Evra eða króna?

Ég hef haft takmarkaðan áhuga á að Íslendingar gerðust aðilar að Evrópusambandinu. Mér hefur sýnst Evrópusambandið bandalag gamalla þjóða, sem reist hafa verndarmúra umhverfis elliheimili sitt en brotið um leið innviðina, sem skilið hafa þær í sundur.   Mér hefur þótt sem hagsmunum okkar yrði síður borgið innan þessara evrópsku múra en utan þeirra, þar sem færi gefst til skyndiaðlögunar að mismunandi mörkuðum og nota má krónuna eins og fljótvirkan þrýstijafnara í hagkerfinu. Að vísu hef ég haft góðan skilning á hinu pólitíska mikilvægi Evrópusambandsins fyrir þjóðir Evrópu í ljósi sögunnar. Sérstaklega varð mér þetta ljóst eftir að ég kynntist ungum Þjóðverja, sem tókst að horfa til framtíðar í sameinaðri Evrópu og sætta sig við fortíðina og þær hörmungar, sem áar hans höfðu leitt yfir Þjóðverja og aðra Evrópumenn.

Svo var það snemma í vor, að ég skipti alveg um skoðun. Krónan hafði átt undir högg að sækja og öllum, sem það vildu sjá, varð ljóst, að verðmæti hennar var orðið rekald í tafli spákaupmanna m.a. af því tagi, sem við nú lesum um í fréttum. Og spákaupmennina var ekki bara að finna í útlöndum heldur í öllum kimum samfélags okkar. Bankarnir, fyrirtækin og lífeyrissjóðirnir okkar bröskuðu með krónuna, hvort heldur sem var í viðskiptum dagsins eða í framvirkum gjaldeyrissamningum. Mér sýndist þetta vonlaus staða og að Seðlabankinn og hagkerfið yfirleitt réðu ekki við kaupmennsku af þessu tagi. Krónan yrði alltaf dauðadæmd þegar ofurríkir fésýslumenn eða purkunarlaus fyrirtæki veldu hana til að kreista út gróða sinn. Krónan yrði að víkja.

Þess vegna tók ég afstöðu með Evrópusambandinu.

Ef einhver getur boðið mér nothæfa mynt án þess að Ísland fórni hluta fullveldis síns og yfirráðum auðlinda sinna, þá skal ég vera fyrsti maður til að hoppa þar um borð. Einn fræðilegur kostur er að Norðmenn sjái ljósið og möguleika þá, sem þeir eiga í myntsamstarfi við Íslendinga. En á meðan hvorki heyrist hósti né stuna úr austurvegi, eigum við ekki annað val en að kjósa evruna og Evrópusambandið.


mbl.is Hægt að frysta bílalán áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Það var bjargföst skoðun feðra okkar, að betra væri að vera hungraður höfðingi en feitur þræll.

Því mun ég ekki undir NEINUM kringumstæðum, kjósa í þá veru, að örlög afkomena þeirra sem landið frelsuðu undan erlendu valdi, verði ekki í þeirra höndum.

Ekkert er þess virð, hvorki í bráð eða lengd. 

Ég var þess aðnjótandi, að Bjarni Ben þekkti foreldra mína allvel og hafði ég tækifæri að hlusta á, hverjar skoðanir hans voru um Utnríkis og varnnarmál.  Aldrei og ég endurtek aldrei, vék hann að öðru en því, að við ættum lokaorðið um okkkar málefni og varaði við, að við gegnum ekki um of BNA á hönd.  Þessvegna talaði hann gegn Aronskunni.

Gjaldmiðill hverrar þjóðar er sviti hennar og framlegð.  EKKERT ANNAÐ.

Því var ég hugsi yfir inngöngu okkar í EES þar sem samið var glannalega um svonefnt ,,Fjórfrelsi".

Mannlegar eindir eru ætíð samar við sig og þegar eftirlit og hindranir eru teknar úr vegi, er endirinn ætríð sá hinn sami.  Kaos, sviksemi, lygi, Græðgi og laumuspil.

Svissarar sáu þetta og sögðu sig fra´EES og tóku upp og gengu frá TVÍHLIÐA SAMNINGI líkt og við Íhaldsmenninrnir og þjóðernissinnarnir í hópi Sjálfstæðismanna vildum.

Ég þekki mann sem nú vildi hafa haft hlutina eftir þeim línum.

 ÞAkka annars mjög svo intresant innlegg hjá þér og bið þig afsaka, hve oft ég plaga þig með ,,kommentum"

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 9.1.2009 kl. 11:45

2 identicon

Sæll. Ég einmitt kastaði fram bloggfærslu í gær þar sem að ég velti þessu upp.

 http://landsmala.blog.is/blog/landsmala/

Málið er það að ég er á móti ESB og ég er líka á móti krónunni, hvað skal gera þá?

Helgi Sv. (IP-tala skráð) 9.1.2009 kl. 11:50

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Vondir menn fóru illa með krónuna og þess vegna eigum við að fórna fullveldinu og ganga í Evrópusambandið. Er þetta röksemdafærslan?

Vextir verða ekki útflutningsvara Íslendinga næstu áratugina. Það verður engin alþjóðleg fjármálastarfsemi hér heldur, eða freistandi króna til að spila með. Það gefst nógur tími til að setja eðlilegar leikreglur og byggja sanngjarnar varnir. Læra af reynslunni.

Það er enginn kostur verri en uppgjöf!

Haraldur Hansson, 9.1.2009 kl. 12:01

4 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Það er tvennt í þessu.

1) Við missum ekki stjórn á neinum auðlindum - sameiginleg auðlindastefna evrópusambandsins snýst um sameiginlegar auðlindir, ekki staðbundnar einsog orkuauðlindir eða 85% af fiskistofnunum. Við semjum nú þegar við ESB um hin 15%. Þess vegna munum við alltaf sitja ein að fiskveiðiauðlindinni okkar eftir að við göngum í ESB, rétt eins og nú. Þetta er eitthvað sem er búið að vera reyna benda á í langan tíma, og má lesa útúr samningnum evrópusambandsins við Noreg og í skýrslu forsætisráðherra um málið síðan í hittifyrra.

2) Við erum nú þegar búin að framselja mestan part af fullveldi okkar til Evrópusambandsins með því að vera aðilar að innri markaðinum í gegnum EES. Það sem við eigum eftir að taka upp er mestmegnis landbúnaðarstefnan (sem sjávarútvegurinn fellur undir) og svo gladeyris og tollamál. Við erum því að auka aðkomu okkar að þeim lögum sem eru sett á Íslandi með því að ganga í Evrópusambandið, og í raun að fá fullveldið okkar til baka. Fullveldið er heldur ekki til að sitja á því, við deilum því t.d. með aðild okkar að SÞ og ýmsu öðru, þótt ESB sé víðtækara þá er í raun ekki sjáanlegt hvernig við komumst hjá því að eiga í flóknum viðskipasamningum við aðila í alþjóðavæddum heimi.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 9.1.2009 kl. 13:09

5 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Sælir.

Held að það besta sem við gerðum núna væri að fara í viðræður við ESB og segja okkur frá EES og öllu því reglufargani og peníngaplokki sem tilheyrir því og taka upp tvíhliðasamning sem hentar okku betur ef við viljum vera eitthvað tengd þessu bákni.

Marteinn Unnar Heiðarsson, 9.1.2009 kl. 16:30

6 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Með aðild að ESB aukum við vald okkar og áhrif á þau mál sem okkur varða, - það kalla ég fullveldisaukningu. Við fáum áhrif í stað áskriftar að tilskipunum.

- Fyrst við töldumst fullvalda þjóð 1. des 1918 en samt enn í 25 ár með danskan konung sem staðfesti lög Alþingis, danskan hæstarétt, danska landhelgisgæslu og öll utanríkismál í höndum Dana, þá er hlægilegt að tala um fullveldisafsal með inngöngu í Evrópusambandið sem skilgreint er sem bandalag fullvalda og sjálfstæðra Evrópuríka.

- Auk þess byggir EDB stjórnsýslu sína og ákvörðunartökuferli á hugmyndum um „samstöðulýðræði“ þ.e. að engar ákvarðanir séu teknar í eindreginni andstöðu við neitt aðildarríkjanna, -og formlegt vægi smáþjóða að auki margfalt það sem höfðatala segir til um.

- Eða hvað myndu Reykvíkingar segja af Grímseyingar hefðu fegið það sett í stjórnarskrá Íslands að Grímseyingar ættu alltaf einn ráðuneytisstjóra, einn ráðherra í ríkisstjórn, kæmu að meðferð og umsögn allra mála sem þeir kærðu sig um og gætu skipað menn í allar nefndir sem fjölluðu um alla málaflokka, sem og dómara og í dóma, og ættu fast þingsæti á ALþingi, - auk þess að hafa neitunarvald um öll stór mál og grundvallarbreytingar í málaflokkum.

Það neitunrvald gætu svo Grímseyingar nýtt sér til að stoppa hvaða mál sem er til að fá menn til að hlusta á þá og taka tillit til þeirra um það sem aðrir teldu smámál. 

- Væri ekki einhver farin að tala um „lýðræðishalla“ til Grímseyinga - og fyndist þá ekki einhverjum skrítið ef Grímseyingar tækju upp þann málflutning og kvörtuðu yfir „lýðræðishalla“ á íslandi í þessu fyrirkomulagi og vildu jafnvel ekki vera í Íslandi vegna „lýðræðishallans“.

Hér taka menn hugsunarlaust upp kvart stórþjóðanna (Breta) um „lýðræðishalla“ (til smáþjóðanna) og segja okkur verða eins og Grímsey við hlið Íslands - en ansi fynst mér þá vald Grímseyjar yrði mikið ef Grímsey fengi hlutfallslega sömu valdastöðu gagnvart Íslandi og Ísland hefði gagnvart ESB.

- Spurning hvort mönnum finnist að við ættum að fela Grímsey slíkt vald? -Og þá auðvitað Vestmannaeyjum hlutfallslega því meira...

Helgi Jóhann Hauksson, 9.1.2009 kl. 21:40

7 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég hef verið þeirrar skoðunar undanfarin ár að ESB sé okkar leið til að ná stöðugleika  og jafnvægi í hag- og þjóðkerfið. Fjárhagserfiðleikar eru afar heilsuspillandi og þar tel ég mig tala af eigin reynslu. Þegar greiðsludreifing fyrir heimilisútgjöld var að koma hefjast í bankakerfinu, sagði ég við Sparisjóðsstjórann okkar að þetta fyrirkomulag væri heilbrigðismál. Hann horfði á mig með spurn í augum og ég útskýrði fyrir honum brot af þeim fylgikvillum sem langvarandi peningabasl getur haft. Honum fannst þetta athyglisvert og þakkaði mér fyrir. Ég sagði líka forvera hans einu sinnu frá því hvernig mér leið við það eitt að ganga framhjá Sparisjóðnum, svo ekki sé talað um að fara þar inn. Hann virtist ekki hafa gert sér grein fyrir að andlegt ástand skuldara gæti verið svona slæmt. En svona í lokin þá hef ég það gott í dag.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 10.1.2009 kl. 00:05

8 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég fór í gegnum persónulegt gjaldþrot 1986

Hólmfríður Bjarnadóttir, 10.1.2009 kl. 00:07

9 Smámynd: Júlíus Björnsson

Dollar er sterkast gjaldmiðill til langframa. Hann reisti V-Evrópu upp eftir stríðið. ESB eða Evrópa fær sennilega lítinn stuðning frá USA í heimskreppunni sem er að byrja. Hleypa erlendum auðhringum inn í landið gerir það að verkum að hlutur sérhvers nýfædds Íslendings í hæstu vergu tekjum landsframleiðslu minnkar. Nú um 500.000- á mánuði. Erlenda fyrirtækið bókar nettó tekjurnar hjá sér sem hagnað sem fer úr landi. ESB skiptir sér lítið sem ekkert af innríkis spillingu innlimaðra þjóða sinna. Þeir vilja sjá stöðuleika til að auðhringar innan þess geti hámarkað gróðann.

Regluverkið frá ESB sem fylgdi ESS lagi grunnin að allri þessari sameiningu og Íbúðalánasjóður er  á gráu svæði: við erum ekki búinn að taka upp allt regluverkið. Við verðum að einkavæða orkugeirann erum þegar byrjuð, einkavæða fjármálakerfið eigum íbúðalánasjóð eftir Útlendingar mega eiga öll Íslensk fyrirtæki þótt þau séu á íslensku skattasvæði..  Frjáls vegabréfslaus flutningur til og frá landinu, Pólverjar og fleiri geta stofnað hér klínik.  

Áður Innlimuð auðlindasnauð ríki með lága nettó landsframleiðslu hafa ekki þurft að óttast um einkapraxis  frá tekjuhærri svæðum að skiljanlegum ástæðum. Kvótar gilda um setu í ráðum og nefndum. Óstöðuleika merki eru til dæmis of hátt launuð millistétt og of fjölmenn yfirstétt, of mikil almenn bílaeign  og íbúðafermetrar á einstakling. Þess vegna var lögð svo mikill áhersla meðal annars að þétta byggðina. Má búast við að nískupúkarnir í ESB fetti fingur út í þegar við færum hugsanlega fram á fyrir greiðslu.

ESB hefur nú þegar fjármagnað gífurlega markaðssetningu hér á landi að mínu mati og það er hægt að orða hlutina á margan hátt.

Júlíus Björnsson, 10.1.2009 kl. 06:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband