24.2.2009 | 09:54
Ómar Ragnarsson hafði nægan tíma
Nú er alltaf eins og hann sé að missa af einhverju. Honum er margt betur gefið en að standa í pólitík. Hann skortir undirhyggjuna, sem virðist þurfa til að ná hylli okkar. Það er að sínu leyti dapurleg umsögn um okkur.
Eftir að hafa hrifist af tríói Þórðar Sigurðssonar í frístundahúsinu eins og ég bloggaði um í gær, þá leit ég á nokkrar gamlar Stiklur Ómars að vestan. Hann byrjaði á Klukkufellsmelum í Reykhólasveit, þar sem hann hitti breiðfirska hestamenn reyna með sér gæðinga sína. Þá fór hann yfir á Kinnarstaði í Þorskafirði og átti orðastað við Ólínu Magnúsdóttur, þessa með frolluna á dráttarvélinni. Þar bjó hún við systur sínar tvær og voru allar um eða yfir áttrætt. Ég kom oft á Kinnarstaði, en sá Guðrúnu sjáldan, þá sem elst var. Hún var of upptekin við gegningar eða annað þarft og hafði enga þörf fyrir lækni. Ómar endaði svo í Kollafirði í Gufudalssveit. Þar var fyrir Jóakim á Kletti, sem var að bregða búi og spáði firðinum í eyði. Þetta var fyrir hálfum þriðja áratug og enn er búið í Kollafirði.
Þessir þættir Ómars hafa annan brag heldur en margt það, sem nú er gert. Þeir eru einhvers konar klassík, sem orðið hefur til þannig að þvinga tímans er víðs fjarri. Ómar gefur sér tóm til að kalla fram andrúmið, sem viðmælandinn hrærist í, umhverfið, landslag, dýralíf, búskapurinn, allt fær þetta sinn stað og samtalið er átakalaust, þrátt fyrir örvandi innsog Ómars. Jafnvel rykmökkurinn eftir Löduna í kynningu þáttarins hefur sína þýðingu; honum fylgir ilmur liðinna daga, sem setur mann í réttar stellingar.
Er hraðinn á hjóli tímans að svipta okkur þessu líka?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:32 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Sigurbjörn.
Já, ég get tekið undir þetta.
Ómar. er ekki sá karakter sem þarf til að vera í pólitíkinni þeirri sem væntanlega er að renna sitt skeið á enda.
Vonandi fáum við heiðarlegra og skeleggra fólk í Stjórnmál í framtíðinni.
En Ómar er fremmstur meðal Íslendinga þegar kemur að því að við viljum fræðslu og afþreyingu í öllum myndum.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 12:22
Sæll Sigurbjörn.
Ómar er bestur í að gera skemmtilega heimildaþætti og draga fram sérstöðu lands og þjóðar. Hann á ekki heima í pólitík
Margrét St Hafsteinsdóttir, 24.2.2009 kl. 15:08
Sæl verið´ið. Ómar Ragnarsson er held ég bæði góð sál og hæfur í hvað sem hann sjálfur kýs. En skelfilegt hvað pólitík virðist þó fara illa með sálina í fólki.
EE elle (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 00:01
Afhverju kemurður ekki á Facebook maður? Þarð er fjörið.
Sigurður Þór Guðjónsson, 25.2.2009 kl. 00:22
Því miður held ég að ekki sé lengur heilsárs búseta í Kollafirði og því sé Skálanes vestasti bærinn í byggð í þeirri ágætu sveit, Reykhólahreppi.
óhj (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 20:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.