Uppskeran

Fyrir utan gluggann minn

er gamall kunningi.

Ekki fönn eins og forðum í Brimnesi

heldur fögur og beinvaxin ösp.

Hún  teygir sig hærra

en ávöxtur lífs míns.

 

Greinarnar slúta í stafalogni

 undan blágrænum blöðum,

sem eitt sinn voru björt í vorinu.

Þau eru bólgin af jarðgrænni lífsbjörginni,

sem líður til rótanna.

 

Fyrr en varir hverfur lífsmagnið

og ný brigði taka við.

Við fögnum nýjum málmlitum,

járnrauðum og krómgulum

í margbreytileika haustsins.

 

„Gráar hærur eru heiðurs kóróna“

var sagt um annað fallandi lauf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sigurbjörn.

Bestu þökk fyrir þetta ágæta kvæði þitt.

Að stíl og formi heldur það takti sínum út í gegn;
sennilega gengur næst því að vera eitthvert besta
og jafnframt fegursta kvæði þitt.

Minnir um margt á Litbrigði jarðarinnar e. Ólaf Jóhann Sigurðsson
en ekki síður á Die Nacht ist aus Tinte gemacht e. Hertu Muller.
Leikur að orðum og bláskær hreinskilnin ekki ósvipuð.

Satt er það að afbrigði af loklínum kvæðisins má sjá
hjá Páli Vídalín, lögmanni en einfaldast þó að sjá
þetta í sínu rétta samhengi í Biblíunni en við það færi
þó síðasta ljóðlínan fyrir lítið en Páll skyggir þar
svo sannarlega hönd fyrir sjónu svo að menn fái betur
séð síðustu línurnar í sínu rétta samhengi,
- að breyttu breytanda!

Húsari. (IP-tala skráð) 28.7.2015 kl. 10:53

2 identicon

 Loksins, loksins. Það var kominn tími til að fá frá þér fleiri ljóð. Samt ber að hafa í huga það sem  Ragnar Ingi kenndi mér að sjaldan fer saman að yrkja hratt og vel. Ljóðmyndin er afar skýr og fellur vel að forminu. Ég er sammála Húsara um fegurð og gæði þessa ljóðs en skortir vit hans og þekkingu. 
Forvitnilegt væri að vita hver hann er, en notalegt að fá véfréttir hans einar og sér án þess maður fái að pæla í persónunni.

Sandholt (IP-tala skráð) 28.7.2015 kl. 11:38

3 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Mikið eruð þið gáfaðir vinir mínir. Maður hefur ekki fyrr sett inn eitt lítið og einfalt ljóð að það hvolfast yfir mann heilu fjöllin af svo miklu viti að maður verður bara undir allri hrúgunni. 

En svona samræða kemur manni kannski til manns á endanum og því ber að þakka hana. 

Sigurbjörn Sveinsson, 28.7.2015 kl. 23:33

4 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Fallegt er ljóðið þitt. Ég ætla ekki að keppa við þá félaga Húsara og Sandholt í mælsku, en þakka fyrir að fá að njóta.

Hólmfríður Pétursdóttir, 20.8.2015 kl. 21:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband