5.10.2009 | 09:25
Nýta ber kreppuna eftir kostum
Eitt og annað í íslensku þjóðlífi hefur snúið til góðs við hrunið. Þjóðin hefur staldrað við og endurmetið margvíslega hluti og lagt ósiði til hliðar, sem hún var búin að temja sér. Kreppuna, sem fylgir hruninu, má og á að nota til svipaðra hluta.
Kreppan gefur tilefni til að endurskipuleggja þætti, sem áður var ómögulegt að taka á vegna kerfislægrar andstöðu. Allir sparnaðartilburðir fyrri tíma hafa því byggst á flötum niðurskurði enda auðveld leið til að sýna fram á, að jafnræðis sé gætt við þær ákvarðanir. Þessi aðferð hefur hins vegar haft í för með sér sleifarlag gagnrýnislausrar hugsunar í einstökum ríkisstofnunum og flata kostnaðaraukningu í kerfinu, þegar betur áraði.
Því er sjálfsagt að taka undir viðvörunarorð Huldu Gunnlaugsdóttur, þegar hún varar við flötum niðurskurði á Landspítala. Kreppan veitir tækifæri til að styrkja heilbrigðan sjúkrahúsrekstur ríkisins með sértækum og vel skilgreindum niðurskurði.
Flatur niðurskurður hættulegur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég er búinn að leita út um allt að þessum tækifærum sem áttu að fylgja kreppuni.
Offari, 5.10.2009 kl. 12:17
Þetta er greinilega mjög jákvætt framlag en hvaða niðurskurði telur þú líklegasta til að "styrkja heilbrigðan sjúkrahúsrekstur ríkisins" (og hvers vegna) ?
Agla (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 15:36
1. Sú meginregla, sem ég set fram, hefur almenna skírskotun til þess, þegar velja á milli flats niðurskurðar eða vandaðra sparnaðaráætlana í hvaða viðfangsefni sem er.
2. Líta þarf á LSP og kragasjúkrahúsin og Selfoss sem eina heild svo og heilsugæsluna á þessu svæði og skera niður þannig að þjónusta verði ekki skert hvað varðar verkefni sem einungis eru gerð á LSP og ekki hægt að gera annars staðar. Þau verk verði lögð af á minni sjúkrahúsunum, sem þar eru gerð en hægt að sinna einvörðungu á LSP með þeim mannskap, sem fyrir er.
3. Þau verkefni, sem unnið er við á LSP og krefjast ekki alls þess viðbúnaðar, sem þar er, verði útvistuð á smærri sjúkrahúsum eða í heilsugæslunni og á læknavöktum.
Sigurbjörn Sveinsson, 5.10.2009 kl. 16:01
Mogginn hefði átt að setja krækju á skýrslu Huldu, svo að almenningur gæti kynnt sér málið. Zoega segist búinn að vera skera niður í mörg ár og hafi ekkert til aflögu. Sjálfsagt rétt?
Ólafur Sveinsson (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 22:10
Ég er sammála þér Sigurbjörn að flatur niðurskurður sé ekki rétta leiðin. En er ekki best að ríkisstjórnin fari fram á flatan niðurskurð í einstökum málaflokkum og láti síðan þá sem vinna við þau mál, t.d. framkvæmdastjóra sjúkrahúsa sjá um útfærsluna.
Reyndar finnst mér að röksemdir stjórnenda séu stundum dálítið kjánalegar. Framkvæmdastjóri Landspítalans talar t.d. um það að peningar sparist í viðhaldi gamalla bygginga með því að byggja nýtt sjúkrahús.
Ekki reikna ég með að það sé meiningin að láta gamla Landsspítalahúsið grotna niður þegar búið er að byggja nýja spítalan.
Menn verða að hugsa rökrétt til þess að hægt sé að treysta þeim fyrir skurðarhnífnum.
Sigurjón Jónsson, 6.10.2009 kl. 09:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.