7.11.2008 | 14:25
Ég hef lúslesið ræðu Davíðs Oddssonar
... á morgunfundi Viðskiptaráðs Íslands 6. nóvember fyrir réttu ári. Velviljaður frændi minn sendi mér hana mér til upplýsingar.
Þar er Davíð fyrst og fremst að tala fyrir stýrivaxtastefnu bankans og hvert samspil hennar og verðbólgu sé. Hann hefur alveg ákveðnar skoðanir á því, hvort kemur á undan eggið eða hænan í þeim efnum. Ræðan er á mannamáli og þar bregður sums staðar fyrir þessari prakkaralegu ósvífni, sem ég fell fyrir, en fer misjafnlega í fólk. Það, sem er athyglisverðast í þessari ræðu er nánari greining hans á ástandinu, þar sem hann fer vítt um vöxt fjármálakerfisins. Útlánaaukningin hefur verið gríðarleg á sama tíma og við höfum farið í gegnum mestu fjárfestingu sem um getur í sögu landsins, umbreytingar í peningakerfinu, stórkostlega fjármálalega innspýtingu í húsnæðismarkaðinn og svo mætti áfram telja. Og útrásin fær sitt: Útrás virðist þegar grannt er skoðað ekki vera annað en venjuleg fjárfesting erlendis; auðvitað einnig nýting á þekkingu og hæfileikum í bland við fjárfestinguna.......Ódýrt fé lá um hríð hvarvetna á lausu og ýmsir aðilar hér á landi nýttu það tækifæri af djörfung og krafti. Hin hliðin á útrásinni er þó sú og fram hjá henni verður ekki horft, að Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis. .....við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma. Hitt er einnig til að ný orð fái nánast á sig goðsagnakennda helgimynd, eins og orðið útrás sem enginn þorir að vera á móti svo hann verði ekki sakaður um að vera úr takti, hafi ekki framtíðarsýn eins og það heitir nú, og þekki ekki sinn vitjunartíma.
Athugasemdir Davíðs voru því miður ekki settar fram þannig, að vekti forystumenn viðskiptalífsins og stjórnmálamenn af dásvefni velmegunarinnar. Meðvitundarleysið hélt áfram og aðgerðaleysið æpandi eins og áður hefur verið bent á. Það hvarflar að manni að skýringarinnar sé að leita í einhvers konar hjarðhegðun mannsins, holocost, þar sem öllum er ljóst hvað í vændum er, en enginn hreyfir litla fingur gegn örfáum vopnuðum vörðum og aðstoðarmönnum þeirra, sem eru af sama sauðahúsi og fórnarlömbin. Því verður þetta allt sárara um að tala, að hverju barni mátti ljóst vera hvert stefndi. Fyrst skal kalla þá stjórnmálamenn til ábyrgðar, sem réðu þessum málaflokki síðustu ár. Þeir bera ábyrgð á því hvernig fór og tímabært að þeir horfist í augu við það.
Davíð er kapítuli að sínu leyti. Þjóðin er alltof upptekin af honum. Jafnvel þannig að hún nær ekki að setja niður fyrir sér hin raunverulegu úrlausnarefni. Nærvera hans hefur truflandi áhrif á þjóðina. Því er afstaðan til hans ekki alltaf málefnaleg. Tilfinningar eru ekki ómerkilegri en rökræn dialektík. Þær hafa áhrif hvort sem okkur líkar betur eða verr. Í ljósi þess verður seðlabankastjórinn að skoða stöðu sína og hvernig ákvarðanir hans koma þjóðinn að mestu gagni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Seðlabankastjórinn á aðeins eitt skynsamlegt útspil - hver sem afstaða okkar annars er til hans sem bankastjóra eða forsætisráðherra og foringja í stjórnmálum. Hann á að segja af sér: - - ásamt þeim hinum félögunum í bankastjórninni. Stjórn bankans á líka að segja af sér og breyta þarf lögum um bankann og þar með stjórn peningamála - þegar í stað.
Davíð ber sem einstakur aðili langstærstan hluta ábyrgðarinnar á þeim aðdraganda sem við höfðum að þessu hroðalega hruni - - með kerfisbreytingum og einkavæðingu bankanna til handvalinna vildarvina og á því að regluverki Fjármálaeftirlitsins var slakað og íhlutunarvald þess óvirkjað u m leið og sérhæfingu þess og starfsemi voru sett þrengjandi takmörk - - en á sama tíma margfaldaðist fjármálakerfið. Davíð sem forætisráðherra setti örkrónuna á flot - - og síðan sem seðlabankastjóri kaus hann að beita ekki því valdi sem hægt var til að hemja útlánaþenslu bankanna - og hann setti stýrivaxtaskrúfuna upp úr öllu valdi og gerði Ísland með því leikvang fyrir spákaupmenn í leit að vaxtamunargróða - með jöklabréfum - - sem settu efnhagslegt jafnvægi allt úr skorðum. Hann kaus sem seðlabanakstjóri að sleppa því að krefja Landsbankann um auknar tryggingar á móti þeim innlánum sem Icesave sótti erlendis.
Og svo kórónaði hann það með beinum skemmdarverkum - í nánasta aðdraganda hrunsins - og með fráleitum yfirlýsingum í Kastljósviðtalin og margoft víðar . . . . .
Burt með ruddann . . . . . . úr þessu umhverfi - áður en við reynum að biðjast liðs og griða meðal nágrannaþjóða og þeirra sem enn kynnu að vilja við okkur tala . . .
Benedikt Sigurðarson, 7.11.2008 kl. 14:40
Já það er alveg stórmerkilegt að enginn heyrði Davíð ræða þessi mál opinberlega. Það var hann sjálfur sem rifjaði þetta upp í Kastljósinu fræga. Hvers vegna a) Stjórnvöld hlusta ekki á ráðgjafa. b) Davíð er pólitíkus og menn hlusta ekki á pólitíkusa c) Seðlabankastjórn hefur engin völd og þarf því ekki að reifa niðurstöður þeirra sem þar sitja. Svona má lengi telja. ég held að svar b sé réttast. Stjórnmálamenn eiga ekki að sitja sem "hlutlausir" ráðgjafar. Það er ekki tekið mark á þeim sem slíkum, sama hvað þeir segja. Ómar Ragnarsson átti alveg að mínum dómi að fljúga inn á þing. En nei við viljum ekki skemmtikrafta þangað!! Skrítið. Árni Jóhnsen flaug inná þing. No komment.
Niðurstaða: Davíð átti aldrei að fara í stöðu seðlabankastjóra. Hann á því að segja af sér.
Gísli Ingvarsson, 7.11.2008 kl. 15:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.