Misheppnuð skólastefna eða samfélag á undanhaldi?

Reglubundið verður til umræða um launakjör kennara og mikilvægi kjaranna við að halda fólki að starfi. Öll viljum við halda í góða kennara fyrir börnin okkar og kjörin eru ríkur þáttur í þeirri viðleitni. “Keep the pastures green at home” , sagði vinur minn einn vitur frá Suður-Afríku. Síðustu atburðir í skólum landsins hafa vakið upp gamlan draug með mér.

Það eru s.s. aðrar áhyggjur en af kjörunum, sem banka upp á, þegar staða kennara er metin. Það eru vinnuaðstæðurnar. Og þá er ekki átt við húsakostinn eða búnaðinn, sem fylgir skólastarfinu, heldur agaleysið og ringulreiðina, sem fer vaxandi í íslenskum skólum. Einhvers staðar höfum við tekið ranga stefnu og vikið af leið. Það endurspeglast víðar í þjóðfélaginu en í skólunum með atburðum, sem endurtaka sig t.a.m. reglulega í Reykjavík um helgar. Þar er ekki við kennarana að sakast. Þar liggur agaleysið að baki ásamt tillitleysi eða öllu heldur fyrirlitning á friðhelgi borgaranna og rétti til ótruflaðrar umferðar um heimahverfi sín.

Í  skólunum hefur reglu verið fórnað fyrir hugmyndafræði, sem krefst réttar fyrir þá, sem jafnvel geta með engu mótið notið hans. Kennurum er ætlað að halda uppi kennslu í ringulreið ósamstæðra nemaenda og auk þess eru þeir og skólastjórnendur ítrekað sviptir nauðsynlegum úrræðum til að halda uppi heilbrigðu skólastarfi. Nemendur hafa jafnvel í hótunum við kennara með stuðningi foreldra.     

Þessu verður að breyta ef ekki á illa að fara. Launin duga ekki ein til að halda kennurum að starfi. Þeir verða líka að búa við aðstæður, sem gera þeim kleift að endast. Í grænum högum en ekki á berangri daglegrar óvissu. Við þær aðstæður í skólunum mun smám saman draga úr ótímabærum þvaglátum í miðbæ Reykjavikur og ofbeldi í skólunum.

Sá afríski vinur, sem til er vitnað að ofan, sagði það sína skoðun, að ekki væri við fátækt að sakast, þegar litið væri til óróans og agaleysisins í hans heimlandi. Glæpatíðnin væri alls ekki mest þar sem fátæktin væri verst. Þetta væri arfur sjálfstæðisbaráttunnar; þegar unglingar fengu frjálsar hendur við mótmæli og jafnvel til ofbeldisverka. Tilgangurinn helgaði meðalið. Og þessar kynslóðir losna ekki út úr kreppu ofbeldisins.

Sér nokkur líkindi með því og aðstæðum okkar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Aginn á að koma heiman frá. Kennarar eiga ekki að ala upp börn  annara.

Kennarar eiga að aðstoða foreldra við að fræða og koma börnum til betra manns.

Börn eru og verða eingöngu, á ábyrgð foreldra.

Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 14:27

2 identicon

Sigurbjörn, þakka þér fyrir þennan pistil sem gleður mitt gamla kennarahjarta.

Lengi var launum okkar kennara haldið niðri með því að minna okkur á hvað við hefðum góðan lífeyri, en það á nú bara við okkur sem elst eru.  Oft var okkur sagt að við værum allt of stór hópur til að hækka við okkur launin, hvort það mætti ekki bjóða okkur einhvern sjóð til að róa okkur og svo endaði samningaþófið með því að við fengum sjóði, einn í einu, sem fólk hefur haft mismikið gagn af og skilar engu í lífeyrissjóð hvað þá heldur að við gætum ráðstafað þessum aurum að eigin vali t.d. til að mennta börnin okkar í listum eða íþróttum.

Annars er það auðvitað rétt hjá þér að það er enginn í kennslu vegna launanna einna og ég er hrædd um að fólk gefist upp við þær aðstæður sem kennurum eru búnar og þú skrifar um af miklum skilningi.

Ég veit dæmi þess að fólk hefur orðið að hætta kennslu af heilsufarsástæðum það þarf  hestaheilsu til að halda út, ég tala nú ekki um til að hafa eitthvað afgangs til að gefa sínu heimafólki og sinna hugðarefnum.

Nú held ég að það sé tímabært að stöðva þennan flaum sem streymir fram þegar ég lít yfir ævistarfið.

Bestu kveðjur, H.P.

Hólmfríður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 21:30

3 identicon

Þarna er mér rétt lýst.

Gleymi því sem mestu máli skiptir í pislinum þínum. Ég held að það sé ekki vegna þess að þetta efni getur verið viðkvæmt og getur verið vandmeðfarið í stuttu máli.

Fyrst verð ég að segja eins og ég sagði við sjálfa mig áður en ég fór í skólann:,,Mundu svo að skólinn er fullur af yndislegum börnum, sem þurfa á þér að halda."

Sú stefna sem hefur verið ríkjandi undanfarin ár er falleg á pappír, en gengur ekki upp nema ráðið verði fleira fólk sem hefur sérhæft sig til að kenna og hlúa að þeim nemendum sem þurfa meiri persónulega þjónustu en kennari getur veitt í hópkennslu. Stuðningsfulltrúar létta undir en betur má ef duga skal.

 Mín skoðun er sú að taka þurfi tillit til hvers og eins barns þegar valinn er skóli fyrir barnið og þar eigi þarfir barnsins að ráða en ekki vilji foreldra eins og nú er.

Ég er viss um að mörg börn sem núna eru í skóla án aðgreiningar (í venjulegum grunnskóla) væru mun ánægðari í sérskóla og allir vita að óánægt barn sem líður illa lærir lítið sem ekkert, en getur valdið mikilli truflun í umhverfi sínu.

 Ég þekki líka mörg dæmi um börn sem áður hefðu verið sett í sérskóla,en  hafa verið mjög ánægð og þeim liðið vel í grunnskólanum. Þau hafa plumað sig félagslega og eignast góða vini.

 Nú, svo eru það allir útlendingarnir sem þurfa að læra nýtt mál um leið og námsgreinarnar. Það er ekki nema von að stundum verði þau ergileg og láti það bitna á umhverfinu.

Það verður að bíða betri tíma að tala um þær breytingar sem hafa orðið á þeim gildum sem börnum eru innrætt. Þar er margt öðruvísi en áður var.

kvejða á ný

Hólmfríður Pétursdóttir (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 22:29

4 Smámynd: Sigurður Haukur Gíslason

Gott að þú skulir vekja máls á þessu. Þörf og gagnleg umræða.

Sigurður Haukur Gíslason, 5.3.2009 kl. 01:08

5 identicon

Menntakerfið verður e.t.v. næsta bóla sem springur.  Gæði menntunar eru lág, háskólar skila í raun verkmenntuðu fólki, ekki menntuðu í eldri skilgreiningu þess orðs.  Það sést best á öllum sérfræðingunum úr greiningadeildum og gróðurhúsakenningar alarmistum sem nú eru rúnir trausti.

Kennarar ættu að hætta að kenna börnum að vera "team players" og fara að kenna þeim að vera einstaklingar, að virða skoðanir annarra, að virða rétt annnarra og sjálf sín til að lifa á eigin forsemdum.  Team players eru svo auðveldlega sveigðir inn í hverja þá trekt sem er í boði.  Það þýðir fákeppni í hugmyndum um hvernig þjóðfélagið getur verið.  Það leiðir svo til alræðisríkja, því það er hið sjálfgefna form, alræði og kúgun.  Lýðræði þrífst ekki til lengdar ef allir eru "með á nótunum" um allar hugmyndir, allir syngja sama lagið í kór.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 09:55

6 identicon

Ég er mikið sama sinnis og Gullvagninn.  Sjálfstæði og virðing fyrir rétti annars fólks er lykilatriði bæði í kennslu og uppeldi.  Það finnur held ég þorri foreldra og kennara.  Gallinn finnst mér vera foreldrar sem annað hvort nota engan aga við uppeldi og börn fá að vaða yfir allt og alla, eða járnaga, sem er bara eyðilegging á sjálfstæðiviðleitni barnsins, m.ö.o. kúgun.  Og kennarar eru misjafnir og sumir þeirra beita járnaganum sem veldur bara mótþróa og reiði barna og virkar öfugt við aga.  Svo eru hinir sem krefjast þess að allir vinni endalaust saman og allir séu vinir, og líka þeir sem eru kannsk gagnkvæmir gerendur og þolendur í andlegu og líkamlegu ofbeldi, eða einelti.  Það hefur ekki nokkra þýðingu að að þvinga alla, hvar sem þeir eru staddir í lærdómsgetu og þroska, í hópvinnu og samvinnu.  Ég veit dæmi um bekk, þar sem einn var gerandi endalauss andlegs og líkamlegs eineltis gegn öðru barni.  Og það eina sem kennaranum datt í hug að gera til að stoppa það var að segja: "En þið eigið öll að vera vinir" .  Heldur en að stoppa gerandann var krafan að þolandinn væri bara vinur hins og ynni með honum.  Þannig krafa er fjarstæðukennd.  Og endar bara með skelfingu.

EE elle (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 11:13

7 identicon

Og bæti við:  Þannig að agi í skólum veltur ekki bara á uppeldi barnsins heima, heldur líka á hæfileika kennara og skólastjóra til að taka á vandamálum eins og einelti.  Vel uppalið barn getur ekki lifað og lært í friði í illa stýrðum og óöguðum skóla.

EE elle (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 11:48

8 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Það eru um það bil 15% nemenda sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda í grunnskóla. 

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 5.3.2009 kl. 12:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband