Helgarmoli: Kennslustund í tónlistargagnrýni

Það er vandi að skrifa tónlistargagnrýni þannig að vel fari. Ein leiðin er að skrifa bókmenntaverk eins og Sigurður Þór Guðjónsson rithöfundur gerir. Þar með er tónlistin orðin kveikja annarrar fagurrar listar. Við skulum skoða dæmi þess með leyfi höfundar:

"Þú og ég

Ungverski fiðlusnillingurinn György Pauk hélt tónleika í óperunni á laugardaginn. Finnski píanóleikarinn Ralf Gothoni lék með honum. 

Þeir byrjuðu á fiðlusónötu Beethovens op. 12. nr. 1. Og léku mjög beethovenlega. Þeir fluttu einnig A-dúr sónötu Schuberts. Og hana fluttu þeir mjög schubertlega. 

En það voru tuttugustu aldar verkin sem voru opinberun tónleikanna. Fyrst kom sónata fyrir fiðlu og píanó eftir Janácek. Síðan partíta eftir Latoslavski. Og þetta eru mögnuð tónverk. Það er svona list sem sýnir svo átakanlega hve illa við lifum og ómerkilega. Heimurinn er fullur af fegurð og snilld. Og lífið er svo djúpt. En ekki í dægurþrasinu. Ekki í afþreyingunni.   

Við eigum við skelfileg lífskjör að búa. Góð lífskjör eru ekki það að eiga mikla peninga til að kaupa fyrir drasl. Góð lífskjör eru hugarfar. Að lifa í fegurð og sannleika. Að gleyma því að maður sé til af einskærum fögnuði yfir því að vera til. Það er velferð og góð lífskjör. Og þá þurfum við enga afþreyingu af því að í huganum er hamingja og lífsfylling. En þessi gæði koma ekki fyrirhafnalaust gegnum Stöð 2. Það verður vinna fyrir þeim og leggja hart að sér: Menn verða að þagna og hlusta þolinmóðir á sönginn í sálinni. Þá birtast hin æðstu lífsgæði. Í gegnum þá fáu sem hugsa fegurra og dýpra en aðrir. Gegnum snillinga og spámenn mannkynsins. Í sannleika listar, trúar og kærleika. En þetta skilja víst engir lengur nema fáeinir úrtölumenn og sérvitringar.

György Pauk lék af óskaplegri snilld. 

Guð, hvað ég fyrirlít þetta helvítis þras um hvali og bjór! Hve ég hata þetta andskotans land þar sem aldrei skín sól og aldrei er hlýtt og gott og yndislegt! Ég þrái sól og sumar. Bjartan himinbláma. Sælueyjuna. Draumalandið. Ég veit það er til. Þeir hafa sagt mér að því unaðslegar sögur Janácek og Lutoslavski, Beethoven og Schubert. Þangað skulum við fara og þar skulum við búa. Þú og ég. Og elskast eins og englar í himnaríki."                                                                                                       Sigurður Þór Guðjónsson í Dagblaðinu um 1989.

 

Betur verður ekki gert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Betur verður ekki gert.

Þráinn Kristinsson (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 09:41

2 identicon

Það er annars merkilegt að taka eftir því að þegar menn töluðu um lífsgæði '89 minntust þeir á bjór og Stöð 2 - ekki plasmaskjái og Benz-jeppa.

Eins og svo oft áður á það við sem fornt var kveðið - að litlu verður vöggur feginn. Mætti ekki segja að rétt væri fyrir íslenska þjóð að ganga í barndóm á ný?

Friðrik Thor (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 09:43

3 identicon

Magnað! - í einu orði sagt.

Maður sem skrifar svona hlýtur að vera góður elskhugi...

Malína (IP-tala skráð) 6.2.2009 kl. 19:07

4 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Ekki veit ég það Malína, en það hafa gefið sig á tal við mig konur, sem Sigurður Þór hefur sungið fyrir miðevrópska ljóðabálka án truflunar af reykvísku næturlífi. Því kom það mér á óvart, að síðasta framlag hans til tónlistarinnar skildi vera tillaga um að Tónlistarhúsið yrði brotið niður. Mér sárnaði þetta auðvitað. Sigurður gekkst síðan við því, að tillagan lyti eingöngu að atvinnuskapandi aðgerðum og til landhreinsunar.

Ég róaðist.

Sigurbjörn Sveinsson, 9.2.2009 kl. 12:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband