9.1.2009 | 08:45
Sjúkrahúsið á Akureyri ekki heppilegur forustusauður
Eitt af markmiðunum með setningu nýrra laga um heilbrigðisþjónustu 2007 var að treysta fjölbreytta þjónustu á landsbyggðinni sem og að rýmka rétt heilbrigðisstarfsmanna til að veita þjónustu án íhlutunar ríkisins. Heilbrigðisumdæmunum er ætlað að búa yfir meiri faglegri þekkingu til að taka ákvarðanir um hvaða þjónustu hentar að veita á hverju landsvæði, hvernig tryggja á sérhæfða þjónustu og hvernig best er að ráðstafa því fé, sem til skiptanna er. Eða m.ö.o. að færa ákvarðanir um veitingu heilbrigðisþjónustu heim í hérað.
Við gerð frumvarpsins var litið til þess að styrkja stöðu Sjúkrahússins á Akureyri eins og frekast væri unnt til þess að það gæti orðið áfram leiðandi afl í sjúkrahúsþjónustu utan höfuðborgarinnar og varasjúkrahús Landspítalans. Því var lögð áhersla á að það hefði aðra stöðu í sínu heilbrigðisumdæmi en önnur sjúkrahús á landsbyggðinni. Með því yrði það síður háð fjárveitingum til annarrar starfssemi á Norðurlandi og myndi jafnframt síður soga til sín fjármagn, sem heilsugæslan þyrfti.
Ég tel, að ákvörðun um forustu Sjúkrahússins á Akureyri um alla heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi sé misráðin og skaði bæði það og grunnþjónustuna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ágæti starfsbróðir, Sigurbjörn.
Ég ætlaði að hringja í þig í gærkveldi, en aðrar annir komu í veg fyrir það. Ég ætlaði að lýsa undrun minni yfir því, að þú skildir standa að þeim hugmyndum að gera allt Norðurland að einu heilsugæsluumdæmi og þá sérstaklega að hafa FSA þar innan borðs og ég tala nú ekki um að láta þá stofnun vera í forystu. Ég tel að það yrði mjög alvarlegt fyrir heilsugæsluna á Norðurlandi og að öll heilbrigðisþjónusta yrði mjög sjúkrahúsmiðuð. Mér létti því þegar ég sá bloggfærslu þína frá því í morgun þar sem þú varar við því að þetta verði ein stofnun með FSA innanborðs.
Mér finnst það nokkuð undarleg skilgreining hjá ykkur að kalla Norðurland eitt hérað. Ég tel það augljósa brenglun á því hugtaki. Mér finnst þið skulda okkur heilbrigðisstarfsmönnum á Norðurlandi skýringu á því að þið teljið faglegri þekkingu okkar ábótavant, en í röksemdum þínum kemur fram að þessi stóra stofnun eigi að auka faglega þekkingu í heilbrigðismálum. Ég læt liggja milli hluta hvort fagleg þekking muni aukast með svona stórri stofnun, en ég tel ávinninginn af því minni heldur en það sem glatast við geysilegar fjarlægðir milli notenda þjónustunnar og yfirstjórnar. Það eru rúmlega 300 km frá Akureyri til Þórshafnar þegar farið er fyrir Sléttu, semsagt helmingi lengra en frá Reykjavík til Búðardals.
Gísli G. Auðunsson
Gísli G Auðunsson (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 10:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.