Afnám gjaldeyrishafta í skrefum - byrjum á lífeyrissjóðunum

Það verður æ ljósara, að höftin á verslun með verðbréf í erlendri mynt verða þjóðinni erfiðari með hverjum deginum og hafa margvíslegar slæmar afleiðingar fyrir efnahag landsins. Því skal ekki mótmælt, að höftin höfðu ýmsa kosti fyrir okkur, þegar þeim var komið á. Þau voru viðbrögð við neyðarástandi. Nú eru aukaverkanirnar hins vegar að koma í ljós, hið langvinna sjúkdómsástand, sem hægt og bítandi vinnur á heilbrigði efnahagslífsins. 

Þær hömlur, sem lagðar hafa verið á fjárfestingar Íslendinga erlendis geta ekki leitt til annars en ófarnaðar innanlands þegar fram í sækir. Þetta kann að hljóma ankannanlega í ljósi þess, að því er  stíft á loft haldið, að efnahagslífið sé í brýnni þörf fyrir erlenda fjárfestingu.  En ef grannt er skoðað kemur þó í ljós, að báðar þessar fullyrðingar eiga vel við og haldast í hendur.    

Heilbrigt efnahagslíf þ.e. ábatasamur atvinnurekstur keppir um óyrt fjármagn vegna umsvifa sinna. Fjármálafyrirtæki keppa eftir vel reknum fyrirtækjum í viðskipti vegna þess að líklegt má telja, að þau standi bæði undir viðunandi vaxtagreiðslum og endurgreiðslu lánanna. Lífeyrissjóðirnir sækjast eftir að kaupa skuldabréf slíkra fyrirtækja og eignast jafnvel hlut í þeim. Þeir líta kosti sína gagnrýnum augum og velja fjárfestingar í samræmi við það.

En hvernig eru aðstæðurnar núna í fjárfestingarumhverfi lífeyrisssjóðanna?

Á meðan almenningur leggur í lögbundinn skyldusparnað í lífeyrissjóðunum eru þeim settar skorður við fjárfestingum með því að hefta þá við fjárfestingar hjá íslenska ríkinu, íslenskum fyrirtækjum eða í húsnæði á Íslandi. Það má orða það þannig að peningar hlaðast upp sem koma þarf í lóg til að standa undir skuldbindingum lífeyrissjóðanna við eigendur sína. Í raun er offramboð á íslensku fé til langtímafjárfestinga hér á landi. Ein afleiðing þessa kann að verða sú, að stjórnendum lífeyrissjóðanna daprist sýn á gæði fjárfestinga sinna, að skerpan dofni og fjárfest verði í slökum og jafnvel áhættusömum verðbréfum.

En afleiðingarnar ganga ekki bara í eina átt, þær ganga í báðar áttir. Hætt er við að íslenskt atvinnulíf verði einnig fyrir barðinu á lausatökum fjármálafyrirtækja vegna minna aðhalds og gagnrýnislausra lánveitinga. Lífeyrissjóðirnir annars vegar og atvinnureksturinn hins vegar munu snúast um möndul gjaldeyrishaftanna í nýjum Hrunadansi. 

Það er lífsnauðsyn að þessari þróun verði snúið við. Það verður ekki gert nema hleypa fjárfestum að nýju að fjárfestingakostum erlendis. Það verður bæði gott fyrir rekstur atvinnulífsins, lífeyrisþega framtíðarinnar og þar með allan almenning.  

Það er skynsamlegt að hefja þessa vegferð hjá lífeyrissjóðunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er vel mælt. En mun einhver hlusta? Í Saurbæjarhreppnum gamla í Eyjafjarðarsveit tengdust sumir sjálfum sér meir en gott myndi þykja í dag. Hefur eitthvað breyst í þeim efnum? Hvert líta lífeyrissjóðirnir í dag? Það er þrengt að þeim í fjárfestingarkostum, vissulega, en hvað kjósa þeir? Helst sýnist utanaðkomandi að við þá haftastefnu sem ríkir myndu þeir vilja fjárfesta í sjálfum sér eða álíka jafngóðum kostum hér innanlands. Í Saurbæjarhreppnum gamla fer það eftir því við hvern rætt er hvort vel hafi tekist til eða ekki.

Kostirnir utanlands eru viðsjárverðir þótt vissulega sé með þeim dreift áhættu ef þeir eru notaðir. Fésbókin er ágætt dæmi dagsins. Hver eru raunveruleg verðmæti þeirrar ágætu bókar? Hvaða munna mettar hún? Hvað með nýja kosti innanlands? Ef í þeim felst fjárfesting í framleiðslu, framleiðslu á verðmætum sem greitt er fyrir með erlendum gjaldeyri? Eiga Íslendingar náttúruauðlindir sem mögulegt er að nýta betur? Um hvað hugsa stjórnendur íslenskra lífeyrissjóða raunverulega? Nú er sótt að þeim úr mörgum áttum og þar á meðal eru pólitíkusar sem farið er að klægja í fingurna að komast í þá sjóði sem almenningur hefur byggt upp. Geta stjórnendur lífeyrissjóðanna varist því áhlaupi og hvernig gera þeir það? Mun sjón þeirra eingöngu beinast að kostum erlendis vegna áfergjunnar hér innanlands í að komast í þessa fjármuni? Er mögulegt að með því sjónarhorni geti glatast tækifæri innanlands?

Gunnar Ármannsson (IP-tala skráð) 26.5.2012 kl. 23:27

2 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Vissulega væri gott ef allir gætu fjárfest erlendis, ekki bara lífeyrissjóðir.En til þess vantar peninga.EKKi er hægt að kaupa fyrir íslenskar krónur erlendis, þótt þær hlaðist upp innanlands.Við fáum ekki gjaldmiðil til að nota í viðskiptum erlendis nema selja öðrum þjóðum eitthvað, vöru eða þjónustu.Vissulega er hægt að setja krónuna á flot og láta hana falla, sem endar með því að engin getur keypt neytt erlendis frá, en menn verða að gera það upp við sig hvort menn vilji það.Skuldastaða landsins er slík að krónan kolfellur verði hún sett á flot, allir vita það og allir munu vilja skipta krónum út fyrir gjaldeyrir.

Sigurgeir Jónsson, 27.5.2012 kl. 04:49

3 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Menn gerðu nokkuð af þessu Gunnar áður fyrr á árunum að fjárfesta í sjálfum sér. Það fór illa. Það er meira að segja verið að reyna að koma þeim, sem það gerðu, á beddana hans Árna undir Kirkjufellinu. Kannski svo fari. Ég vil ekki vera í þeim hópi, þó virðulegur sé. 

Athugasemdirnar eru réttmætar en málin hafa fleiri hliðar heldur en gagnsemi fjárfestinga í gjaldeyrisaflandi verkefnum innanlands eða almennan skort á gjaldeyri. Dreifing áhættunnar í stærra hagkerfi er sjálfstætt markmið og völ er á fjárfestingakostum, sem hafa heiminn og atvinnulífið undir. Það sjónarmið er mikilvægt, að súrsun hugarfarsins, sem fylgja mun einhæfu vali fjárfestinga, meira og minna stýrðu af pólitískum sjónarmiðum, sú súrsun mun spilla smám saman heilbrigði efnahagslífsins eða öllu heldur koma í veg fyrir þann bata, sem við þörfnumst svo sárlega.

Sigurbjörn Sveinsson, 27.5.2012 kl. 15:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband