Afskriftir í þrígang gefast vel

Ég hitti tvo lækna á förnum vegi í gær. Svo vildi til að þeir brydduðu upp á sama umræðuefninu. Það er fremur sjaldgæft í læknahópi.  

Sá fyrri sem ég hitti hafði raunar mestar áhyggjur af kettinum sínum. Hann sagðist í mikilli  þörf fyrir gælur kattarins um þessar mundir og af ýmsum ástæðum, en kötturinn hefði á því lítinn skilning og sýndi sér nánast algert afskiptaleysi. Annars lá lækninum fremur gott orð til kisu og hafði á þessu vissan skilning. Síðan vék hann að máli málanna. Hann sagðist telja, að Ísland væri bananalýðveldi, sem í sjálfu sér væri ekki ný kenning, en bananarnir væru bara búnir. Og það skapaði vissan vanda og ekkert virtist vera gert til að leysa hann. Stjórn landsins væri óbreytt og hefðist ekki að, sama fólkið væri í bönkunum, bankastjórarnir að vísu farnir, en aðstoðarmennirnir stjórnuðu nú og allir gömlu millistjórnendurnir væru á sínum stað, enginn siðferðilegur mælikvarði væri lagður á það, sem gerst hefði nema ef til vill af litla manninum á götunni.  

Skömmu síðar hitti ég annan kunningja minn í læknastétt og sagði honum af kenningunni um bananaþurrðina í bananalýðveldinu. Hann sagðist geta tekið undir þetta að því breyttu að það væru sennilega einhverjir bananar eftir, en þeir skemmdust mjög hratt. Hann sagðist ekki sjá annað en að nú væri allt gamla bankafólkið og gömlu endurskoðendur bankanna og gjaldþrotafyrirtækjanna að skipta reitunum til þeirra, sem sett höfðu fyrirtækin á hausinn og yrði þeim vafalítið auðveldara að reka þau við minni skuldabyrði. 

Ég gladdist heldur við þessi orð hans og fylltist nánast bjartsýni. Upp fyrir mér rifjaðist sagan af Þörungavinnslunni, þjóðþrifafyrirtæki vestur á Reykhólum, sem jafnan gekk illa að reka, en skilaði þó alltaf framleiðsluverðmæti í þjóðarbúið og þá helst í útlendum peningum. Reksturinn var höfuðverkur þar til mönnum hugkvæmdist að afskrifa skuldir verksmiðjunnar og það í þrígang. Síðan hefur verksmiðjunni vegnað vel og hún dregið björg í bú Reykhólamanna og annarra venslaðra.  

Þetta er áreiðanlega það, sem þetta góða fólk er að gera í bönkunum núna, hugsaði ég með mér og varð heldur léttari í spori.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er ómögulegt, að bæta við athugasemdum.

það eins og punkturinn verði stærri og stærri.

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 10.12.2008 kl. 12:14

2 Smámynd: Bergur Thorberg

Sammála þér. Amen. Mér léttast sporin svo mjög, að bráðlega snerta fætur mínir ekki jörðina.

Bergur Thorberg, 10.12.2008 kl. 16:47

3 identicon

Sumir hafa talað um að það eigi að afskrifa ríkisstjórnina, en það er nú kannski ekki vert að gera það nema einu sinni, ætti að duga. 

Guðjón Baldursson (IP-tala skráð) 10.12.2008 kl. 20:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband