Hatur

Á dögunum kom til mín ung íslensk húsmóðir. Hún var með barnið sitt, gullfallega litla telpu, sem ber jarðbrúnan náttúrulegan lit foreldra sinna. Húðin er mjúk og sterk og ber þennan silkimjúka, krullaða nánast ósýnilega hýjung, sem okkur Norðurevrópubúum er framandi.  Pabbinn er nefnilega þeldökkur. Nema hvað þessi unga kona, sem ég er búin að þekkja síðan hún var krakki, segir mér frá þeirri nöturlegu staðreynd að það sé venja fremur en undantekning að veist sé að henni , þegar hún er á almannafæri og hún ötuð auri og svívirðingum ausið yfir börnin hennar. Jafnvel uppdressaðar íslenskar konur, sem vafalítið vilja kalla sig hefðarfrúr, gera sér erindi upp að henni og kalla hana ónefnum, sem ekki er ástæða til að hafa eftir. Eiginmaður hennar er vel menntaður og talar fjögur eða fimm tungumál reiprennandi. Samt gat samfélagið ekki nýtt gáfur hans og menntun árum saman og því m.a. borið við, að ekki væri við hæfi að svartur maður stæði fyrir ímynd Íslands út á við.

Þetta er Ísland í dag. Ísland vanþekkingar og fordóma.

Þetta er sorglegt. Ég er læknir um 2000 íbúa þessarar borgar. Þeir eru Íslendingar, Pólverjar, Norðmenn, Danir, Ítalir, Rússar, Japanir, trúaðir, vantrúaðir, fjáðir og fátækir, kaþólikkar, kommar, mótmælendur, múslimar, hommar, lesbíur, anarkistar, vottar, Gyðingar og gagnkynhneigðir og svo mætti lengi telja. Eftir því sem ég kynnist þessu fólki betur, því daufari verður tilfinningin fyrir því, sem greinir okkur í sundur. Þegar ég hef lokað dyrunum að stofunni minni á eftir okkur þá hverfur þessi tilfinning alveg. Það hefur ekkert með mig að gera heldur þá staðreynd, að það eru engar náttúrulegar forsendur til að greina fólk að á þennan hátt. Hér ræður vanþekking og hræðslan við hið óþekkta ferð. 

Ég er auðvitað barn míns tíma og læt stundum orð falla í kerskni, sem ætlað er að nýta sér þessa fordóma. Mér verður samt ekki kápan úr því klæðinu, því börnin mín uppkomin minna mig strax á, hvað er við hæfi og hvað ekki. Með öðrum orðum: Setja ofan í við mig. Það sýnir, að samfélaginu fer fram þrátt fyrir allt.

Afi minn í móðurætt var heittrúaður maður og blárra íhald en fundið verður á litakorti stjórnmálanna. Hann átti mörg börn m.a. tvo tengdasyni, sem voru kommúnistar. Honum þótti ekki síður vænt um þessi börn sín en hin, þótt hann skildi aldrei pólitíska afstöðu þeirra. Mamma kaus Sjálfstæðisflokkinn en pabbi var kommi. Að hans mati voru einu kommarnir á Íslandi hann og Jón Múli, hinir voru allir kratar.  Mamma og pabbi elskuðu hvort annað alla ævi þar til yfir lauk.

Þetta er hægt!

Mér datt þetta í hug, þegar ég las blogg Baldurs Kristjánssonar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær færsla hjá þér Sigurbjörn! Mannkynið eitt fyrir guði!

Þuríður Ottesen (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 10:06

2 identicon

Ég veit ekki hvort sé við hæfi að skjalla þig á almanna færi,bróðir.

Þú ert góður þegar þú lætur hugan reika.

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 11:16

3 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Sigurgjörn og þakka þér afar góðan pistil.´

Hér hreyfir þú við málefni á þann hátt sem fáir Íslendingar þora. Flest okkar eru nefnilega sannfærð um að við Íslendingar séu upp til hópa fremur fordómalausir, einkum þegar kemur að því sem kallaðir eru "kynþáttafordómar". Þegar sú umræða fer í gang er gjarnan orðið fordómar krufið og í framhaldi spurt hvað sé verið að dæma fyrirfram. Að því er látið liggja að hugrænn skilningur á því að líffræðilega sé enginn teljandi munur á mönnum, nægi til þess að "fordómarnir" víki.

En er þetta ekki aðeins hálfur sannleikurinn. Hvað með tilfinningar okkar? Hvernig er sú staðreynd tækluð, að "fordómar" eru inngrónir í tilfinningar okkar og koma því fram í málfari og afstöðu, þrátt fyrir betri vitund?

 Tilfinningaleg þjónkun við ósannindi, af hvaða toga sem er, eru hinir sönnu fordómar og hér á landi endurspeglast þeir hvað best í flokkspólitíkinni. - Eftir því sem landið verður fjölmenningarlegra eiga þessir tilfinningalegu misbrestir okkar eftir að koma betur í ljós, því í flokkspólitíkinni þykja þeir "eðlilegir".

Svanur Gísli Þorkelsson, 29.1.2009 kl. 13:15

4 identicon

Ófyrirgefanlegt og sorglegt.  Fólk kæmist ekki upp með fordóma í vestrænum löndum.  Nema Íslandi.  Ragnar Aðalsteinsson  sagði einu sinni að Ísland væri aftarlega á merinni hvað varðar mannréttindamál.  Það er fullt af fólki í landinu sem hefur lært erlendis og getur ekki notað það á Íslandi.  Það er víst ekki nógu merkilegur lærdómur að dómi útlendingahatara og þjóðernissinna.

EE (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 13:23

5 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Takk fyrir þetta!

Kveðja frá Sverige!

Ásgeir Rúnar Helgason, 29.1.2009 kl. 15:43

6 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

SMÁ REYNSLUSAGA: Eftir að hafa búið í 10 ár í svokölluðum fínni hverfum Stokkhólms (Östermalm og Bromma), ákvað ég kaupa mér íbúð í innflytjendahverfinu Husby. Ég var einfaldlega leiður á því að vera sífellt að rökræða við fólk um innflytjendur og ágæti fjölmenningar án þess að hafa sjálfur prófað að búa til lengdar í innflytjendahverfi. Einn doktorsnemi minn sem er múslimi benti mér á þetta hverfi og ég lét slag standa.

Í hverfinu er m.a. róttækasta moska Stokkhólmssvæðisins og kjarninn kringum lestarstöðina kallast - taliban city - manna á meðal. Ég bjó þar í 4 ár og þreifst eins og maðkur í mosa. Frábært að þurfa ekki að ferðast til austurlanda eða afríku (þoli illa hita), nóg að fara útí garð og blanda geði við nágrana. Einn stór kostur við að búa meðal múslima er að þeir drekka helst ekki brennivín og því er sjaldgæft að menn séu með fyllirí og læti.

Strákarnir mínir, þeir Hugi og Muni þrifust vel í þessari fjölmenningu. Vinnufélagarnir héldu að ég væri búinn að tapa glórunni þegar ég keypti mér íbúð í Husby - ekki síst þeir sem tala sem hæðst um hvað það sé frábært að búa í fjölmenningarsamfélagi (sic!).

Ég verð að viðurkenna að ég á afar erfitt með að þola framáfólk stjórnmálaflokka (ekki síst á vinstri kantinum) sem básúna um fjölmenningarsamfélag en búa síðan í flottustu menningarsnobbhverfum borgarinnar.

Lifi fjölmenningin!

Ásgeir Rúnar Helgason, 29.1.2009 kl. 15:50

7 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Mikið skelfing hlýjar þessi pistill mér um hjartarætur.

Hafðu þökk fyrir.

Jenný Anna Baldursdóttir, 29.1.2009 kl. 15:53

8 identicon

Mjög góður pistill ,hafðu þökk fyrir.

Margrét (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 16:05

9 identicon

Þetta er mjög holl og góð lesning.

Ég hef nú stundum orðað þetta þannig að þegar maður kynnist vel fólki af öðrum litarhætti en maður sjálfur þá sjái maður ekki lengur "litinn".

Markús Sveinn Markússon (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 16:38

10 identicon

Vil benda ykkur á aðra hatursumræðu sem er stíft í gangi núna í dag: 

Tökum á Gyðingahatri

eftir Baldur Kristjánsson

EE (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 18:07

11 Smámynd: Hermann Óskarsson

Þakka þér þessa hugleiðingu Sigurbjörn. Hún er þörf og gott endurlit. Af henni má ýmislegt læra, ekki bara um áhrif húðlitarins á viðhorf fólks heldur líka um áhrif stjórnmálaskoðana á viðhorf til fólks til annarra. Hef fundið fyrir hvoru tveggja á minni ævi, á ættleiddan son frá Sri Lanka og var a.m.k. á yngri árum talinn frekar róttækur.

Hermann Óskarsson, 29.1.2009 kl. 19:57

12 identicon

Þetta var rétt hjá þér, þessi hitti í mark.

Tómas Örn (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 19:59

13 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Frábær pistill sem í raun hefði átt að vera á forsíðu blaða og tímarita um stund. Held að hann fengi einhverja til að hugsa sig um.

Kveðja.

Ari Guðmar Hallgrímsson, 29.1.2009 kl. 21:17

14 Smámynd: Steingrímur Helgason

Verulega fín skrif um þarft 'taboo' mál.

Tek ofan húfuna.

Steingrímur Helgason, 29.1.2009 kl. 22:58

15 identicon

Eins og talað út úr mínu hjarta. Þurfum að muna að þeim svipar saman í Súdan og Grímsnesinu. Bestu þakkir.

Solveig (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 00:17

16 Smámynd: Eyþór Árnason

Flottur pistill. Takk fyrir.

Eyþór Árnason, 30.1.2009 kl. 01:30

17 identicon

Góð og tímabær skrif. Af hverju fordómar stafa. Samkvæmt orðsins hljóðan stafa þeir af heimsku - að dæma áður en staðreyndir máls liggja ljósar fyrir. En ætli hræðsla ráði ekki líka miklu?

Gott er að muna að enginn fæðist með fordóma, þeir eru algerlega heimatilbúnir

sandholt (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 10:14

18 identicon

Góður pistill, fyrrum nágranni. En fordómarnir rista djúpt, meira að segja innan lögreglunnar, sem ræðst með orðum og æði á fólk af öðrum uppruna. Það þarf að fara rækilega ofan í saumana á kerfislægu uppeldi slíkra stofnanna, sem eiga að vera lit- og skoðanablindar, en eru það svo sannarlega ekki. Ef svo væri, væri ekki að finna "Útlendingastofnun" í samfélagi sem okkar.

Skorrdal (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 12:23

19 Smámynd: Ásgerður

Já, það er hægt.

Takk fyrir þennan pistil Sigurbjörn, við erum nefnilega öll fyrst og fremst  "fólk".

Ásgerður , 31.1.2009 kl. 09:22

20 Smámynd: Þráinn Jökull Elísson

Frábær pistill. Kærar þakkir.

Þráinn Jökull Elísson, 1.2.2009 kl. 19:09

21 Smámynd: Fjóla Björnsdóttir

Takk fyrir yndislegar faeslur Sigurbjörn:

Thetta er thí midur stadreynd,  Vid hjónin höfum upplifad svona vidbrögd.

Bestu kvedjur. 

Fjóla Björnsdóttir, 2.2.2009 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband