16.2.2009 | 23:48
Skyndibitar í sókn, hollustan á undanhaldi
KFC og aðrar skyndibitakeðjur eru í stórsókn á Vesturlöndum. Fréttir berast frá Bretlandi að KFC hafi á prjónunum fjárfestingar fyrir milljónir punda á næstu 5 árum. Ástæðan er stóraukin velta eftir að þrengdi fjárhagslega að almenningi. Almenningur hverfur til ódýrari skyndibita og velur það fæði í stað hollari matvöru, sem yfirleitt er dýrara í Bretlandi eins og hér á landi.
Það er auðvelt að átta sig á afleiðingunum fyrir heilsufar þjóðanna. Stjórnvöldum hér á landi hefur ítrekað verið bent á, að verðlag matvæla hafi úrslitaþýðingu fyrir neysluvenjur þjóðarinnar. Matarvenjur Íslendinga hafa skánað á allra síðustu árum. Ég tel að það verði ekki skýrt með skynsamlegum aðgerðum stjórnvalda í verðlagsmálum, heldur fyrst og fremst vegna aukinnar kaupgetu almennings og upplýsingu.
Hvað verður um þessa þróun þegar annars vegar þrengir að buddunni og stjórnvöld verða ólíklegri til að fórna skatttekjum af matvæladreifingunni? Hvað verður um skólamáltíðir barna hartleikinna foreldra? Hvað verður um drauminn um ókeypis skólamáltíðir?
Að þessu verðu að hyggja með sameiginlegu átaki. Tími einleikaranna er liðinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég velti vöngum yfir þessum upplysingum og reyni að máta þær við sjálfa mig.
Var einmitt síðast í gærkvöldi að hugsa að nú loks yrðu eldhús aftur eldhús þar sem einhver framleiðsla færi fram. Þar sem áhöld, krydd og þurrvara mætti vera á borðum o.fl.
Hins vegar fer sonur minn til föður síns reglulega og ég verð að segja að þá á ég til að freistast til að ná í skyndibita.
Gæti það kannski verið einhver hluti skýringar að þar væru fleiri ,,einbúar" sem létu freistast og það sem meira er, hugsanlega ódýrara að kaupa eina slíka máltíð með öllu, heldur en að fara í búð og versla hrámeti.
Alma Jenny Guðmundsdóttir, 17.2.2009 kl. 00:03
Takk fyrir að beina sjónum að þessu mikilvæga málefni. Var einmitt að ræða þetta við kunningjakonu mína í gær í samhengi við heilbrigðismál. Það sætir furðu að það séu hærri vsk á til dæmis sojamjólk en kók. Það er undarlegt hve miklu dýrari trefjaríkari matur er en þó er hann í raun minna unninn og ætti að vera ódýrari í framleiðslu. Að fjárfesta í ferskmeti er orðið ótrúlega dýrt, sér í lagi ef það er innflutt - nú ættum við að styrkja við bakið á gróðurhúsabændum - selja þeim orkuna á sambærilegu verði og stóriðju og lána almenningi landskika undir sameignarrekstur á gróðurhúsum og kartöflugörðum.
En það þarf klárlega að breyta vsk þrepinu á margri vöru - ruslmaturinn er oft með lægra þrep en hollustu matur - þá þarf að fræða almenning betur um áhrif þess að borða skyndifæði - ef fer sem horfir þá munu sjúkdómar sem tengjast neyslu ruslfæðis margfaldast og hætt við að lífsgæði fólks muni þverra vegna þess að heilbrigðiskerfið stendur höllum fæti í kreppunni.
Birgitta Jónsdóttir, 17.2.2009 kl. 06:43
Ég held að almenningur í heild viti hvað er hollt og óhollt. Hinsvegar fær almenngingur í landinu bara ekki hollan mat á neinu mannsæmandi verði. Nokkur lauf í poka eru seld í landinu eins dýr og gull og skiptir engu hvort þau eru skemmd eður ei.
EE (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 11:15
Hér má lesa frétt BBC.
Sigurbjörn Sveinsson, 17.2.2009 kl. 11:37
Ég er sammála Birgittu um að það þurfi að hjálpa almenningi inn á betri brautir hvað varðar mataræði - sykur er t.d. mjög ódýr hér og sælgæti og gosdrykkir ódýarara en á hinum Norðurlöndunum. Það væri réttara - og hagkvæmara til lengri tíma - að beina kaupum fólks inn á hollari brautir með meðvitaðri notkun á mism. vsk þrepum og ekki síður með meiri fræðslu, sem vel að merkja þarf að vera öfgalaus. Nú verðum við líka að styrkja landbúnaðinn af öllum kröftum og gefa þéttbýlisfólki líka tækifæri til að fá ódýra landskika til ræktunar. Hugsið ykkur svona huggulega "kolonihave"-rækt utan við bæina - eða jafnvel inni í þeim ef pláss er þar! Það er fátt eins mannbætandi og að sjá plöntur vaxa og dafna ... nema þá kannski að leggja á borð það sem maður hefur sjálfur ræktað!
Ragnheiður Gestsdóttir (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 18:23
Nú fer Ragnheiður Gestsdóttir með himinskautum. Komin í Laugarnesið á lognmjúku ágústkvöldi, blóðrautt sólarlagið á flóanum og drifhvít segl á einhverju skólaskipinu við hafsbrún.
Sigurbjörn Sveinsson, 17.2.2009 kl. 18:32
5: "ódýrara en í hinum Norðurlöndunum". Meinarðu fyrir eða eftir gengiskolfall?
EE (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 21:01
Ekkert er lengur ódýrt í landinu með hroðalegri gengisfellingu og meðfylgjandi verðbólgu. EKki sykur heldur og hefur hann hækkað yfir 100% á u.þ.b. einu ári.
Jón (IP-tala skráð) 17.2.2009 kl. 22:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.