20.2.2009 | 08:13
Helgarmoli: Manstu gamla daga?
Það er allra veðra von þegar bloggvinur minn einn bloggar. Hann er gamall jaxl í faginu og sérstakur áhugamaður um veðrið. Það kunna ekki allir að meta smekk hans fyrir veðri t.d. ekki sófabloggararnir. Látum það liggja á milli hluta.
Rithöfundar gleyma börnum sínum jafnharðan. Laxness hélt þessu fram og afsannaði sjálfur í túninu heima, þegar í ljós kom, að hann mundi allt. Eina stundina bloggar þessi veðurglöggi vinur minn um afturför bloggsins en fyrr en varir er hann floginn á grein um vafasamar hitamælingar á Eyrarbakka. Sú merkilega kenning er sett fram, að hitamælirinn sé staðsettur undir þakskeggi húss, þar sem eldamennskan er með útgeislun. Þarna er s.s. saman komin elíta bloggara, sem kann að lesa tilfinningar á milli lína hvert hjá öðru. Árur bloggsins eru rifjaðar upp allt aftur til 2002 eða jafnvel lengra. Menn eins og ég upplifa sig eins og boðflennur eða öllu heldur statista í kompaníi, sem lifir á stikkorðum og spuna. Man einhver eftir kaffibrúsakörlunum?
Á dögunum örlaði á svolítilli fortíðarþrá hjá þessum vini mínum. Honum fannst blogginu hafa farið aftur svo klifað sé á því sama. Moggabloggið hefði sett það ofan. Það má vel vera rétt hjá honum. Ég er ekki dómbær á það. Ég er nýgræðingur í þessu.
En auðvitað er það rétt, að allt hefur sinn tíma undir sólinni. Þar er bloggið ekki undan skilið. Það er ekki ferskt lengur. Fyrsti bloggari landsins, Jón Eyþórsson, veðurfræðingur, bloggaði vikulega í útvarpið árum saman og aðrir á eftir honum. Þá hét það um daginn og veginn. Það blogg lifði í áratugi enda var það ekki bundið fréttum augnabliksins. Eða þá, að augnablikin voru stærri þá en nú til dags. Jafnvel svo stór að blindir menn og bændur norður í landi blogguðu og búktöluðu í útvarpið og þótti engum tiltökumál. Rammpólitískir.
Ég byrjaði að blogga í lok október, þegar ég fékk bréf frá syni mínum á fertugsaldri í útlöndum, sem sagðist ekki eiga föðurland lengur. Það var mér um megn. Ég varð að fá útrás. Nú er sú erting hjá og ég hef tekið út nokkurn bloggþroska. Fyrirferð þeirra sem "ropa þegar potað er í þá" eykst og umferðin er að hluta "vonabíar" í pólitíkinni, sem eru á leið í framboð. Það getur aldrei orðið skemmtilegt. Fyrir mér er það eins og að vera á föstu og horfa á korteríþrjú umferðina á Óðali. Engin spenna.
Andrés Björnsson, útvarpsstjóri, bloggaði áramótablogg í útvarp. Þau eru fágæti. Hann náði heljartökum á þeim, sem lögðu við hlustir. En hann vissi það ekki, því hann var auðmjúkur maður og hlédrægur, sem gerði engar áberandi kröfur til viðurkenningar í lífinu. Öllu var á hann troðið og var honum raunar um megn í góðmennskunni.
Hann sat við fætur C.S Lewis í Oxford. Þar var Tolkien einnig á ferð um lífið. Þeir reyktu saman pípu yfir bjórkollu á kvöldin hann og Lewis. Þar heitir Eagle and Child og má auðveldlega finna við aðalgötuna.
Ef menn vildu blogga hér áður fyrr, þá þurfti að koma því á prent. Í Skírni til að mynda. Menn urðu að gefa út blað. Listirnar kröfðust síns. Þær fengu Birting. Allt var þetta fyrirhöfn og fórn. Keypt dýru verði.
Þess vegna var höndum ekki kastað til innihaldsins.
Bloggið er hluti þeirrar menningar, sem fellur okkur í skaut . Það snýst á hjóli tímans eins og öll okkar tilvera undanfarin misseri. Hraðar og hraðar með hverju andartaki þar til úr rýkur. Og við sjáum ekki fyrir endann á því frekar en öðru, eins og forðum í september.
Á þessum víðsjárverðu bloggtímum er þó alltaf rúm fyrir þá, sem feta vilja í fótspor Jóns Eyþórssonar, sérstaklega ef þeir eru veðurfræðingar við alþýðuskap.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:46 | Facebook
Athugasemdir
Góð samantekt um bloggið af sjónarhóli okkar nýliðanna hér - einnig hugleiðingar um 'blogg' fyrri tíðar! Vekur umhugsun.
Veðurblogg Einars Sveinbjörnssonar dugir mér oftast - Gaman að veðurpekúleringum, minnið á því sviði sérkennilega brokkgengt. Ég man veðrið á Suðurlandi sumarið 1955 betur en veturinn í fyrra. Svo mun um fleiri er 'uppi' voru á þeim tíma. Venjulegra veðurfar þarf að spyrja þá um sem bæði eru minnugir og áttu sitt undir veðri - eða fletta veðurskýrslum. Ég get enn 'flett upp' í 89 ára fóstru minni úr Hreppunum um mikilvæga hluti, s s eins og hvernig viðraði um sláttinn 1943 eða, segjum 1990!
Hlédís, 20.2.2009 kl. 09:23
úff...."á fertugsaldri"....þú hefðir nú mátt sleppa þessu
Tómas Örn (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 09:23
Þetta er góðu pistill a tarna hjá þér. Hæfir manni sem er að hætta að vera rúmlega fimmtugur. Til hamingju með daginn. "Vonabíi". Óþarfi er að setja svo kræsilegt nýyrði í gæsalappir. Mér hefur reyndar dottið í hug hvort ekki megi hafa um þetta hugtak orðið vonabíri. Bíri er gamalt orð yfir stútung eða þorsk. Eða jafnvel vonabísi. Bísi er ómaklega notað um þjófa eða þá sem eru á bísanum. Mér finnst óþarfi að gefa það í skyn að þeir sem eru pólitískir vonabísar séu þjófar en þeir gætu auðvitað verið á vonabísanum. Læt ég þetta hér með þjóðinni eftir til ákvörðunar.
Sandholt (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 19:18
Mig langar. aðallega, að hugga TÖS:
Það er raunverulega til: Líf eftir þrítugt!
!
Hlédís, 20.2.2009 kl. 19:33
Tómas minn: Þetta er huggun geðlæknis. Hvað geturðu beðið um meira?
Sigurbjörn Sveinsson, 20.2.2009 kl. 20:24
Sigurbjörn, þú leynir á þér. Ekki orðinn 60. Enn til hamingju meö daginn.
Brói (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 20:51
Kveðja til feðga sem er viss um að leggja sitt til lausnar vanda þjóðarinnar!
Hlédís, 20.2.2009 kl. 21:10
Þegar menn hafa verið í "læknapólitík" frá því á fyrsta ári í læknisfræði þ.e. í 36 ár þá verða þeir hvíldinni fegnir. Þeir leita hælis í solodansi bloggsins, sem einskis krefst; þar sem krafan um rökhelda hugsun er víðsfjarri. Þetta fólk mun tæplega leysa vanda þjóðarinnar. Nú er það "free riders" og í rauninni ekkert við það að athuga.
Sigurbjörn Sveinsson, 20.2.2009 kl. 21:21
Mín baráttuár eru, sannanlega, orðin 49, ef þorskastríð telst með. Þátttaka i jafnréttisbaráttu 43 ára.
Þú ert ekki stikkfrí enn, kæri Sigurbjörn, þó væri þægiegt! því síður ungmennið. sonur þinn. Ég er fegin að vita af ykkur ;)
Hlédís, 20.2.2009 kl. 21:46
Kom bara til að kasta kveðju á þig... bloggið er náttlega bara frábært, raddir fólksins sem heyrðust aldrei áður, nema á kaffistofum og úti í horni :)
Partur af frelsi okkar..
DoctorE (IP-tala skráð) 20.2.2009 kl. 22:53
Nei Doktor E mættur. Ég var kominn með fráhvarfseinkenni. Hvar er afgangurinn af elítunni?
Sigurbjörn Sveinsson, 20.2.2009 kl. 23:53
Gaman að sjá að þið DoktorE eruð orðnir perluvinir. Öðruvísi mér áður brá!
Malína (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 00:15
Sæll Sigurbjörn.
Þetta er þarfur pistill, inn í umræðuna um bloggið, og þar að auki skemmtilega orðaður hjá þér.
Takk fyrir.
Kveðja.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 21.2.2009 kl. 06:52
Nú er ég bara orðlaus. Hópurinn mættur þarna, og bæði DoctorE og Þórarinn. Já, ég man eftir kaffibrúsakörlunum.
EE elle (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 12:31
En kannski getur TÖ fengið að vera 30 + fyrst og seinna verið bendlaður við fertugsaldur?
EE elle (IP-tala skráð) 22.2.2009 kl. 12:37
Hér birtist nú einn úr elitunni. Og ekki minnstur kaffubrúsakallinn! Sigurbjörn, Doksi, Elle og aðrir góðir og geðlæknir til að gæta að því að allt fari ekki í rugl. Frábær félagsskapur!
Sigurður Þór Guðjónsson, 25.2.2009 kl. 00:28
Er að hlusta á Schubert-Leider ofan á allt annað!
Sigurður Þór Guðjónsson, 25.2.2009 kl. 00:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.