9.12.2014 | 22:23
Löng og erfið kjaradeila lækna við ríkið framundan
Verkfallsaðgerðum lækna mun ekki ljúka á næstunni. Mikið virðist bera í milli deiluaðila. Ríkið á ekki hægt um vik að ganga til samninga við stétt sem gerir miklar kröfur um launaleiðréttingu fyrir utan hækkanir, sem hún fer eðlilega fram á. Læknar eru í fyrsta sinn í verkfalli og hafa lagt mikið undir. Fyrir utan þá hagsmuni sem þeir hafa hver og einn af kjaraabótum sem kunna að skila sér í kjarasamningi, þá eru þeim ofarlega í huga afdrif heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi og sá hlutur sem íslenskir læknar leggja til hennar. Á þetta hafa þeir ítrekað bent og engin ástæða er til að efast um þetta markmið þeirra með verkfallinu.
Í hönd fara erfiðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði. Þeir verða gerðir í skugga msigengis, sem varð á launum hinna ýmsu stétta eftir síðustu samninga, sem kenndir voru við þjóðarsátt. Launaskrið hefur orðið bæði í hinum opinbera geira og í einkageiranum meðal tekjuhárra einstaklinga og veldur það ólgu í röðum almennings, sem sækja vill kjarabætur í þessu ljósi. Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu koma að samningaborðinu á útmánuðum með fjárlögin og verðbólguvæntingar í farteskinu og þau markmið fyrst og fremst, að verðbólga fari ekki úr böndunum með tilheyrandi óstöðugleika í efnahagslífinu og kaupmáttarrýrnun almennings. Í þessu ljósi ber að virða ummæli ráðherra, þegar þeir tala í einu orðinu um að bregðast þurfi við kjararýrnun lækna miðað við aðra hópa og að skapa viðunandi starfsskilyrði fyrir yngri lækna hér á landi. Í hinu orðinu tala þeir um að útilokað sé að mæta launakröfum lækna, eða þá að tilstyrk hins almenna vinnumarkaðar þurfi að koma til svo bæta megi læknum kjörin umfram aðra.
Við þessar aðstæður er útilokað að fjármálaráðherrann gangi til samninga við lækna á næstunni.
Nú hafa læknar nánast einum rómi lagt á ráðin um þriggja mánaða verkfall til 1. apríl á næsta ári og með hertum aðgerðum miðað við þá þrjá mánuði sem eru að líða. Með nýju skipulagi á verkfallinu mun hin valkvæða heilbrigðisþjónusta nánast lamast í þrjá mánuði og aðeins því sinnt, sem þarfnast bráðrar úrlausnar. Sérstaklega er útlitið svart í skurðlækningum.
Reiði og óánægja með kjör var orðin djúpstæð þegar á árinu 2008 og ræddu þá læknar í sínum hópi, hvort grípa ætti til uppsagna eða verkfalla til að knýja á um breytingar. Þá kom Hrunið og læknar tóku þeim kjarasamningi, sem þeim var boðinn auk margvíslegra skerðinga sem vinnuveitandi gat beitt án brota á samningnum. Að vonum hafa viðhorf lækna til kjara sinna ekki batnað á þeim 6 árum sem liðin eru.
Ein afleiðing þessa eru viðhorf ungra íslenskra lækna erlendis til vinnu á Íslandi. Önnur afleiðing er vinna lækna erlendis, sem þó eru búsettir hér heima. Þriðja afleiðingin er brottflutningur íslenskra lækna til útlanda, lækna, sem eru í blóma lífsins og þekkingar sinnar. Fjórða afleiðingin er vaxandi urgur og versnandi mórall þeirra, sem hér eru enn og vilja hvergi annars staðar vera. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að ríkisstjórnin stendur frammi fyrir gjörvallri læknastéttinni sem hefur lagt allt undir og hefur engu að tapa þó í harðbakkann slái.
Aðgerðirnar munu harðna á næsta ári eftir að þessu hálfa ári í verkföllum lýkur 1. apríl 2015. Þá munu vafalítið taka við aðgerðir, sem ganga enn lengra. Ég er ekki sá spámaður að geta séð fyrir um í hverju þær verða fólgnar. En þó sýnist mér fátt eftir annað en allsherjarverkfall. Þegar það verður, þá munu margar uppsagnir lækna hafa komið til framkvæmda.
Það er rétt af öllum almenningi að búa sig undir langa og erfiða kjaradeilu lækna við ríkið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.