóninn í RVK í hækkun gjaldanna. En ég bý út á landi og á engin viðskifti við Orkuveituna. Þessi hækkun stafaði að mestu af sérstökum óráðsíuhurnvandamálum hjá Orkuveitunni en ekki af "venjulegum" verðbólguorsökum sem hefði verið allt annað mál að meðtaka.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 10.2.2012 kl. 12:46
það er alveg átakanlegt að heyra í ,,hagfræðingunum" í þessum þætti þarna. þetta er svo sorglega aumt eitthvað hjá þeim. Einhvernveginn sambland af Gróu á Leiti og Vellygna Bjarna. Svo slafra þeir þessu útúr sér eins og verstu kjaftakellingar. Mjög skiljanlegt að þeir hafi verið reknir. En eiga líklega von á atvinnutilboði frá Útvarpi Sögu, trúi eg.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 10.2.2012 kl. 12:50
Ólafur: "Að lesa sjálfan sig í skuggsjá þjóðarinnar er mikilvægur hæfileiki stjórnmálamanna. Hann krefst auðmýktar. Auðmýktin er ólíkindatól. Við hana þarf hver maður að glíma ævilangt. Kjartans Ólafssonar, sem var yfirgangssamur oflátungur með sýnifíkn, beið fagur dauðdagi í skauti Bolla fóstbróður síns. Bolli var besti drengur, sem Guðrún, hetja Laxdælu, elskaði. Hún hefur lokið þessari sögu upp fyrir okkur hún Vigdís Finnbogadóttir, þannig að við skiljum hana. Hún gerði það í auðmýkt sinni. Ég veit ekki hvor þeirra Ólafur Ragnar eða Davíð eru í hlutverki Kjartans."
Úr Vögguþulu frá nóvember 2008.
Sigurbjörn Sveinsson, 10.2.2012 kl. 13:47
Þú hefur "rétta" Bolla skilninginn, Sigurbjörn. Þeir eru tvíburabræður Kjartans.
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 10.2.2012 kl. 17:52
Við vorum nokkuð góðir þarna í nóvember 2008.
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 10.2.2012 kl. 19:02
Sigurbjörn minn. Hvers vegna eru gullkornin gleymd og einskis metin hjá svo mörgum háttsettum embættis-puntstráum þessa litla og veikburða lýðveldis-ríkis?
Það hjálpar mér ekkert, að fá staðfestingu á að gullkorn séu mikils virði, ef þau eru ekki virk í samfélaginu hámenntaða.
Þjóðin öll, og sameinuð, þarf að skilja gullkornin, ef þau eiga að skila einhverju raunverulegu og sanngjörnu.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 11.2.2012 kl. 21:00
Stór hluti þjóðarinnar skilja ekki gullkornin og treysta á Vafningaflokkinn, með 4 daga seinkunn.
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 11.2.2012 kl. 22:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.