28.11.2008 | 11:58
Vögguþula
En svo aftur sé vikið að Hösmaga á Selfossi, sem ég þekki alls ekki, en ekki hrútnum þeirra Grettis og Illuga, þá virðist mér hann hafa verið í mægðum við afkomendur Magnúsar Ásgeirsonar ljóðaþýðanda. Og þá erum við komin inn á miklu skemmtilegri slóðir heldur en þetta eilífa þras um meinta sök, sem þó verður ekki undan vikist. En tökum okkur leyfi frá því um stund.
Magnús Ásgeirsson var leiklistargagnrýnandi Þjóðviljans. Hann fór hamförum í gagnrýni sinni og skrifaði lærða leikdóma sem jafnan voru heilsíðugreinar. Svo vel metnar voru skoðanir hans á uppsetningu leikrita í Reykjavík á þeirri tíð, að kunnir íhaldsmenn keyptu Þjóðviljann í skjóli nætur til þess að hafa dóma Magnúsar á takteinum. Þá reis sól íslenskrar blaðamennsku hátt, hvort sem var á Mogga, í Tímanum eða á Þjóðvilja. Menn hugsuðu fyrst og skrifuðu svo. Voru frekar trúir pólitíkinni en eigendum blaðanna. Það hlýtur að hafa verið þægilegra hlutskipti þrátt fyrir allt. Árni Bergmann og Matthías Johannessen voru síðustu stóru nöfnin á þessum vettvangi og Styrmir fylgdi fast í kjölfar þeirra. Ilmur þessara daga berst stundum úr leiðurum Fréttablaðsins en þá er það upp talið.
En hvað um það; Magnús gerði fleira en að rita leikdóma, hann þýddi ljóð. Það gerði hann með undursamlegri smekkvísi og skáldlegu innsæi og raunar þeim sköpunarkrafti sem þarf til að frumsemja stórvirki. Þetta rann upp fyrir mér þegar ég eignaðist fyrir mörgum árum ljóðasafn Almenna bókafélagsins þar sem í einu bindinu mátti finna ljóðaþýðingar. Og þar var þessi Magnús Ásgeirsson allt í einu kominn, fyrirferðarmeiri en Jón Helgason, prófessor í Kaupmannahöfn. Mitt í þyrpingu ljóðaþýðinganna innan um Nordahl Grieg, Hjalmar Gullberg og aðra andans jöfra, rekst ég á kvæði eftir Federico Garcia Lorca, Vögguþulu, sem Magnús kallar svo. Skiptir engum togum, að kvæðið í þýðingu Magnúsar nær á mér þeim heljartökum, sem það hefur haft allt fram á þennan dag. Þó hef ég alls ekki skilið það enn. Annars vegar er barnsleg og viðkvæm vögguvísa fyrir dreng, sem verið er að bía í svefn og hins vegar einhver yfirþyrmandi spánskur harmur ef til vill aftan úr forneskju, sem fylgir með værðinni inn í sál barnsins. Gamalkunn aðferð til að koma arfleifðinni fyrir, þannig að hún ferðist með kynslóðunum.
Nokkru eftir að mér barst áðurnefnt þýðingasafn var ég í dýrlegum fagnaði á Stóra-Vatnshorni í Haukadal í fimmtugsafmæli Árna bónda. Við vorum á tali saman, Jökull á Vatni og ég. Við vorum kunnugir, ég hafði gaukað að honum tveimur notuðum dempurum undir volvóinn og hann skildi eftir tvo laxa á bæjarhellunni í staðinn. Jökull var ekki orðmargur og hafði sig hóflega í frammi, en hann var gefinn fyrir skáldskap og það vissi ég. Allt í einu rifjuðust upp fyrir mér nokkrar hendingar innan úr áðurnefndri þýðingu Magnúsar og ég varpaði þeim fram til að glæða umræðuna:
"Sof þú, baldursbrá, því mannlaus stendur hestur úti í á.
Blunda, rósin rjóð, því niður hestsins vanga vætlar blóð."
Þá mundi ég ekki meira og ætlaðist ekki til þess. En Jökull hélt áfram eins og ekkert hefði í skorist:
"Silfurfölan flipann forðast hann að væta,
mænir miðja vega milli bakka og áls,- . . . "
og lauk kvæðinu sem vart var hálfnað alveg áreynslulaust eins og það væri hversdagsverk.
Jökull á Vatni var íslenskur alþýðumaður en Garcia Lorca spánskur. Þeir hnigu ungir, alltof ungir, annar fyrir morðingja hendi en hinn fyrir arfleifðinni. Garcia Lorca féll fyrir fasismanum. Fasisminn reis úr jarðvegi vonbrigða, fátæktar og niðurlægingar hins sigraða. Það urðu örlög Spánverja um mörg ár að þola þann mannfjandskap.
Jökull gekk til kirkju eins og hann gerði ætíð þegar þjónað var. Hann söng messuna með prestinum og öðrum safnaðarbörnum. Þegar hann mætti sínu skapadægri sýndi hann bæði hógværð og tillitsemi, vék frá, fór afsíðis og hneig í valinn. Það var eins og hann vildi ekki trufla messuna.
Athugasemdir
Góður.
Fasisminn reis úr jarðvegi vonbrigða, fátæktar og niðurlægingar hins sigraða. Eins fór með annað eins flokks kerfi.
Um leið og einhver þykist hafa fundið hinn eina rétta sannleika, er best að taka til fótanna.
En hvert?
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 12:51
Fasisiminn, kommúnisminn, nasisminn. Allir þessir ismar byggðu á heimspeki sem gerði manninn ábyrgðarlausan gagnvart meðbræðrum sínum og náttúruunni. Einstaklingunum var fórnað í þágu fjöldans en með því mygla öll samfélög innanfrá - eins og skemmdar kartöflur.
Sigurbjörn Sveinsson (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 13:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.